“Snooze” samfélagið og Tumi smali

Það er erfitt að vakna á morgnana og ekki hjálpa þessir bölvuðu „snooze“ takkar á gsm vekjurum og öðrum uppvakningartækjum. Það er freistandi að kúra bara aðeins lengur á morgnana – en hugsanlega er nær þessi „snooze“ árátta lengra en inn í svefnherbergið.

Það er ekki alltaf gaman að vakna á morgnana. Maður er oftast þreyttur og pirraður og langar til þess að sofa lengur – bara aðeins lengur. Þannig er ég a.m.k. og flestir sem ég þekki. Raunar þekki ég engan sem hefur sérstakt dálæti á því að rífa sig upp á morgnana eða er sérstaklega hress fyrir hádegi – og ætli ég kæri mig nokkuð um að þekkja þannig fólk. Mér hefur a.m.k. alltaf verið meinilla við hann Tuma í kvæðinu sem spratt upp við fyrsta hanagal og hékk svo yfir ánum lengst inn í Fagradal. Ætli Tumi falli ekki best undir skilgreininguna “pathetic loser”, svo maður slái nú um sig með útlenskunni.

En ef við gefum okkur að Tumi hefði ekki verið svona mikill sveimhugi heldur metnaðarfullur ungur maður með vit á „nýja hagkerfinu“ og gjaldeyrisbraski. Mætti þá ekki ætla að hann yrði fljótur að komast á toppinn af þeirri einu ástæðu að hann væri svo hress á morgnana. Ég held það. Tumi hefði orðið persónugervingur hinnar nýju aldamótakynslóðar.

Mín kynslóð er nefnilega ekki hress á morgnana og vaknar ekki við hanagal heldur GSM síma og rafvekjaraklukkur. Slík tæki bjóða upp á alveg sérstaklega viðurstyggilegan möguleika þegar þær hringja fyrst. Þær segja við mann: “Ýttu á takkann og ég skal hringja aftur eftir sex mínútur. Sofðu bara aðeins lengur.” Þetta er freistandi boð fyrir veikar sálir og þreytta kroppa og flestir þiggja það með þökkum – og sofa aðeins lengur. Og svo aftur – aðeins lengur. Og aftur. Alveg þangað til klukkan er orðin svo margt að maður er annað hvort búinn að sofa yfir sig eða hefur bara nokkrar mínútur til þess að koma sér af stað. Allt út af þessum helvítis “snooze” takka. Svo er maður meira eða minna í móki allan daginn og dauðþreyttur og ruglaður eftir morgunrútínuna – en maður heldur áfram að láta blekkjast því það er eitthvað svo notalegt að sofa aðeins lengur.

Kannski er þetta morgunböl táknrænt fyrir það samfélag sem við búum í. Eða hvað er Byggðarstofnun, ofurtollar á grænmeti og menningarstyrkir annað en “snooze” takkar sem slá óhjákvæmilegri þróun á frest? Eða raðgreiðslur og bílalán? Ég held að tími sé kominn til þess að segja “snooze” takkanum og “snooze” samfélaginu stríð á hendur. Illu er best af lokið – en ekki slegið á frest – eða hefði t.d. maður eins og Tumi látið sér detta í hug að taka bílalán. Og hann hefði alveg áreiðanlega ekki “snúsað” þótt hann hefði haft tækifæri til.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.