Föstudagurinn langi 2001

Hugvekja eftir Kjartan Örn Sigurbjörnsson:
Kristið fólk um veröld alla kemur saman í dag til að minnast pínu og dauða Krists. Við hugleiðum mikilvægi þessara atburða fyrir mannkyn og sögu allt til þessa dags og um alla framtíð. Við erum ekki aðeins að minnast heldur eigum við að gera okkur grein fyrir því að þeir atburðir sem áttu sér stað í Gyðingalandi endur fyrir löngu skipta okkur máli á föstudaginn langa á því herrans ári 2001.

Hugvekja eftir Kjartan Örn Sigurbjörnsson:
Kristið fólk um veröld alla kemur saman í dag til að minnast pínu og dauða Krists. Við hugleiðum mikilvægi þessara atburða fyrir mannkyn og sögu allt til þessa dags og um alla framtíð. Við erum ekki aðeins að minnast heldur eigum við að gera okkur grein fyrir því að þeir atburðir sem áttu sér stað í Gyðingalandi endur fyrir löngu skipta okkur máli á föstudaginn langa á því herrans ári 2001.

Hugsið ykkur – það er komin ný öld og nýtt árþúsund. Íslensk kristni á að baki 1000 ára sögu þar sem skipst hafa á skin og skúrir – en kirkjan hefur alla tíð haldið á lofti þeim boðskap sem er sístæður og skiptir svo óumræðilega miklu máli – að Jesús sem fæddist í Betlehem og var lagður í jötu – Jesús sem gekk um læknaði sjúka, huggaði sorgmædda og boðaði fátækum fagnaðarerindi um kærleiksríkan Guð sem vakir yfir öllum og öllu sem lífsanda dregur – að Jesús sem safnaði um sig hópi lærisveina sem varðveittu orð hans og starf og héldu því áfram þegar meistari þeirra var horfinn heim – Jesús sem var saklaus handtekinn, ákærður, dæmdur, hæddur og pyntaður og loks krossfestur – að hann er upprisinn og lifir. Hann er með þeim sem ákalla hann og trúa á hann og ekkert, ekkert getur hrifsað okkur úr kærleiksríkri hendi hans. Þannig er fagnaðarerindið sem hefur fylgt þjóðinni okkar í þúsund ár. Þjóðin og kirkjan hafa átt samleið og sú samfylgd hefur dugað vel og verið til blessunar.

En það er ekki sjálfgefið að svo verði um alla framtíð. Samfélagið breytist og það koma upp ólík sjónarmið – En hvað sem framtíðin ber í skauti þá er alveg öruggt að það verður um alla framtíð eins og hingað til farsælast fyrir þjóðina að hafa Jesú Krist fyrir augum og í stafni.

Ég man þá tíð þegar ég var ungur drengur norður á Siglufirði að föstudagurinn langi var sannarlega langur og lengi að líða. Ríkisútvarpið reyndi að ala upp þjóðina með endalausum orgeltónleikum og þunglamalegum tónlistaflutningi og allt þjóðlífið var drepið í dróma. Ég efast um að þessi tyftun hafi skilað fólki til messu umfram það sem gerist í dag.

Nú finnst okkur helst til langt gegnið í hina áttina þegar gerð er krafa um að allt sé frjálst og opið og skemmtilegt. Að föstudagurinn langi er aðeins frídagur en ekki helgidagur. En í þessu eins og í lífinu verður hver að gá að sér. Það er eins með trú og ást að ekki er mögulegt að berja fólk til trúar. Trúin eins og ástin verður að vera frjáls og óþvinguð.

Í dag minnumst við pínu og dauða Krists. Það er lesið úr píslarsögunni um síðustu stundirnar í lífi meistarans frá Nazaret. Hér er ekkert dregið undan og ekkert fegrað. Þeir sem skráðu guðspjöllin voru heiðarlegir í frásögum sínum. Það er sagt við okkur að lífið er ekki auðvelt – það var ekki auðvelt fyrir mannssoninn, það var ekki auðvelt hjá lærisveinunum eða kristnu fólki yfirleitt. Í lífi Jesú skiptust á skin og skúrir eins og hjá öðrum sem lifna og lifa og deyja.

