Þetta er ágætt, takk fyrir …

Margt hefur verið sagt undanfarið í nafni femínisma og misgáfulegt. Því neyðast femínistar stöðugt til að rökræða skilgreiningu orðsins og halda margir því fram að femínismi og jafnréttishyggja séu samheiti. Þetta er ekki rétt. Femínismi er hugtak sem undanskilur karlmenn, hvað sem hver segir, og hollast væri leggja þessu slagorði sem fyrst í umræðu um jafnréttismál.

Á fimmtudögum, fyrir þáttinn „Sex and the City“, má sjá auglýsingu með Jónsa í Svörtum Fötum. Hún fjallar um myndarlegan strák sem ekur á sportbíl yfir landslag sem virðist vera úr súkkulaði. Allt í einu spretta upp gylltar risakonur á Evuklæðunum einum saman og brosa til hans. Pilturinn vippar sér út úr bílnum, og klykkt er út með léttum orðaleik, því piltinn var að dreyma og það er einmitt verið að auglýsa Freyjudraum.

Undrun pistlahöfundar, þegar þessi auglýsing kom til umfjöllunar í Kastljósinu, var alger. Á skjánum var ungur femínisti, sem taldi þessa auglýsingu vera þá mest niðurlægjandi sem hún hefði séð að undanförnu. Auglýsingin átti að vera niðrandi fyrir gylltu risakonurnar, og allar konur, vegna þess að hún „hlutgerði“ þær.

Hvað er að? Á síðustu mánuðum hafa birst auglýsingar þar sem karlmanni er sparkað út úr rúmi af unnustu sinni til að hún hafi meira svefnpláss, karlmaður hefur verið læstur úti af heimili sínu til að unnustan hafi frið til að borða lambakjöt, og sjónvarpsáhorfendur hafa verið hvattir til að hlæja að misþyrmingum kattar á kynfærum karlmans sem var að ná í popp handa elskunni sinni.

Val ungu konunnar á Freyjuauglýsingunni sýnir vel hvað hægt er að leyfa sér í nafni femínisma í dag. Að úthúða stráknum í sælgætislandi fyrir það eitt að dreyma um bíla, súkkulaði og fagrar konur er þvílík þröngsýni að það hálfa væri nóg.

Í raun má segja að umræðan um jafnréttismál einkennist þessa dagana af sterkri kröfu um sjálfsritskoðun karlmanna, en engin slík krafa er uppi fyrir konur. Ef því er haldið fram að launamunur kvenna orsakist af því að þær setji fjölskyldu og heimili í hærri forgang en karlmenn þykir ekki sérstök ástæða að rökræða þá fullyrðingu af alvöru, heldur er einfaldlega settur upp vanþóknunarsvipur. Í staðinn er því haldið fram að vinnumarkaðurinn hafi hingað til verið „karllægur“ og gert konum erfitt fyrir að vinna samkvæmt þeim mynstrum sem þeim hentar.

En á sama tíma leyfir upplýstur hægrifemínisti, sem pistlahöfundur þekkir til, sér að halda því fram án nokkurs fyrirvara, að hækkun bílprófsaldursins sé skynsamleg vegna þess að „17 ára strákar séu svo miklu óþroskaðri en stelpur á þessum aldri“. Þá fer lítið fyrir „kvenlægum“ umferðarreglum.

Það er á glettilega mörgum sviðum samfélagsnins sem tvískinnungur af þessu tagi viðgengst og er hann á báða bóga. Eitt slíkt dæmi eru stúlkur og strákar sem eiga sér marga rekkjunauta. Stúlkan hefur í gegnum tíðina oft verið kölluð „glyðra“ á meðan strákurinn var kallaður „höstler“. Þessi ímynd er því miður enn til staðar að einhverju leyti, þótt hún sé sem betur fer á greinilegu undanhaldi.

En í staðinn er komin ímyndin af dónakallinum sem kaupir klámblöð og annað efni sem „hlutgerir“ konur á XXX.is. Samt sem áður er femin.is einn af stærri endursöluaðilum titrara og annarra hjálpartækja ástarlífsins. En konur sem versla þar eru engar dónakonur, nei þær eru sjálfstæðar nútímakonur. Hvort hægt er að ímynda sér augljósari „hlutgervingu“ á karlmanni heldur en titrara er nokkuð sem lesendur skyldu dæma hver fyrir sig.

