Fyrirgefðu þetta með flugvélina

Það verður að teljast ólíklegt að bandaríska njósnaflugvélin, sem nauðlenti í Kína þann 1. apríl, hafi verið valdur af árekstrinum við kínversku herþotuna. Að miklu leyti má líkja aðstöðunni sem komin er upp við karp á skólaleikvelli.

Það verður að teljast ólíklegt að bandaríska njósnaflugvélin, sem nauðlenti í Kína þann 1. apríl, hafi verið valdur af árekstrinum við kínversku herþotuna. Njósnaflugvélin er einfaldlega alltof stór og stirðbusaleg til að eiga roð í að halda í við hraðfleyga orrustuþotu. Kunnugir líkja þessu við eltingarleika átján hjóla vöruflutningabíls og Harley Davidson mótorhjóls á risastóru opnu svæði og því er eðlilegt að draga þá ályktun að kínverska þotan hafi átt sök á árekstrinum, og í ofanálag þá halda Bandaríkjamenn því fram að njósnavélin hafi verið stillt á sjálfstýringu þegar áreksturinn átti sér stað. En það er ekki það sem skiptir mestu máli í deilu Kínverja og Bandaríkjamanna. Kínverjar eru einfaldlega að athuga hvernig hinn nýi forseti Bandaríkjanna bregst við í erfiðri aðstöðu. Hvort hann sé karl í krapinu.

Öruggt má telja að almenningur hefur litla hugmynd um það sem raunverulega er að gerast í samningaviðræðum kínverskra og bandarískra embættismanna. Kínverjar hafa kastað hanskanum og heimta afsökunarbeiðni. Sú krafa gerir öllum erfitt fyrir því með þessari kröfu hefur deilunni verið stillt þannig upp að á endanum hljóti annar aðilinn að geta fagnað sigri en hinn að viðurkenna ósigur. Krafa Kínverja er auðvitað algjörlega óaðgengileg fyrir Bush, sem verður að sýna að ekki sé hægt að svínbeygja hann í alþjóðlegum samskiptum, en að sama skapi þá hafa Kínverjar málað sig út í horn því nú kemur ekkert annað til greina en að halda flugmönnum vélarinnar þar til afsökunarbeiðni hefur borist. Klassísk diplómatísk pattstaða er því komin upp.

Við skulum hugsa okkur hliðstætt dæmi. Sterkasti strákurinn í bekknum er í stríðnisskapi og heldur bolta fyrir framan andlitið á strák (sem stundum er með mannalæti) og tælir hann til þess að reyna að ná honum af sér. Minni strákurinn gerir tilraun til þess en dettur um leið á andlitið og brýtur gleraugun sín (strákarnir sem níðst er á eru alltaf með gleraugu). En hann nær boltanum. Stóri strákurinn heimtar að fá boltann sinn aftur en litli strákurinn segir það ekki koma til greina nema að hann segi „fyrirgefðu“ yfir að hafa brotið gleraugun. Stóri strákurinn kannast ekkert við að hafa brotið gleraugun og harðneitar að biðjast afsökunar. Minni strákurinn segist þá munu skemma boltann. Stóri strákurinn stendur frammi fyrir erfiðri ákvörðun. Hann getur annars vegar barið minni strákinn og náð boltanum sínum eða haldið áfram að þrefa við hann. Hann vill síður berja minni strákinn að þessu sinni en getur ekki með nokkru móti látið hann komast upp með að halda boltanum. Hann segist því vera leiður yfir því að gleraugu minni stráksins hafi brotnað. Minni strákurinn getur ekki sætt sig við þetta og heimtar að stóri strákurinn viðurkenni að þetta hafi verið honum að kenna.

Dæmið hér á undan er einfalt en lausn án barsmíða er ekki svo augljós. Þetta er sama staða og Kínverjar og Bandaríkjamenn hafa komið sér í. Að baki þessari deilu eru margir þættir sem skipta máli. Það skiptir t.a.m. miklu máli að Bandaríkjamenn munu á næstunni taka ákvörðun um hvort þeir selji Tævan fjögur háþróuð herskip og fleiri hátæknigræjur. Þetta telja Kínverjar vera brot á samningi um takmörkun á vopnasölu Bandaríkjamanna til Tævan sem verið hefur í gildi síðan 1982.

Deilu drengjanna tveggja væri hægt að leysa með því að minni drengurinn taki loforð af þeim stærri um að vera látinn í friði í framtíðinni. Honum hefur þá tekist að sýna manndóm og stærri strákurinn fær boltann sinn aftur. Á svipaðan hátt mun deila Kínverja og Bandaríkjamanna verða til lykta leidd.

Það er víst að deilan um njósnavélina verður leyst. Á yfirborðinu munu Kínverjar skyndilega ákveða að túlka yfirlýsingar Bandaríkjamanna um hluttekningu vegna fráfalls flugmanns orrustuþotunnar sem nægjanlega afsökunarbeiðni. Á bak við tjöldin verður hins vegar samið um breytingu á vopnasöluáætlunum Bandaríkjanna til Tævan eða aðrar ámóta tilslakanir gerðar. Báðir aðilar munu þá halda andlitinu án þess að þurfa að senda þúsundir manna til slátrunar en geta þó sagt stoltir að þeir hefðu sko ekki hikað við það ef hinn hefði ekki hætt með þetta múður. Þannig geta nú líf þúsunda oltið á því hvort tveimur miðaldra karlmönnum með mikilmennskukomplexa tekst að sanna fyrir sjálfum sér að þeir séu karlar í krapinu, því ólíklegt verður að teljast að stríð milli Kinverjar og Bandaríkjanna hefði endað í hnefaslagsmálum á milli George W. Bush og Jiang Zemin, nema náttúrlega það ætti sér stað í Hollywood.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.