Þegar við erum börn þá væntum við alls góðs af lífinu og bjartar vonir vaka. En lífið kennir okkur að oft er vegferðin á brattan og við höfum oft vindinn í fangið. En þar fyrir er okkur eðlilegt að elska lífið og það er dýrmætt en brothætt. Þetta skynjuðu lærisveinarnir og vissu. Þeir höfðu fylgt Jesú á Golgata og þeir skynjuðu sársaukan í sínu eigin lífi.

Það er eftirtektarvert að fyrstu frásögurnar sem skráðar voru um Jesú voru af síðustu dögunum í lífi hans og síðustu stundunum á krossinum.Það er ekki tilviljun. Þeir vildu hefja krossinn á loft til þess að við mættum skilja að lífið er oft þjáning. En um leið vildu þeir láta okkur vita að um leið er krossinn innsigli kærleikans. Tákn um elsku Guðs til mannanna. Krossinn segir við okkur að þrátt fyrir að maðurinn sé ófullkominn og gengur gjarnan gegn vilja Guðs og hefur orð hans að engu þá er Guð staðfastur í elsku sinni. Hér á Íslandi tölum við um föstudaginn langa – en í enskumælandi löndum er talað um „good friday“ eða hinn góða föstudag – en með því er lögð áhersla á að þessi dapurlegi atburður er um leið upphaf hjálpræðisins. Því að krossinn er sáttargjörð Guðs við mannkynið. Þannig verður krossinn tákn trúarinnar og við eigum að beina augum okkar að honum – og þegar við gerum það þá hugsum við um pínu og dauða Krists og að lífið er oft krossganga en um leið sjáum við krossinn benda upp í himin Guðs og þannig minnir hann okkur á kærleika Guðs til okkar mannanna og að við eigum að lifa lífinu í trú, von og kærleika.

Í Svíþjóð er lítil kirkja sem á sér merkilega sögu. Það sem vekur athygli þeirra sem koma þar inn er að gegnt prédikunarstólnum hangir stór kross – þannig að þeir sem koma til kirkju snúa baki í krossinn en presturinn horfir beint á hann úr stólnum. Sagan segir að ástæðan fyrir þessu fyrirkomulagi sé sú að einhverju sinni á 18. öldinni hafi Karl 12. konungur Svíþjóðar komið óvænt í kirkjunnar meðan á guðsþjónustu stóð. Þegar presturinn sá konung þá lagði hann frá sér prédikunina sem hann hafði samið og í stað hennar lofaði hann í mörgum orðum gæsku konungsins og allar þær miklu dyggðir sem hann prýddu.

Einhverjum vikum seinna kom gjöf frá kóngi til kirkjunnar. Stór kross með fyrirmælum um að hann skildi staðsettur þannig að presturinn hefði hann ávallt fyrir augum þegar hann stæði í stólnum og gleymdi því ekki um hvern hann ætti að tala.

Við skulum hafa krossinn fyrir augum. Hann er áminning til okkar um hvað lífið er oft erfitt og miskunnarlaust – og að við eigum að elska náungann og við eigum að bera hvers annars byrðar – en einnig er krossinn tákn fagnaðarerindisins sem bendir inn í himinn Guðs.

Á páskadag er sigur lífsins staðfestur. Þá er sigurhátíð sæl og blíð. Í öllum tilvikum lífsins í gleði og sorg horfum við til páskanna og þökkum Guði sem er kærleiksríkur og lætur sér annt um mig og þig. Amen.

Kjartan Örn Sigurbjörnsson er prestur á Sjúkrahúsi Reykjavíkur, Landakoti.
Prédikanir og hugleiðingar hans munu birtast á Deiglunni stöku sinnum.
deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)