Gen og tónik

Skál!Látlausar fréttir af „einstæðum“ vísindaafrekum íslenskra fræðimanna dynja á landsmönnum án þess að fólk skilji upp eða niður í því hvaða þýðingu þau hafa í raun. En vísindin koma sífellt á óvart og stundum eru skilaboðin skýr – eins og þegar breskum hermönnum var fyrirskipað að þamba gin til að verjast malaríu.

Skál!Íslensk erfðagreining tilkynnti nýverið að vísindamönnum fyrirtækisins hafi tekist að einangra genið sem veldur heilablóðfalli. Innanbúðarmenn segja að útlit sé fyrir að vísindamönnum takist fljótlega að einangra genið sem lætur Friðrik Weissesnicht fara í taugarnar á karlmönnum — auk þess sem miklar vonir eru bundnar við rannsóknir á geninu, sem veldur athyglisbresti hjá pistlahöfundi, þegar hann les fréttatilkynningar um tengsl blóðtappa og breytileika í PDE4D erfðavísinum.

Vandamálið við þessar fréttir er það, að fæstir hafa nokkra hugmynd um hvað verið er að tala um. Jú, jú, það er voðalega upplífgandi að hlusta á stolta vísindamenn útskýra fyrir okkur hverslags breytingu uppgötvun þeirra muni hafa á framgang lífs á jörðinni. En ég get ekki neitað því, að ég er yfirleitt álíka nálægt kjarna málsins eftir að hafa hlýtt á þessar útskýringar og þegar bifvélavirki segir mér að það þurfi að skipta um head-pakkningu í bílnum mínum.

Þegar líftækniumræðan var sem heitust, var vart þverfótað fyrir vísindaspekúlöntum sem útskýrðu fyrir okkur, að erfðamengi mannsins væri flóknasta og torræðasta samansafn tákna sem fyrirfyndist í veröldinni. Þrátt fyrir þetta, virðist af fréttum af deCode að dæma, að vísindamenn fyrirtækisins geti án fyrirhafnar fundið nokkurn veginn hvert það gen sem þá lystir.

Og það eru fleiri að meika það! Í brennidepli í Ríkissjónvarpinu var greint frá einstökum rannsóknum íslenskra vísindamanna í því skyni að hagnýta bygg á nýjan máta til ensímframleiðslu, íslensk fiskeldistækni er að sögn uppalenda sú þróaðasta á byggðu bóli — auk þess sem snillingarnir í Vatnsmýrinni eru iðnir við að gera „stórkostlegar og algerlega einstakar uppgötvanir“ á sviði líftækni.

Auðvitað vona ég að allar þessar fréttir eigi við rök að styðjast, og að í fyllingu tímans muni íslenska þjóðin uppskera ríkulega fyrir tilstuðlan hugvits framsýnna einstaklinga. Á hinn bóginn verð ég alltaf dálítið skeptískur þegar vísindamenn dásama gildi eigin niðurstaðna í fjölmiðlum. Venja vísindasamfélagsins er sú, að menn setja niðurstöður sínar fram í virtum fagtímaritum og fá rökstudda gagnrýni á þær frá jafningjum. Hér á landi virðist hins vegar oftar en ekki vera næg ástæða til að komast í fjölmiðla, að komast bara að einhverri niðurstöðu—burtséð frá því hvort að vísindasamfélagið leggi blessun sína yfir það bókhald.

Allt er þó betra en fréttir af línuívilnun! Því er að mörgu leyti skiljanlegt að fólk sé þyrst í fréttir af fyrirtækjum sem ganga vel. Sérstaklega í ljósi þess að fjölmargir landsmenn eiga beinna hagsmuna að gæta í gegnum eignarhald í ýmsum tækni- og vísindafyrirtækjum. Hins vegar hygg ég að æskilegra sé fyrir alla að hafa vaðið fyrir neðan sig og líta gagnrýnum augum á slíkar upphrópanir þar til vottorð hefur borist um mikilvægi uppgötvananna.

En það er alltaf auðvelt að ragna og bölsótast; þess vegna hefi ég gert dálítið af því. En mér finnst hins vegar ekki ólíklegt að bresku hermennirnir í nýlendunum, sem fengu þau skilaboð frá vísindamönnum Krúnunnar, að þeir ættu að þamba tónik í gríð og erg til að verjast malaríu, hafi verið jafngáttaðir og ég á framþróun vísindanna. En þeir höfðu alla vegana rænu á því að deila í fréttirnar með tveimur—sjússum af gini.

Latest posts by Halldór Benjamín Þorbergsson (see all)