Inngangur að mannréttindum

french_revolution.jpgHugtakið mannréttindi heyrist oft á tíðum í umræðunni. Hinir og þessir aðilar slengja hugtakinu fram líkt og það sé tromp í spilum. Virðist svo vera að þessir sömu aðilar hafi oft á tíðum takmarkaða hugmynd um hvað þeir eru að segja. Verður hér á eftir reynt að útskýra hugtakið í örstuttu máli.

french_revolution.jpgHugtakið mannréttindi heyrist oft á tíðum í umræðunni. Hinir og þessir aðilar slengja hugtakinu fram líkt og það sé tromp í spilum. Virðist svo vera að þessir sömu aðilar hafi oft á tíðum takmarkaða hugmynd um hvað þeir eru að segja.

Verður hér á eftir reynt að útskýra hugtakið í örstuttu máli.Rekja má hugmyndina um mannréttindi til forn-grískra náttúruréttarhugmynda um að einstaklingurinn fæðist með viss réttindi sem verða ekki frá honum tekin. Í upplýsingunni fóru menn að gæla við þessar hugmyndir á nýjan leik með þekktum afleiðingum. Á alþjóðavettvangi varð sprenging eftir seinni heimsstyrjöldina í þessum málaflokki aðallega fyrir tilstuðlan Sameinuðu þjóðanna.

Greina má mannréttindi niður í þrjá flokka.

Fyrsta stigs mannréttindi. Borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi eða svokölluð neikvæð mannréttindi. Þessi tegund mannréttinda kalla á aðgerðarleysi af hálfu ríkisins. Borgararnir eru sem sagt frjálsir frá ríkinu, dæmi um slík réttindi eru rétturinn til lífs, meginreglan um réttláta málsmeðferð fyrir dómi, reglan um að menn skuli teljast saklausir uns sekt þeirra er sönnuð, tjáningarfrelsi, vernd eignaréttins og félagafrelsi. Reyndar eru dæmi um vissar tegundir fyrsta stigs réttinda sem kalla á aðgerðir ríkisvaldsins t.d. verður ríkið að skipuleggja og kosta réttarkerfi til að einstaklingar geti notað réttlátrar málsmeðferðar. Í 63-74. gr. íslensku stjórnarskrárinnar eru ákvæði sem flokkast sem fyrsta stigs mannréttindi.

Annars stigs mannréttindi. Efnahagsleg, menningarleg og félagsleg réttindi eða svokölluð jákvæð réttindi. Þessi tegund mannréttinda kalla á aðgerðir af hálfu ríkisins og oft á tíðum mikil fjárútlát. Gott dæmi um slík réttindi birtast í 76. gr. íslensku stjórnarskrárinnar. Þar kemur fram að öllum sem þess þurfa, skuli tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika, enn fremur að öllum skuli tryggður í lögum réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi og að börnum skuli tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Slík réttindi eru í 75.-77. gr. íslensku stjórnarskrárinnar. Stundum eru réttindi þessi nefnd lúxus vesturlanda.

Þriðja stigs réttindi. Hópréttindi. Þessi tegund hefur verið að ryðja sér rúms síðustu áratugina. Dæmi um slík réttindi eru sjálfsákvörðunarréttur þjóða og umhverfisréttindi. Engin dæmi eru um slík réttindi í íslensku stjórnarskránni.

Eins og áður segir hafa Sameinuðu þjóðirnar lagt sitt af mörkum til þróunar á þessu sviði. Eitt fyrst verk Sameinuðu þjóðanna eftir seinna stríð var að setja fram mannréttindayfirlýsing, betur þekkt sem Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna. Sú yfirlýsing er gríðarlega merkilegt plagg þó hún sé ekki lagalega bindandi. Má segja að yfirlýsingin hafi markað stefnu mannréttindastarfs Sameinuðu þjóðanna. Aðrir helstu alþjóðasamningar er varða mannréttindi eru: Alþjóðasamningurinn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, Alþjóðasamningur um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, Samningurinn um afnám allrar mismununar gagnvart konum. Samningur gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, Alþjóðasamningurinn um afnám alls kynþáttamisréttis, Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og Alþjóðasamningurinn um stöðu flóttamanna.

Sá mannréttindasáttmáli sem ber höfuð og herðar yfir aðra sáttmála er Mannréttindasáttmáli Evrópu, geta verður þó þess að hann er svæðisbundinn. Það sem er sérstakt við hann er að sáttmálinn er bakkaður upp af dómstóli sem borgarar aðildarríkja samningsins, að vissum skilyrðum uppfylltum, geta kært úrlausnir dómstóla aðildarríkjanna til hans. Aðildarríki samnigsins geta reyndar klagað önnur aðildarríki en það hefur sárasjaldan gerst.

Tekið skal fram að mannréttindi og mannúðarréttur eru ekki það sama þó um skyld réttarsvið séu að ræða. Skilyrði fyrir því að reglur mannúðarréttarins séu gangsettur eru þau að vopnuð átök hafi brotist út þ.e. styrjöld milli ríkja eða borgarastyrjöld.

Vonast undirritaður til að lesendur séu einhverju nær og ætlar sá hinn sami að gera brot úr inngangsorðum Mannréttindasáttmála Evrópu að lokaorðum sínum:

Ríkisstjórnir þær, sem undirritað hafa samning þennan og aðilar eru að Evrópuráðinu, lýsa á ný eindreginni trú sinni á það mannfrelsi, sem er undirstaða réttlætis og friðar í heiminum og best er tryggt, annars vegar með virku, lýðræðislegu stjórnarfari og, hins vegar, almennum skilningi og varðveislu þeirra mannréttinda, sem eru grundvöllur frelsisins.