Rauði krossinn

Henry Dunant var merkilegur maður. Þessi bankamaður sem var með allt niðrum sig setti fram hugmynd að félagi sem hvert einasta mannsbarn ætti að þekkja. Félagið nefnist Rauði krossinn.

Stofnun rauða krossins er rakin til rits fyrrnefnds Dunants, Souvenir de Solferino, sem kom út árið 1862. Það rit fjallar um þær hörmungar sem Dunant varð vitni að í orrustunni við Solferino á Norður-Ítalíu árið 1859. Í því riti setti Dunant fram hugmyndir um einhvers konar mannúðarfélag sem annaðist ummönnun særðra á stríðstímum. Lögfræðingurinn Gustave Moynier las rit þetta og var djúpt snortinn, útfærði hann hugmyndina um mannúðarfélag þetta. Fyrsti fundur þess var haldinn í febrúarmánuði 1863 að viðstöddum Dunant, sem varð ritari félagsins.

Það er ekki nóg með að Dunant setti fram hugmynd að mannúðarfélagi heldur setti hann einnig fram hugmyndir um hvort ríki Evrópu gætu ekki komið sér saman um sameiginlegar reglur um meðferð særðra í stríðum sem væru bakkaðar upp með einhvers konar viðurlögum. Genfarasáttmálarnir eru arfleifð þessarar hugsunar. Tveir fyrstu sáttmálarnir fjalla einmitt um meðferð særðra á vígvellinum. Ljóst er því að hugsun Dunants og arfleifð hennar er ómetanleg fyrir alþjóðasamfélagið og hefur haft djúpstæð áhrif á mannúðarhluta stríðsréttarins.

Í dag er Rauði krossinn gríðarlega öflugt og vel skipulagt félag með starfsemi út um allan heim. Tilgangur hans er að vernda líf og heilsu og tryggja virðingu fyrir mannlegu lífi. Hann vinnur að gagnkvæmum skilningi, vináttu, samstarfi og varanlegum friði meðal allra þjóða. Hann gerir engan mun á milli manna eftir þjóðerni þeirra, kynþætti, trúarbrögðum, kyni, stétt eða stjórnmálaskoðunum. Hann reynir að draga úr þjáningum einstaklinga og tekur þá eingöngu tillit til þarfa hvers og eins en veitir forgang þeim sem verst eru staddir. Hann gætir hlutleysis í ófriði og tekur aldrei þátt í deilum vegna stjórnmála, kynþátta, trúarbragða eða hugmyndafræði.

Hann er borinn uppi af sjálfboðnu hjálparstarfi og lætur aldrei stjórnast af hagnaðarvon.

Um daginn var gerð hryðjuverkaárás á höfuðstöðvar Rauða krossins í Baghdad. Tveir starfsmenn létu lífið og tíu óbreyttir borgarar. Árás þessi hlýtur að vekja undrun og viðbjóð allra hugsandi manna hvar sem þeir í flokki standa. Að gera árás á samtök sem hefur það að yfirlýstu markmiði að vernda líf og heilsu manna er ekkert annað en árás á sjálfa mannúðarhugsjónina. Árás þessi er reyndar einnig brot á alþjóðalögum en Rauði krossinn nýtur verndar skv. Genfarsáttmálunum og þjóðréttarvenju. Hvað sem líður reiði íraskra andspyrnuhreyfinga yfir veru erlends herliðs í landi þeirra þá er ekki rétta leiðin að gera árás á hjálparsamtök sem reyna að stuðla að betri ástandi í heimalandi þeirra og njóta þar að auki verndar í hvívetna skv. alþjóðalögum.

Er árás þessi hér með fordæmd af hálfu Deiglunnar.