Ríkisvæðing í upplýsingatækni?

Ein tegund atvinnurekstrar hefur orðið að mestu til á síðasta áratug. Það er sennilega ástæða þess að hún er tiltölulega laus við afskipti ríkisins. En þó á ríkið töluverða viðskiptahagsmuni í upplýsingatækniheiminum.

Á síðustu árum, og þá kannski sérstaklega síðustu dögum, hefur ríkisstjórn Davíðs Oddssonar staðið fyrir umfangsmikilli einkavæðingu á ríkisfyrirtækjum í samkeppnisrekstri. Ég hef áður gagnrýnt þá leið sem farin var í einkavæðingu á Landssímanum en tel þó víst að tekið hafi verið skref í rétta átt með því að draga ríkið út úr banka- og fjarskiptarekstri. Í tímaritinu Hagmál, sem gefið er út af útskriftarnemum í hagfræði, lýsir fjármálaráðherra því svo yfir að næstu skref einkavæðingarinnar verði á sviði orkumála. Það er því ljóst að við erum að upplifa mestu markaðsvæðingu ríkisfyrirtækja í sögu lýðveldisins. Þetta er mikið fagnaðarefni þar sem ósennilegt má telja að jarðvegur fyrir þjóðnýtingu atvinnufyrirtækja sé sérstaklega frjór um þessar mundir og því líklegt að þau fyrirtæki sem nú verða einkavædd komi til með að starfa í friði á markaði um langa hríð.

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru í samræmi við stefnuyfirlýsingu hennar frá 28. maí 1999 en þar segir að “halda [skuli] áfram einkavæðingu ríkisfyrirtækja, einkum þeirra sem eru í samkeppni við fyrirtæki í eigu einkaaðila.” Í stefnuyfirlýsingunni er sumsé skýrt tekið fram að ríkið eigi að hætta rekstri í samkeppni við einkaaðila og ekki þarf að koma á óvart að engin áform eru þar uppi um að ríkið hefji þátttöku í samkeppnisrekstri annars staðar. Þannig hefur t.d. ekki borið á hugmyndum um að sett verði á laggirnar ríkisbakarí, ríkisbílasala eða ríkisdiskótek. Hins vegar hefur þróunin orðið önnur á sviði hugbúnaðargeirans þar sem hið opinbera hefur að undanförnu lagt út í stofnun nokkurra ríkisfyrirtækja sem sinna eiga hlutverkum sem hæglega gætu átt heima í samkeppnisumhverfi markaðarins.

Þar ber fyrst að nefna Skráningarstofuna hf, sem starfar undir forsjá dómsmálaráðuneytisins. Þetta fyrirtæki hefur það hlutverk að sjá um ökutækjaskráningu, rekstur tölvukerfis ráðuneytisins og ýmis upplýsingaverkefni tengdum Schengen. Öllum verkefni Skráningarstofunnar mætti hæglega sinna af hinum fjölmörgu einkafyrirtækjum í hátæknigeiranum jafnvel þótt ljóst sé að kröfur um upplýsingaöryggi hljóti að vera ákaflega miklar í þessum verkefnum. Úr því ríkisstjórninni hefur ekki þótt það neitt tiltökumál að treysta einkafyrirtæki fyrir sjúkraskýrslum landsmanna og rekstri gagnagrunns á heilbrigðissviði þá sætir furðu að sama gildi ekki um bifreiðaskráningar.

Fleiri dæmi um skrýtnar áherslur opinberra aðila í upplýsingatæknimálum er stofnum menntamálaráðuneytisins á fyrirtæki til reksturs á bókasafnskerfum landsins. Stofnkostnaður við fyrirtækið verður 148 milljónir og áætlaður rekstrarskostnaður 70 milljónir á ári. Í tilkynningu frá Menntamálaráðuneytinu kemur fram að stofnað verði hlutafélag um rekstur kerfisins með aðild ríkis og sveitarfélaga en engan sérstakan rökstuðning er þar að finna fyrir því af hverju rekstur kerfisins var ekki boðin út í samræmi við það sem segir í skýrslu ríkisstjórnarinnar frá 1996. Þar segir m.a.:

Stjórnarráð, stofnanir og fyrirtæki ríkisins skulu ávallt nýta markaðslausnir þar sem þær bjóðast og þær eiga við. Tryggt verði að tölvusamskipti fari eftir alþjóðlegum stöðlum og að ný kerfi uppfylli kröfur um samskiptahæfni. Lögð verði áhersla á útboð á starfsemi og verkefnum tengdum upplýsingatækni. Slík útboð verði markvisst nýtt til atvinnu- og nýsköpunar.

Þá má nefna fyrirtækið RHnet hf. sem er í eigu sautján íslenskra menntastofnana (þar af eru sextán þeirra í eigu ríkisins). Nýlega gerði RHnet samning við Línu.net, sem er í eigu Orkuveitu Reykjavíkur, um nettengingu þessara stofnana. Hér er um gríðarlega umfangsmikinn rekstur að ræða sem einkafyrirtæki s.s. eins og Skýrr og Íslandssími ættu hæglega að geta sinnt.

Ljóst er að fyrirtæki í almenningseigna hyggja á stórsókn í upplýsingatæknigeiranum. Þetta er hættuleg þróun og varhugaverð. Ríkisstjórnin, og þá sérstaklega sjálfstæðismenn, ætti að hugsa til þess að líklega munu vinstri menn einhvern tímann ná völdum í íslenskum stjórnmálum og þá má búast við enn meiri ríkisvæðingu upplýsingatæknigeirans. Þessi ríkisvæðing, sem núverandi ríkisstjórn er að leggja grunninn að, býður þó upp á þann möguleika að ríkisstjórnir með aðild Sjálfstæðisflokks geti um alla framtíð stundað einkavæðingar af krafti svo fremi sem þær gæti að því að huga að ríkisvæðingu nýrra atvinnuvega á sama tíma. Þannig má búast við því að einkavæðing Skráningarstofunnar hf. verði í náinni framtíð hluti af einkavæðingaráformum ríkisins þótt nú virðist starfsemi hennar falla undir einhvers konar ríkisvæðingarstefnu.

Það er vinsælt í pólitík að fara fram á einhvers konar stefnumótun í hinum og þessum málum. Því miður lætur ríkið gjarnan undan slíkum kröfum en það er von mín að slíku verði ekki til að dreifa í upplýsingatækninni. Umfram allt eru það nefnilega aðeins fimm orð sem ættu að skjóta okkur skelk í bringu í þessum efnum. Þau eru: Heildstæð stefnumótun ríksins í upplýsingatæknimálum.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.