Stjórmálafræðinemar í fangelsi í Slóveníu

ljubliana.jpgÍ lok september fór pistlahöfundur til Ljubljana höfuðborgar Slóveníu á ráðstefnu. Ferðin til Slóveníu var ævintýri líkust og ótrúlegt var að sjá hinn hraða uppgang í efnahagslífinu þar.

ljubliana.jpgÍ lok september fór undirrituð formaður Politicu félags stjórnmálafræðinema, ásamt Einari Þorsteinssyni fyrrverandi formanni, til Ljubljana höfuðborgar Slóveníu á IAPSS ráðstefnu. IAPSS (International Association for Political Science Students) eru alþjóðasamtök stjórnmálafræðinema sem voru stofnuð í Leiden í Hollandi fyrir sex árum.

Tilgangur samtakanna er að veita stjórnmálafræðinemum um allan heim tækifæri til þess að vinna saman og skiptast á skoðunum í gegnum alþjóðlegt samskiptanet. Pólitískt sjálfstæði, þekking, fagmennska og virðing fyrir breytileika eru helstu gildi sem IAPSS leggur áherslu á.

Ferðin til Ljubljana í Slóveníu var mjög áhugaverð og dýrmæt reynsla fyrir þátttakendur. Þeir nutu þess að sitja marga fróðlega fyrirlestra, lærðu almennar vinnureglur sem viðhafðar eru á fundum alþjóðasamtaka af þesu tagi og kynntust fólki sem stundar sama nám í öðrum löndum.

Ráðstefnan stóð yfir í tæpa viku og þar var mikil og áhugaverð umræða. Fyrir lá að gera grundvallarbreytingu á samtökunum á aðalfundinum í Ljubljana, sem fólst í því að samtökin hefðu fast aðsetur í borginni. Það þýðir að starfsmenn samtakanna búi í Ljubljana á meðan þeir starfa fyrir þau. Það voru mikil átök um hvort rétt hafi verið farið að við að tilkynna félögum IAPSS um þessa tillögu. Á síðasta aðalfundi samtakanna í Búkarest í Rúmeníu voru flest aðildarfélögin á móti föstu aðsetri í Slóveníu. Fyrsta kvöldið í Ljubljana var þó ljóst að margt hafði breyst. Strax á mánudagskvöldið var haldinn fundur þar sem yfirmenn sendinefndanna (e. Head of Delegations) voru kallaðir saman. Þar var gengið á þá og þeir spurðir hvort þeir ætluðu að styðja hugmyndina eða ekki. Í ljós kom að meirihlutinn, 18 af 19, voru jákvæðir gagnvart henni. Að þessum fundi loknum var því ákveðið að halda áfram með aðalfundinn samkvæmt áætlun. Við fulltrúar Politicu vorum jákvæð fyrir því að IAPSS hefði fast aðsetur í Slóveníu, þar sem samtökin vantaði samastað og vinnuaðstöðu fyrir framkvæmdastjórn (e. executive commitee) til þess að þau geti vaxið og dafnað sem virk alþjóðasamtök.

Það má með sanni segja að Slóvenía hafi komið okkur skemmtilega á óvart. Það var virkilega gaman að sjá hve þróunin hefur verið jákvæð eftir að landið losnaði undan oki kommúnismans fyrir rúmum áratug. Nú er Slóvenía á leið inn í Evrópusambandið og allt hefur verið gert til að losa hana úr fjötrum gamals tíma, og hefur tekist nokkuð vel til. Ýmsar alþjóðastofnanir og samtök hafa lagt þarlendum stjórnvöldum lið, til dæmis The Hayek Foundation, og þessi hraði uppgangur í efnahagslífinu hefur stundum verið kallaður „slóvenska kraftaverkið“.

Ferðin til Slóveníu var ævintýri líkust, ég kom ein til Ljubljana með lest og mér til mikillar ánægju biðu IAPSS félagar á lestarstöðinni í Ljubljana til að taka á móti mér. Ég kom til Ljubljana 22. september, og það vildi svo skemmtilega til að þá var Umhverfisdagur Evrópu og ekki mátti keyra bíl um miðborgina, þannig að við urðum að ganga á gistiheimilið. Ég var með mikinn farangur sem ég gat varla haldið á sjálf, og því nokkuð puð að drösla þessu eftir götum Ljubljana.

Þegar við komum að gistiheimilinu var ekki laust við að mér hafi brugðið, það blasti við bleikt hús umkringt gaddavír. Ég sótti lykilinn minn í afgreiðsluna og dreif mig upp á herbergi, enda þreytt eftir ferðalagið. Þegar ég tók upp lykilinn og opnaði hurðina kom í ljós rimlahurð fyrir innan – já eins og er í fangelsum. Ég opnaði hana og gekk inn. Þar sá ég hvorki rúm né húsgögn, aðeins steingólfið og rimla fyrir glugganum Sérstakt hugsaði ég, en leit svo upp og sá þar tvær kojur alveg þétt upp við loftið, mér til mikillar ánægju. Þeir höfðu þá breytt gömlu fangelsi í gistiheimili. Mér fannst þetta umhverfi reyndar mjög skemmtilegt og leið bara nokkuð vel þarna í þá viku sem eyddi í Ljubljana. Þó gististaðurinn hafi verið frekar kuldalegur, get ég huggað mig við það að betri undirbúning fær maður ekki fyrir þingmennsku.

Latest posts by Erla Ósk Ásgeirsdóttir (see all)

Erla Ósk Ásgeirsdóttir skrifar

Erla hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2003.