Ósamstæð heimssýn

Það skýtur nokkuð skökku við að stofna heil samtök í þeim tilgangi að vekja umræðu um tiltekið mál, en leggjast síðan í dvala, þannig að hvorki heyrist hósti né stuna um málið. Stofnun Heimssýnar er til umfjöllunar á Deiglunni í dag.

Oft er betra heima setið en af stað farið! Það er ekki laust við að þetta máltæki komi upp í hugann þegar maður skoðar stutta sögu Heimssýnar, hreyfingu sjálfstæðissinna í Evrópumálum, sem var stofnuð fyrir u.þ.b. tveimur mánuðum.

Af lista yfir stofnfélaga sést að bakgrunnur og skoðanir þeirra eru æði misjafnar. Það er greinilegt að menn hafa síður en svo verið vandlátir við valið á þeim þó þeir séu hornsteinar félagsins. Hjá þeim ægir öllum stjórnmála- og lífsskoðunum saman en í fljótu bragði eru sjálfstæðismenn, vinstri-grænir og ýmis konar þjóðernissinnar mest áberandi. Það er augljóst að stofnfélagar gætu ekki verið sammála um marga hluti í dægurþrasinu og íslenskum veruleika. Þeir gætu eflaust bara verið sammála um eitt. Að vera á móti inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Það er eins konar lægsti samnefnari skoðana stofnfélaga og virðist hafa verið eina skilyrðið sem menn þurftu að uppfylla til að verða titlaðir stofnfélagar.

Það, að svo ósamstæður hópur standi að félaginu, getur auðveldlega komið niður á því þegar fram líða stundir. Það er nefnilega ekki er nóg með það að andúð á ESB sé lægsti samnefnari skoðanna stofnfélaga heldur er augljóst að ástæður andúðarinnar eru jafn mismunandi og hóparnir eru margir. Maður sér ekki í fljótu bragði að stofnfélagar geti fundið mótrök við aðild sem samrýmist lífsviðhorfum og skoðunum allra stofnfélaganna nema auðvitað að tilgangurinn helgi algjörlega meðalið.

Kannski eru vandræðin þegar byrjuð. Þrátt fyrir að yfirlýstur tilgangur félagsins sé að “hvetja til opinnar umræðu um Evrópu- og alþjóðasamstarf” þá hefur ekkert heyrst frá því þann tíma sem það hefur verið starfrækt. Bara einn stór uppblásinn fjölmiðlasirkus þegar félagið var stofnað. Heimasíðan er heldur ekkert til að hrópa húrra fyrir, engar upplýsingar eða nokkuð sem bendir til opinnar umræðu um eitt eða neitt. Hins vegar er á síðunni stór “Séð og heyrt” listi yfir allt það mæta fólk sem er í félaginu.

Maður reyndar dauðvorkennir því frjálslynda fólki sem hefur látið hafa sig út í þennan félagsskap, sérstaklega hvernig sjálfstæðismönnum er stillt upp. Eiga þeir að að heyja yfirvofandi baráttu um aðild að ESB í þessum félagsskap, með fyrrverandi alþingismann Alþýðubandalagsins sem leiðtoga sinn, mann sem t.d. barðist gegn litasjónvarpinu á sínum tíma. Eiga aðalvopnabræður þeirra í baráttunni gegn ESB að vera afturhaldssinnar, þjóðernissinnar og kynþáttahatarar? Þetta er dálaglegur félagsskapur sem þeim hefur verið stillt upp í og verða væntanlega samsamaðir í framtíðinni.

Það hefði kannski verið skynsamlegra fyrir stofnendur Heimssýnar að hafa fólk með svipuð grundvallarlífsviðhorf innan félagsins. Þá væri væntanlega öll framsetning á rökum og málflutningi mun auðveldari. Vonandi á þetta ekki eftir að há hinu nýja félagi þar sem alvöru umræðu á Íslandi um kosti og galla ESB er sárt saknað. Vonandi munum við sjá opna og upplýsta umræðu frá félaginu en ekki þögn síðustu tveggja mánaða. Hvort heldur sem verður, þá verðum við, sem erum búin að bíða lengi eftir upplýstri umræðu um inngöngu í ESB, að bíða enn um sinn.

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.