Róleg byrjun hjá nýrri kynslóð þingmanna

Aldrei hefur jafn margt ungt fólk tekið sæti á Alþingi og síðastliðið vor. Vonir voru og eru bundnar við að þessu unga fólki fylgi áherslubreytingar. Hins vegar gefur stutt ágrip af þingstörfum þessara ungu þingmanna nú á haustþinginu ekki tilefni til að ætla að þeir ætli að láta mikið til sín taka.

Aldrei hefur jafn margt ungt fólk tekið sæti á Alþingi og síðastliðið vor. Vonir voru og eru bundnar við að þessu unga fólki fylgi áherslubreytingar. Hins vegar gefur stutt ágrip af þingstörfum þessara ungu þingmanna nú á haustþinginu ekki tilefni til að ætla að þeir ætli að láta mikið til sín taka.

Meðal þeirra ungu þingmanna sem tóku sæti á Alþingi í vor má nefna Guðlaug Þór Þórðarson, Sigurð Kára Kristjánsson og Birgi Ármannsson (Sjálfstæðisflokki), Dagnýju Jónsdóttur og Birki J. Jónsson (Framsóknarflokki) og Björgvin G. Sigurðsson, Ágúst Ólaf Ágústsson og Katrínu Júlíusdóttur (Samfylkingu). Einnig mætti nefna Gunnar Örlygsson úr Frjálslynda flokknum, en hann settist ekki á þing fyrr en rétt nýlega.

Þótt þetta unga fólk komi úr ólíkum flokkum voru ákveðnar vonir bundnar við að tilkoma svo margra úr nýrri kynslóð stjórnmálamanna myndi hrista upp í störfum þingsins, að þetta fólk myndi hreyfa við mörgum málum sem ekki hafa verið ofarlega á blaði hjá eldri kynslóðum.

Þessir nýju þingmenn hafa hins vegar látið lítið fyrir sér fara í starfi þingsins hingað til, alla vega sé tekið mið af málaskrá þingsins. Ef frá eru taldar fyrirspurnir, sem eru nokkuð margar, þá liggja tvö þingmál á borðinu frá þessum hópi eftir haustþingið.

Annað er breytingartillaga sem Guðlaugur Þór Þórðarson gerði við frumvarp félagsmálaráðherra til laga um tímabundna ráðningu starfsmanna, en sú tillaga hljóðaði svo: „Við 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. bætist: hverju sinni.“

Hitt þingmálið er þingsályktunartillaga sem Björgvin G. Sigurðsson og Katrín Júlíusdóttir voru aðalflutnignsmenn að um eflingu iðnnáms, verknáms og listnáms í framhaldsskólum. Raunar stóð allur þingflokkur Samfylkingarinnar að þeirri þingsályktunartillögu sem meðflutningsmenn.

Eftir að 1/8 af kjörtímabili þessara nýju þingmanna hafa hinir fersku vindar blásið fremur mjúklega um þingsalina. Hægur andvari – jafnvel ládeyða – væri betri líking við verðurfarstilbrigði. Hins vegar verður að hafa það í huga að flutningur mála segir ekki alla sögu um störf þingmanna og í einhverjum tilvikum eru hinir nýju þingmenn meðflutningsmenn að málum sem eldri þingmenn bera fram.

Það á t.d. við um þá Sigurð Kára Kristjánsson og Birgi Ármannsson sem standa að frumvarpi með Pétri Blöndal um breytingu á útvarpslögum, en það er svo að segja óbreytt frá eldra frumvarpi Péturs. Sama gildir um Guðlaug Þór Þórðarson sem er meðflutningsmaður Péturs að breytingu á lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna sem afléttir skyldu þeirra til að vera í stéttarfélagi. Hvoru tveggja eru mikil framfaramál hjá Pétri Blöndal og staðfesting á því að hans sjónarmið á þingi hafa lengi endurspeglað viðhorf yngri kynslóða.

Sá þingmaður úr hópi ofantalinna sem látið hefur mest að sér kveða á haustþinginu, sé tekið mið af málaskrá Alþingis, er Björgvin G. Sigurðsson. Það þarf ekki að koma á óvart að það sé þingmaður stjórnarandstöðu sem er fyrirferðarmestur enda fer mikill tími hjá þingmönnum stjórnarflokkanna í nefndasetur og þess háttar. Þannig er til dæmis málum háttað hjá hinum ungu framsóknarþingmönnum, Dagnýju og Birki, en megnið af þeirra þingflokki gegnir ráðherraembætti og því mikið álag á óbreyttum þingmönnum.

En Björgvin slær sumsé öllum „jafnöldrum“ sínum við að þessu sinni enda liggja eftir hann hvorki meira né minna en ellefu fyrirspurnir til ráðherra, að viðbættri áðurnefndri þingsályktunartillögu. Þess ber að geta Björgvin var í feðraorlofi stóra hlutan haustþingsins. Katrín Júlíusdóttir, samflokksmaður Björgvins, kemur næst með 4 fyrirspurnir og er hún ekki hálfdrættingur á við sunnlendinginn. Til samanburðar má nefna að Guðlaugur Þór hefur sett fram tvær fyrirspurnir og Sigurður Kári eina. Aðrir hinna ungu þingmanna eiga ekki skráð þingmál enn sem komið er, nema sem meðflutningsmenn.

Áður en lengra er haldið er rétt að taka það fram, að fjöldi fyrirspurna er auðvitað ekki nokkur einasti mælikvarði á störf þingmanna. Raunar má halda því fram að fjöldi fyrirspurna til ráðherra sé að keyra úr öllu hófi fram og stundum hin léttvægustu atriði sem þannig tefja störf þingsins og valda kostnaði hjá stjórnsýslunni. Hér er t.a.m. ekki fjallað um þátttöku hinna ungu þingmanna í nefndarstörfum, sem eru einn mikilvægasti þáttur þingmannsstarfsins, umræðum utan dagskrár og umræðum um einstök mál. Og vissulega hafa þingmennirnir ungu ekki setið hjá í umræðum á Alþingi.

Hins vegar er því ekki að neita að margir áttu von á því að hinir ungu þingmenn myndu beita sér af meira afli fyrir ýmsum af þeim málum sem þeir lögðu svo mikla áherslu á í prófkjörum í aðdraganda kosninga og í kosningunum sjálfum. Þeir hafa þó enn tímann fyrir sér og það er kannski í sjálfu sér ágætt að fara ekki of geyst af stað.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.