Nýjar áherslur hjá Rumsfeld

Donald Rumsfeld, nýskipaður varnamálaráðherra Bandaríkjanna, hyggst hrinda í framkvæmd mjög viðamiklum breytingum á uppbyggingu bandaríska hersins. Þær breytingar eru í samræmi við boðskap Georges W. Bush í kosningabaráttunni um hvaða hlutverki Bandaríkjamenn hefðu að gegna í alþjóðamálum.

Donald Rumsfeld, nýskipaður varnamálaráðherra Bandaríkjanna, hyggst hrinda í framkvæmd mjög viðamiklum breytingum á uppbyggingu bandaríska hersins. Þær breytingar eru í samræmi við boðskap Georges W. Bush í kosningabaráttunni um hvaða hlutverki Bandaríkjamenn hefðu að gegna í alþjóðamálum. Bush-stjórnin hefur aðhyllst þá stefnu, að ekki eigi að blanda bandaríska hernum í nein mál þar sem ekki er um þjóðaröryggi Bandaríkjanna að ræða og fullvíst sé um árangur. Þetta er andstæðan við það sem Bill Clinton aðhylltist og kallað var „nation-building“ eða hlutverk Bandaríkjamanna við samfélagsuppbyggingu í stríðshrjáðum löndum.

En aðrar áætlanir Rumsfelds eru ekki síður athyglisverðar. Washington Post hefur það eftir heimildarmönnum sínum i bandaríska varnarmálaráðuneytinu, að héðan í frá muni allt kapp verða lagt á uppbyggingu varna á Kyrrahafssvæðinu í stað Evrópu, eins og verið hefur frá stríðslokum. Þetta þýðir að Bush-stjórnin lítur svo á, að Bandaríkjunum muni í framtíðinni stafa mest ógn af Kínverjum, og er það í samræmi við fyrri yfirlýsingar Bush. Þetta er í raun grundvallarstefnubreyting í varnamálum Bandaríkjamanna. Kyrrahafið er að mati stjórnenda bandaríska hersins næsti vettvangur meiriháttar stríðsátaka.

Með hliðsjón af þessu eru fyrirhugaðar áherslubreytingar í uppbyggingu heraflans. Til að mynda mun Rumsfeld leggja meiri áherslu á landdrægar sprengjuflugvélar en skammdrægar orrustu/sprengiflugvélar, eins og nýttust Clinton-stjórninni svo vel í sífelldu áróðursstríði og til að ná hinum s.k. „nation-building“ markmiðum sínum. Ennfremur ætlar að Rumsfeld að leggja minni áherslu á uppbyggingu stórra flugmóðurskipa sem eru auðveld skotmörk eldflauga andstæðinganna. Þess í stað verður lögð áhersla á minni skip sem verða búin skamm- og langdrægum eldflaugum og með öflugar eigin varnir.

Eflaust eiga sjálfskipaðir friðarpostular eftir hafa horn í síðu Bush-stjórnarinnar og þegar hafa vinstrisinnaðir fjölmiðlar notað hugtök eins og kaldastríðshaukur um einstaka menn í ríkisstjórninni. En þeim hinum sömu yfirsést í raun megininntakið í hinni nýju varnarmálastefnu Bandaríkjanna, nefnilega að minnka íhlutun Bandaríkjanna í málefni annarra ríkja, að láta af því hlutverki alheimslögreglu, sem Clinton-stjórnin reyndi að sinna með misjöfnum árangri.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.