Hvar í andskotanum.is?

Nokkuð hefur farið fyrir umræðu um landsaðgang að rafrænum gagnasöfnum. Slíkur aðgangur er mjög jákvætt framtak, en talsvert vantar upp á að vefsvæði verkefnisins standi fyrir sínu. Oftar en einu sinni hefur það gerst að pistlahöfundur hefur farið er á heimasíðu verkefnisins, hvar.is, en þurft frá að hverfa í gremju, og spurt sig: „hvar í andskotanum eru eiginlega öll þessi gögn?!“

Rafrænn landsaðgangur að gagnasöfnum er gott og jákvætt framtak. En miðað við umfjöllun í fjölmiðlum er líklega um nokkrar fjárhæðir að ræða, og því er synd og skömm að vefsvæði verkefnisins, hvar.is, skuli ekki vera betur upp sett.

Tökum dæmi. Pistlahöfundur er verkfræðingur og hefur áhuga á ýmsu sem tengist tækni og vísindum. Ef farið er á vefsvæðið blasir við forsíðan, þar sem hægt er að smella á ýmsa efnisflokka. Ef smellt er á „Tækni“ birtist önnur síða með nokkrum hlekkjum.

Efst er hlekkur, sem lítur heldur undarlega út, langur og ófrýnilegur. Fyrir neðan hann er vísað á upplýsingar um einstaka vísindamenn á ákveðnum fræðisviðum. Áhugavert, en nokkuð sérhæfðar upplýsingar. Fyrir neðan er að finna fimm hlekki sem vísa samkvæmt lýsingu á ýmis tímaritasöfn gagnabankans ProQuest 5000. Allir brotnir, hver einn og einasti. Jæja, þetta hlýtur að vera tilviljun. Höldum áfram niður síðuna.

Kluwer Online, 788 altextuð tímarit. Brotinn hlekkur. Springer Link er næst fyrir neðan, 509 tímarit. Á maður að þora að vona? Jú, hér birtist listi með rúmlega 50 hlekkjum á ýmis tímarit, svo sem „Journal of Cryptology“, „Distributed Computing“, „Neural Computing & Applications“ og fleira skemmtilegt. Allir brotnir, fimmtíu brotnir hlekkir á sömu síðunni. Æði!

Fyrir neðan Springer Link er aftur vísað í ProQuest 5000, jú þar er listi yfir tímarit, en engir hlekkir. Hmm? Æ já, þeir voru fyrir ofan, þessir fimm brotnu semsagt …

Það þýðir ekki að láta deigan síga. Það liggur við að pistlahöfundur klökkni við að sjá á bak við næsta hlekk óbrotna leið að grein með fullum texta, í gagnasafninu „Science Direct“. Ekki reyndar úr tímaritunum „Space Technology“ eða „Robotics“, sem eru meðal áhugasviða pistlahöfundar. Þessi tímarit eru í gagnasafninu en eru af einhverjum orsökum ekki aðgengileg. En í „International Journal of Fatique“ (sem er aðgengilegt) dúkkar upp greinin „A unified approach to fatigue macrocrack initiation and propagation“!

Næsta gagnasafn, „Synergy“, virðist í nokkuð góðu standi, og af átta hlekkjum á gjaldfrjáls gagnasöfn, fyrir neðan öll gjaldskyldu gagnasöfnin, er aðeins einn brotinn. Það þætti reyndar klént á flestum vefsíðum, en á hvar.is má maður prísa sig sælan fyrir slíkt hlutfall.

Ef hægt væri að komast beint á gagnasöfnin, án þess að nýta síðuna hvar.is, væri þetta ekki svo slæmt. En það er því miður ekki raunin. Tökum sem dæmi Encyclopedia Britannica. Ef farið er inn á www.britannica.com eins og manni gæti dottið í hug, og svo leitað að upplýsingum um tunglið („moon“) endar maður á síðu sem býður upp á áskrift gegn gjaldi. En ef farið er inn á search.eb.com, sem er hlekkurinn sem birtist í hvar.is, birtist rétt færsla. Svipuð reynsla er af öðrum gagnasöfnum, almennu leiðirnar virka ekki, heldur þarf að slá inn sérstakrar slóðir sem almenningur getur ómögulega giskað á.

Eftir að hafa lent í þeim hremmingum sem lýst er að ofan veldur hjálpin nokkrum vonbrigðum. Hún bendir notendum í vanda á að kanna rækilega hvar „sambandsleysið“ gæti legið:

„… í tölvunni þinni“

„… hjá netfyrirtækjunum“

„… hjá netveitunum“

„… hjá gagnasöfnunum“

(… en örugglega ekki hjá hvar.is …)

Rétt er að taka fram að samkvæmt upplýsingum á síðunni á að vera hægt að ná sambandi við umsjónarmenn hvar.is með hjálp tölvupósts. Verið getur að þeir hefðu aðstoðað ef það hefði verið reynt, en það er til of mikils ætlast að einhver sem vill kynna sér hvað stendur til boða á hvar.is þurfi að fara að standa í bréfaskiptum. Eins er ekki hægt að útiloka að einhverjir af brotnu hlekkjunum hafi verið pistlahöfundi, netfyrirtæki, netveitu eða gagnasöfnum að kenna, en ýmsir hljóta þó klárlega að skrifast á umsjónarmenn hvar.is, þar sem um var að ræða síður sem vantaði inn á sjálft heimasvæðið.

Með úrbótum á vefsíðu hvar.is mætti bæta aðgengi til muna fólks að þeim gögnum sem greitt hefur verið fyrir og auka notkun á þeim, almenningi, nemendum og fræðimönnum til góðs.

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)