Útbreiddur misskilningur um einkavæðingu

Í umræðu um stjórnmál ber oft á góma ýmis hugtök, en skilningur manna á hugtökunum er oft æði misjafn, og oft er um almennan hugtaka rugling að ræða. Þetta er sérstaklega áberandi í allri umræðu um rekstur hins opinbera og þegar talað er um einkavæðingu. Til að byrja með verður að hafa á hreinu merkingu tveggja hugtaka, annars vegar einkareksturs og hins vegar andheitisins ríkisrekstur.

Þegar rekstrarformi einhvers er breytt úr ríkisrekstri yfir í einkarekstur er um svokallaða einkavæðingu að ræða. Þegar á hinn bóginn eitthvað fer úr einkarekstri yfir í ríkisrekstur er um ríkisvæðingu eða þjóðvæðingu að ræða. Hins vegar er afar útbreiddur misskilningur að þegar rekstrarformi á ríkisstofnun er breytt, til dæmis þegar stofnanir eru gerðar að hlutafélagi sé um einkavæðingu að ræða. Þetta er eingöngu breyting á stjórnskipulagi og skiptir litlu máli fyrir aðra en æðstu stjórnendur og hugsanlega bókhaldsdeild stofnunarinnar. Hins vegar getur slík breyting verið undanfari einkavæðingar, en það er annað mál. Þegar ákveðin verkefni hins opinbera eru boðin út til dæmis vegagerð, ræstingar eða eitthvað af því tagi, er ekki heldur um einkavæðingu að ræða þó svo að einkaaðilar bjóði í reksturinn. Ríkið borgar áfram og því er um ríkisrekstur að ræða. Það skiptir nefnilega ekki máli hver á framleiðslutækin, heldur skiptir hitt máli hvaðan fjármagnið kemur, enda búum við í kapítalísku þjóðfélagi. Að vísu eru þeir til sem halda hinu fram og segja að ef skúringarkonan á moppuna sína sjálf, það er að segja framleiðslutækið skipti ekki máli hvaðan fjármagnið kemur sem fer til að greiða henni fyrir vinnu sína. Þeir sem að þannig hugsa eru fastir í viðjum gamaldags marxisma.

Einkavæðing er eingöngu það þegar ríkisrekstur er seldur eða lagður niður og einkaaðilar, annaðhvort kaupa fyrirtæki eða fylla á einhvern hátt upp í það tóm sem að aflagning ríkisrekstursins skilur eftir sig.

Þegar verkefni eru boðin út, þjónustusamningar gerðir eða svokölluðum ávísanakerfum komið á er ekki verið að einkavæða, heldur er eingöngu verið að reyna að nýta opinbert fé á sem hagkvæmastan hátt þannig að skattgreiðendur fái sem allra mest fyrir peninga sína. Hins vegar þegar ríkið selur prentsmiðjur eða skipaútgerðir, þá er verið að einkavæða. Gleymum ekki veigamiklu atriði þegar eignir eða réttindi af einhverju tagi eru tekin af einstaklingum eða fyrirtækjum er það þjóðnýting, hvort sem hún er í formi ofsköttunar, veiðileyfagjalds, fyrningar fiskveiðikvóta eða annars konar útþenslu ríkisvaldsins inn á einkasvið einstaklinganna í landinu. Það er hins vegar pólitísk ákvörðun hvort við samþykkjum slíka þjóðnýtingu upp að einhverju marki, til dæmis að láta hluta af sértekjum okkar renna til samfélagsins í formi skatta svo hægt sé að leggja vegi, byggja skóla og reka sjúkrahús, en köllum hlutina réttum nöfnum, rétt skal vera rétt.

Latest posts by Erla Ósk Ásgeirsdóttir (see all)

Erla Ósk Ásgeirsdóttir skrifar

Erla hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2003.