Samkeppni DV og Moggans

mbldv.gifÍ upphafi mánaðarins var mikill handagangur í öskjunni í kringum DV. Ljóst var að síðdegisblað okkar Íslendinga rambaði á barmi gjaldþrots og eftir ítrekaðar beiðnir um greiðslustöðvun og höfnun á henni var greinilegt hvert stefndi.

mbldv.gifÍ upphafi mánaðarins var mikill handagangur í öskjunni í kringum DV. Ljóst var að síðdegisblað okkar Íslendinga rambaði á barmi gjaldþrots og eftir ítrekaðar beiðnir um greiðslustöðvun og höfnun á henni var greinilegt hvert stefndi.

Margir eiga eftir að sjá eftir síðdegisblaðinu DV. Blaðið, sem fór ekki í prentun fyrr en að morgni útgáfudags, hafði ákveðið fréttaforskot sem fólk kunni að meta og ritstjórnin nýtti til að vera fyrst með fréttirnar. Forskotið hafði þó minnkað síðustu ár vegna tilkomu fréttamiðla á internetinu, s.s. mbl.is, sem gátu birt fréttir um leið og þær bárust. Því var eðlilegt að verulega færi að halla undan fæti hjá síðdegisblöðum. Þessu áttuðu fyrrverandi eigendur DV, Frjáls fjölmiðlun, sig á þegar þeir stofnuðu Fréttablaðið og seldu sig frá rekstri Dagblaðsins.

Þrátt fyrir að margt sé hægt að segja um ritstjórnarstefnu DV síðustu árin hefur samkeppni við Fréttablaðið haft úrslitaáhrif á skjóta niðurleið blaðsins. Strax í upphafi skilgreindi Fréttablaðið DV sem sinn höfuðandstæðing og reri leynt og ljóst á mið lesenda þess. Smáauglýsingar, sláandi fyrirsagnir og stuttar fréttir sem hafði verið aðall DV fengu lesendur nú ókeypis inn um bréfalúguna á hverjum morgni.

Þrátt fyrir drengilega baráttu fyrir rekstri blaðsins var við ofurefli að etja og næsta vonlaust viðskiptaumhverfi að eiga við. Því fór sem fór. Viðskiptahugmynd upprunalegra eigenda DV um rekstur Fréttablaðsins hafði greinilega ekki verið svo galin.

Í ljósi þess hve vel hugmyndir Frjálsrar fjölmiðlunar um rekstur Fréttablaðsins gengu upp er eðlilegt að velta fyrir sér ástæðum núverandi eigenda Fréttablaðsins, Fréttar ehf, fyrir kaupunum á DV. Þeir hafa skilgreint höfuðandstæðing sinn upp á nýtt og nú er það stofnunin Morgunblaðið. DV á væntanlega að vera vopn í þeirri baráttu enda kemur það nú út á morgnana sem áskriftarblað.

Væntanlega munu ritstjórar DV gera út á að Morgunblaðið sé þungt í vöfum í metnaði sínum til að halda úti opnum umræðuvettvangi með aðsendum greinum og föstum liðum eins og minningargreinum. Þó er líklegt að hinn almenni lesendi kunni að meta þessa þjónustu Morgunblaðsins. Opinn umræðuvettvangur þess hefur að margra mati gegnt mikilvægu hlutverki í íslenskri þjóðmálaumræðu og líklegt er að einhverjir telji birtingu minningargreina nauðsynlega þó fæstir lesi þær að staðaldri.

Til að ná árangri í samkeppni við Morgunblaðið eru eigendum og ritstjórum DV nokkrar leiðir færar. Til dæmis gætu þeir ákveðið að höfða til svipaðra lesenda og Morgunblaðið og þá með svipuðum efnistökum og ítarlegum fréttaskýringum en bjóða þjónustuna gegn lægra gjaldi. Einnig gætu þeir ákveðið að bjóða upp á spennandi fréttir, sem ekki sjást annars staðar og vekja mikla athygli. Svo virðist sem sú leið hafi verið valin. Ef rétt reynist hljóta menn að spyrja sig hvort slíkar fréttir séu á hverju strái, sérstaklega í ljósi þess að Fréttablaðið og DV, sem bæði eru í eigu Fréttar ehf, eiga í samkeppni að ógleymdu Morgunblaðinu. Jafnframt er DV, sem fyrr, í samkeppni við netmiðla sem eðli málsins samkvæmt hljóta að vera með ferskustu fréttirnar.

Ljóst er að ekki eru öll kurl komin til grafar í samkeppni fjölmiðlanna og forvitnilegt verður að sjá hvernig Frétt ehf, eignarhaldsfélag um rekstur Fréttablaðsins og DV, á eftir að spila úr stöðunni. Líklegt er að eignatengsl félagsins við Stöð 2 eigi eftir að nýtast þeim þó ekki sé augljóst með hvaða hætti og hversu mikið. Varla hagnast félagið á samlegðaráhrifum því væntanlega er vilji til að halda fréttastofum þessara þriggja miðla óháðum hverri annarri. Þó er klárt að til að DV lifi af í samkeppni á fjölmiðlamarkaði með núverandi ritstjórnarstefnu verður blaðið að vera með ferskar og áhugaverðar fréttir. Hvort rithöfundar í stólum ritstjóra tryggi það skal ósagt látið.

Latest posts by Brynjólfur Stefánsson (see all)

Brynjólfur Stefánsson skrifar

Brynjólfur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.