Eitt dæmi um hlutgervingu kvenna er vændi og hefur það verið umtalsvert í umræðunni undanfarið. Nýleg rannsókn á vændi breytti þó nokkuð forsendum umræðunnar. Hún sýndi að piltar á menntaskólaaldri sem hafa þegið greiða eða greiðslu fyrir kynlífsþjónustu eru marktækt fleiri en stúlkur sem hafa gert slíkt hið sama. Sumar konur víla sér þó ekki við að afgreiða þessa rannsókn í snarhasti, líkt og einn af virkari þátttakendunum á jafnréttisspjalli vefsvæðisins malefnin.com gerði með eftirfarandi röksemdarfærslu:

„Ég er ansi hrædd um að í þessari rannsókn hafi gleymst að menning homma er aðeins og önnur en gagnkynhneiðgra. Það er algengt að frahaldskólapiltar verði sér úti um áfengi með því að tala og daðra við eldri menn og oft á tíðum verður meira út úr því en samtal. Þessir drengir skammast sín lítið fyrir þetta og líta ekki á þetta sem vændi enda eru þeir ekki með fasta verðskrá og einn drykkur handa þeim tryggir ekki eitt né neitt.“

Það er semsagt nóg til af hamingjusömum hórum, þær eru bara allar karlkyns …

Sumar konur kjósa að afskrifa rannsóknina með jafnfáránlegum málflutningi og sést hér að ofan. Fleiri kjósa þó að gleyma henni, líkt og fulltrúi Stígamóta, sem talaði um kynlífsþjónustufrumvarp Kolbrúnar í Kastljósinu fyrir nokkru. Hún fór mikinn í tali sínu um þjáningar vændiskvenna, en þáttastjórnandinn þurfti að minna hana á að karlmenn stunduðu nú líka vændi.

En skilningsleysið og skeytingarleysið gagnvart vændi karlmanna er ekki það athugaverðasta við þetta frumvarp. Af einhverjum ástæðum var tekin sú ófyrirgefanlega ákvörðun að meina karlkynsþingmönnum að vera meðflutningsmenn frumvarpsins. Slíkt hefur aldrei gerst fyrr, og ekki þarf að spyrja að því hvað sagt yrði ef karlkynsþingmenn tækju upp á því að meina kvenþingmönnum um slíkt.

Alþingiskonan Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir olli líka miklum vonbrigðum þegar hún ákvað að lepja upp einhverja vitleysu um að starfslokasamningur jafnréttisfulltrúa Háskólans bæri vott um ójafnrétti. Með því að bera hann saman við starfslokasamning forstjóra Byggðastofnunar lagði hún saman tvo og tvo til að fá fimm. Í tilviki Byggðastofnunar sameinuðust óheppilegur ráðningarsamningur, illa ígrunduð byggðastefna og lélegir stjórnunarhættir, og ollu því að ekki var hægt að losna við manninn nema henda í hann peningum. Enda var sá starfslokasamningur á engan hátt dæmigerður fyrir starfslokasamninga karlmanna og olli miklu fjaðrafoki á sínum tíma. Þessi tvö mál koma jafnrétti ekkert við, en enginn þorði að standa upp og benda á þá augljósu staðreynd.

Hér hefur verið stiklað á stóru og farið yfir nokkur atriði sem lýsa málflutningi ýmissa sem fjalla um femínisma og jafnréttismál. Atriði sem hafa verið látin að mestu óátalin einfaldlega vegna þess að málflutningur frá hinum sjónarhólnum hefur verið tabú.

Ýmsir eru án efa ósammála um einstök efnisatriði pistilsins og eflaust má finna andstæð sjónarmið við eitthvað af því sem þar kemur fram. Aðrir eru jafnvel á þeirri skoðun að pistillinn hefði ekki einu sinni átt að birtast. Því það er til fólk sem vill enga umræðu um jafnréttismál nema frá sjónarhóli femínista. Og það útilokar pistlahöfund. Því þótt hann sé vissulega jafnréttissinni er hann enginn femínisti og verður aldrei.

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)