Förum varlega í sakirnar

Fiskeldi hvers konar hefur tekið stórstígum framförum síðustu árin og hlutur þess í matvælaframleiðslu heimsins fer ört vaxandi.

Fiskeldi hvers konar hefur tekið stórstígum framförum síðustu árin og hlutur þess í matvælaframleiðslu heimsins fer ört vaxandi. Hér á landi var þessi atvinnugrein lengi tengd sjóðasukki Steingrímsáranna og hafði á sér stimpil óráðsíu og óðagots. Reynslunni ríkari og í með hliðsjón af ofangreindum framförum, sjá menn nú mikla hagnaðarvon í fiskeldi, einkum meiriháttar sjókvíaeldi á laxi. Í vetur veitti veiðimálastjóri tveimur fyrirtækjum rekstrarleyfi til laxeldis í sjó á Austfjörðum. Sæsilfur áformar laxeldi í Mjóafirði og Salar Islandica verður með umfangsmikið eldi í Berufirði.

Þá eru ógleymanlegar myndir af Guðna Ágústssyni landbúnaðarráðherra sem teknar voru um borð í hafnsögubátnum í Vestmannaeyjum 22. mars sl. en þá veitti Guðni Íslandslaxi hf. tilraunleyfi til laxeldis í Klettsvík (þar sem Keikó kallinn hefur dvalist síðustu ár). Til viðbótar má nefna að Samherji hf. hefur uppi áform um að framleiða 20 þúsund tonn af laxi í sjókvíum í Reyðarfirði, fáist til þess leyfi, og á aðalfundi félagsins í síðasta mánuði kom fram að slík framleiðsla gæti gefið allt að 5 milljarða af sér í útflutningstekjur.

Þótt allar líkur séu á að uppgangur laxeldis í þeim mæli sem ráð er fyrir gert muni hafa mjög jákvæð áhrif á efnahagslífið almennt, einkum á landsbyggðinni, þá hafa verið mjög skiptar skoðanir um þetta fyrirhugaða laxeldi. Það eru einkum þeir sem hafa áhuga á viðgangi villta laxastofnsins á Íslandi, Norður-Atlantshafslaxinum, sem engan veginn geta sætt sig við laxeldið. Því er haldið fram, að umfangsmikið laxeldi í sjó, þar sem töluvert af eldisfiski sleppur út í náttúruna, muni á endanum ganga af villta laxastofninum dauðum.

Umfangsmiklar rannsóknir hafa ekki staðreynt þessar skoðanir vina villta laxastofnsins, en þó er ýmislegt sem bendir til þess að kenningar þeirra eigi við rök að styðjast. Ein kenningin er sú, að eldislaxar sem sleppa úr sjókvíunum leiti í árnar en af eðlisávísun hrygni þeir síðar en villti fiskurinn á haustin. Laxinn „plægir“ árbotninn fyrir hrygningu og hrygnan kemur hrognunum vel fyrir í sendnum botni. Þessi mismunandi tímasetning villta fisksins og eldisfisksins á hrygningunni veldur því, að eldisfiskurinn „plægir“ upp árbotninn eftir að hrygning villta fisksins hefur farið fram og eyðileggur þar með hrygninguna. Afleiðingin er sú, að smám saman deyr villti stofninn í viðkomandi á út og eldisfiskurinn verður alls ráðandi.

Áhyggjur góðvina villta laxastofnsins eru skiljanlegar. Frá þeirra bæjardyrum séð er það algjörlega óviðunandi að framtíð Norður-Atlantshafslaxsins sé teflt í hættu með umfangsmiklu sjókvíaeldi. Þarna vegast á hagsmunir sem eru að verða eins og rauður þráður í allri stjórnmálaumræðu, hvort sem er hér heima eða erlendis. Allar líkur eru á því, að efnahagslegur ávinningur af laxeldi í þeim mæli, sem um er rætt, yrði gríðarlegur. Umhverfið hefur alla tíð og mun alltaf bera skarðan hlut frá borði, þegar maðurinn brýst til bjargálna. Það er hins vegar sjálfsögð krafa, þegar fyrir liggja jafn sterkar vísbendingar um óæskileg áhrif sjóeldis á náttúrlega stofna, að farið sé að öllu með gát.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.