Táknræn framganga forsætisráðherra leiddi til farsællar niðurstöðu

Mikið hefur verið rætt og ritað um framgöngu forsætisráðherra í þeim umhleypingum sem verið hafa í íslensku þjóðlífi síðustu daga. Bent hefur verið á það, stundum jafnvel með bærilegum rökum, að forsætisráðherrann hafi farið of geyst í viðbrögðum sínum við hinum margumræddu starfskjarasamningum stjórnenda Kaupþings Búnaðarbanka. Því verður hins vegar ekki á móti mælt að hin táknræna framganga forsætisráðherra í þessu máli hafi leitt til farsællar niðurstöðu.

Mikið hefur verið rætt og ritað um framgöngu forsætisráðherra í þeim umhleypingum sem verið hafa í íslensku þjóðlífi síðustu daga. Bent hefur verið á það, stundum jafnvel með bærilegum rökum, að forsætisráðherrann hafi farið of geyst í viðbrögðum sínum við hinum margumræddu starfskjarasamningum stjórnenda Kaupþings Búnaðarbanka. Því verður hins vegar ekki á móti mælt að hin táknræna framganga forsætisráðherra í þessu máli hafi leitt til farsællar niðurstöðu.

Sem kunnugt er lýsti forsætisráðherra yfir djúpri hneykslan sinni á gerningi stjórnenda Kaupþings Búnaðarbanka og tók út tiltölulega litla innistæðu sína í bankanum í táknrænum mótmælum. Í gegnum söguna hafa ýmsir stjórnmálaleiðtogar mótmælt hvers kyns óréttlæti með táknrænum hætti. Með framgöngu sinni var forsætisráðherra að undirstrika vald borgarans í lýðræðislegu samfélagi sem býr við frjálsan markað. Í slíku samfélagi hefur borgarinn mikil völd, jafnvel gagnvart öflugustu stofnunum samfélagsins. Hann hefur völd gagnvart ríkisvaldinu með þátttöku sinni í frjálsum kosningum og með því að tjá skoðanir sínar óáreittur. Og borgarinn hefur líka völd gagnvart stórum fjármálastofnunum í krafti sínum sem þátttakandi á markaði, hann hefur frelsið til að velja og hafna.

Andstæðingar frelsisins benda jafnan á að óheftur markaður leiði ætíð til valdasamþjöppunar, spillingar og óréttlætis. Með framgöngu sinni hefur forsætisráðherra sýnt fram á hið gagnstæða – á frjálsum markaði eru það einsaklingarnir, hinir frjálsu borgarar, sem ráða ferðinni þegar allt kemur til alls.

Davíð Oddsson er sá forsætisráðherra Íslendinga sem lengst hefur setið á valdastóli. Skýringanna er ekki einungis að leita í þeim frábæra árangri sem ríkisstjórnir hans hafa náð á flestum sviðum þjóðlífsins, heldur einnig í hinum einstaka hæfileika Davíðs að samsama sig þjóðarsálinni þegar mikið liggur við. Ef viðbrögð forsætisráðherra hefðu verið svo fjarri þeim tilfinningum sem bærðust í þjóðarsálinni við hinar ótrúlegu fréttir af starfskjarasamningum stjórnenda Kaupþings Búnaðarbanka, þá hefðu hvorki orð forsætisráðherra né hinar táknrænu athafnir hans haft teljandi áhrif á gang mála.

Vissulega má segja að framganga forsætisráðherra hafi verið óvenjuleg. Það má jafnvel halda því fram að hún hafi verið óhefluð af manni í hans stöðu. En því verður hins vegar engan veginn á móti mælt, að framganga hans hafði jákvæð áhrif á niðurstöðu málsins. Hinir umdeildu kjarasamningar gengu til baka og mikil og heilbrigð umræða hefur skapast um launakjör stjórnenda almennt.

Tiltrú almennings á frjálsan fjármagnsmarkað hefði getað beðið verulega hnekki ef sú tilfinning óréttlætis sem upp var komin hefði náð að krauma undir niðri. Þess í stað snérist málið upp í að markaðurinn sjálfur tók völdin og í ljós kom að frjáls markaður er þess megnugur upp á eigin spýtur að hamla gegn óréttlæti. Forsætisráðherra hafði einungis táknræna forgöngu um það.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.