Útboðin lifna við

HlutabréfamarkaðurÞau miklu tíðindi gerðust í dag að hátæknifyrirtækið Flaga-Medcare var skráð á Aðallista Kauphallarinnar. Frá því að Íslandssími (OgVodafone) var skráður árið 2001 hefur ekkert félag farið inn á Aðallistann fyrr en nú. Það er vart vafamál að Flaga, sem sérhæfir sig í svefnrannsóknum og framleiðslu á tækjum fyrir heilbrigðisgeirann, á fullt erindi inn á markaðinn. Nærri fjórföld eftirspurn var eftir bréfum félagsins þegar nýtt hlutafé var boðið út í aðdraganda þessarar skráningar.

HlutabréfamarkaðurÞau miklu tíðindi gerðust í dag að hátæknifyrirtækið Flaga-Medcare var skráð á Aðallista Kauphallarinnar. Frá því að Íslandssími (OgVodafone) var skráður árið 2001 hefur ekkert félag farið inn á Aðallistann fyrr en nú. Það er vart vafamál að Flaga, sem sérhæfir sig í svefnrannsóknum og framleiðslu á tækjum fyrir heilbrigðisgeirann, á fullt erindi inn á markaðinn. Nærri fjórföld eftirspurn var eftir bréfum félagsins þegar nýtt hlutafé var boðið út í aðdraganda þessarar skráningar.

Vaskleg framganga Flögumanna verður vonandi til þess að fleiri fyrirtæki hugsi sér til hreyfings og sæki um skráningu. Eitt félag kemur þá sterklega upp í hugann – Landssími Íslands.

Gott árferði

Landssími Íslands er öflugt félag að öllu leyti. Hann hefur sterkan efnahag, 15,5 milljarða í eigið fé og eiginfjárhlutfall vel yfir 50%. Brynjólfur Bjarnason, forstjóri Símans, hefur náð ágætum árangri með félagið síðan hann kom frá Granda. Félagið hagnaðist um 1.600 milljónir kr. á fyrstu níu mánuðum ársins og var arðsemi eigin fjár um 15% sem er dágott. Betra er þó að líta á að hagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) sem hlutfall af rekstrartekjum hefur verið að hækka og nær nú 40%. Veltufé frá rekstri nam hvorki meira né minna en fimm milljörðum á fyrstu níu mánuðum ársins. Landssíminn er því gullnáma ríkissjóðs sem fær drjúgar tekjur frá félaginu í gegnum arðgreiðslur.

Eftir því sem greinarhöfundur kemst næst styttist óðum í einkavæðingu Símans og er varla hægt að finna betri tíma fyrir verkefnið. Síminn fór í gegnum misheppnaða einkavæðingu haustið 2001 þegar markaðsaðstæður voru hræðilegar eftir hryðjuverkin í Bandaríkjunum. Ríkið heldur enn um 99% hlutafjár í Símanum. Það er fátt sem rökstyður tangarhald ríkisins á fjarskiptamarkaði en á sama tíma hefur samkeppnisaðilanum, OgVodafone, farnast vel á hlutabréfamarkaði, einkum á þessu ári. Rekstur félagsins er allur að koma til þrátt fyrir harða samkeppni frá ríkisvaldinu.

Dreifð eignaraðild

Það er óskandi að einkavæðingarnefnd bjóði almenningi í landinu upp á að kaupa hlutabréf í Símanum þegar hann fer á markað. Hugsa mætti sér sama fyrirkomulag og haft var við þegar að ríkisbankarnir voru seldir á hóflegu verði. Eftir að hlutabréfaverð tók að lækka árið 2000 hafa einstaklingar streymt út af hlutabréfamarkaðnum. Skattaafsláttur vegna hlutabréfakaupa var afnuminn um síðustu áramót og stuðlar það ennfremur að flótta einstaklinga úr kauphöllinni. Hlutabréfakaup almennings eru mikilvægur þáttur í fjárfestingastarfsemi í landinu því þau örva sparnað og auka vitund almennings fyrir atvinnulífinu með því að gera hann að beinum þátttakanda.

Þessi útboðsleið væri ekki síður mikilvægt til að stuðla að dreifðri eignaraðild Símans eins og náðist þegar bréf í FBA, Búnaðarbankanum og Landsbankanum voru fyrst sett á markað.

Þar með er ekki sagt að einkavæðingarferli ríkisstjórnarinnar ætti að vera lokið. Hið opinbera er enn að vasast í ýmiss konar sjóða- og lánastarfsemi sem ætti, í okkar markaðskerfi, að vera í höndum einkaaðila. Byggðastofnun, Íbúðalánasjóður og jafnvel Lánasjóður íslenskra námsmanna eru stofnanir og félög sem geta vel farið inn á markað eða sameinast öðrum fjármálastofnunum.

Fleiri félög inn?

Tíminn nú er afar hentugur fyrir íslensk og erlend félög til að sækja fram og fá skráningu í Kauphöllina. Þar helst í hendur að hlutabréfaverð er hátt og framboð af peningum er það mikið að hirslur margra stórra fjárfesta eru einfaldlega að springa. Það er aldrei að vita nema að fleiri félög séu á leiðinni inn í Kauphöllinna, t.d. Fasteignafélagið Stoðir, Fjárfestingafélagið Meiður, Burðarás, Baugur Ísland og jafnvel BYKO-Kaupás.

Latest posts by Eggert Þór Aðalsteinsson (see all)