Hjólum!

Reiðhjólið er afar praktískt farartæki, sérstaklega þegar farnar eru stuttar vegalengdir. Það er mun ódýrara í rekstri en bíll, og er einnig holl hreyfing fyrir þann sem ferðast á því. Þrátt fyrir þessar staðreyndir er reiðhjólið afar vanmetið samgöngutæki á Íslandi og eru eflaust margar ástæður fyrir því.

Reiðhjólið er afar praktískt farartæki, sérstaklega þegar farnar eru stuttar vegalengdir. Það er mun ódýrara í rekstri en bíll, og er einnig holl hreyfing fyrir þann sem ferðast á því. Þrátt fyrir þessar staðreyndir er reiðhjólið afar vanmetið samgöngutæki á Íslandi og eru eflaust margar ástæður fyrir því.

Á Íslandi ferðast nánast allir um á bílum, sama hvert farið er og hversu langan tíma það tekur að komast á áfangastað. Iðulega ferðast menn einir í fjögurra eða fimm manna bílum sínum. Þetta sést ef skoðaðar eru langar bílaraðir í morgun- eða síðdegisumferðinni. Bíll við bíl, og einn maður í næstum hverjum bíl. Þó að sumir séu aðeins að fara stuttar vegalengdir, t.d. úr Hlíðunum og niður í miðbæ, eða þaðan af styttra, þá virðist sem mönnum detti ekkert annað samgöngutæki í hug en bíllinn. Strætisvagnar eru hálftómir og afar fáir ferðast um á reiðhjólum.

Það er svo sem margt veldur því að reiðhjólið er kannski ekki mjög fýsilegur samgöngukostur við íslenskar aðstæður. Í fyrsta lagi er veðrið hjólreiðamönnum á stundum ekki hagstætt og í öðru lagi virðast samgöngumannvirki, vegir, gangbrautir, umferðarljós o.s.frv., ekki gera ráð fyrir því að menn hjóli. Hjólreiðastígar eru t.d. fáir. Við þetta bætist að bílaumferðin hliðrar ekki til fyrir hjólreiðamönnum.

Eins og flestum er kunnugt er hjólreiðamenning á háu stigi á meginlandi Evrópu, þar sem hjólreiðamenn eru viðurkenndur hluti af umferðinni. Samgöngumannvirkin og aðrir vegfarendur, ökumenn og gangandi, gera ráð fyrir, og taka tillit til þess, að menn hjóli á milli áfangastaða. Löggjöfin gerir einnig ráð fyrir þessum fararskjóta, og er þar að finna ýmsar reglur um samspil akandi og hjólandi umferðar, m.a. um forgang, og því um líkt. Slíku er ekki að heilsa í nægjanlegum mæli á Íslandi.

Ekki þarf heldur stærðfræðisnilling til að sjá að rekstrarkostnaður reiðhjólsins er mun minni en bíls – raunar aðeins brot af því sem kostar að reka bíl. Ekki þarf að greiða fyrir eldsneyti, engin bifreiðagjöld eru lögð á reiðhjólin, viðhaldskostnaður er mun minni, að ógleymdri þeirri staðreynd að reiðhjólið sjálft er ódýrara í innkaupum en bíllinn. Auk þess dylst engum að það að ganga eða hjóla til vinnu, skóla eða á annan áfangastað, er holl hreyfing.

Undirritaður verður nú seint talinn til líkamsræktarfrömuða, en kemst ekki hjá því að hugsa til þess að líkamlegt ástand Íslendinga fer versnandi. Íslendingar eru að verða feitari og feitari. Ráð við slíku er auðvitað að skilja bílinn eftir heima og hjóla af stað. Og menn mega víst ekki gleyma hjálminum.

Latest posts by Arnar Þór Stefánsson (see all)