Línudans í boði Reykvíkinga

Forseti borgarstjórnar Reykjavíkur, Helgi Hjörvar.

Á fundi stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur sl. þriðjudag samþykkti meirihluti stjórnarinnar að 220 milljónum króna af fé Orkuveitunnar, sem Reykvíkingar eiga, yrði varið í hlutafjáraukningu í fyrirtækinu Lína.Net.

Forseti borgarstjórnar Reykjavíkur, Helgi Hjörvar.

Á fundi stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur sl. þriðjudag samþykkti meirihluti stjórnarinnar að 220 milljónum króna af fé Orkuveitunnar, sem Reykvíkingar eiga, yrði varið í hlutafjáraukningu í fyrirtækinu Lína.Net. Alfreð Þorsteinsson og Helgi Hjörvar, borgarfulltrúar R-listans, sitja í stjórn beggja fyrirtækjanna og sá fyrrnefndi er stjórnarformaður í þeim báðum (auk þess að vera stjórnarformaður Sparisjóðs vélstjóra, viðskiptabanka Orkuveitunnar!). Þeir félagar róa nú lífróður til að bjarga óskabarni sínu, Línu.Net, frá gjaldþroti.

Staða fyrirtækisins, sem sannarlega er tákngerfingur fyrir „nýja sýn“ ákveðinna borgarfulltrúa R-listans, er hroðaleg. Reykvíkingar hafa þegar séð af mörg hundruð milljónum í Línu.Net en Alfreð og Helgi hafa haldið því fram, að verja yrði myndarlegum upphæðum í að koma fyrirtækinu á kopp en sú fjárfesting yrði síðan fljót að borga sig. Helgi Hjörvar sagði í viðtali við Viðskiptablaðið 2. maí síðastliðinn, að ekki yrðu meiri fjármunir úr sjóðum borgarbúa settir í fyrirtækið. Virðing forseta borgarstjórnar Reykjavíkur fyrir fjármunum borgarbúa og sannleikanum er slík, að nú mun fyrirtæki sem almenningur á að fullu, Orkuveitan, leggja 220 milljónir í viðbót í púkkið.

Ástæðan fyrir þessum neyðarráðstöfunum á kostnað Reykvíkinga er sú, að Lína.Net stefnir hraðbyri í þrot. Helgi Hjörvar og Alfreð Þorsteinsson áætluðu að skuldir Línu.Net í árslok 2000 myndu nema 390 milljónum króna. Niðurstaðan varð sú að áætlun þeirra skeikaði um hvorki meira né minna en tæp 400%! Um síðustu áramót skuldaði Lína.Net réttar 1.615 milljónir króna. Þegar fyriræki hefur engar tekjur og er í raun ekkert nema blaðamannafundir og gervisamstarfssamningar, þá er þessi upphæð þungur myllusteinn. En þær byrðar þurfa þeir Helgi Hjörvar og Alfreð Þorsteinsson ekki að bera – það kemur í hlut umbjóðenda þeirra, almennings í Reykjavík.

Línudans Helga Hjörvar og Alfreðs Þorsteinssonar er því miður ekki afmarkað „flipp“ tveggja misheppnaðra athafnamanna sem komist hafa í sjóði er seint tæmast og nota þá hispurslaust til að fjármagna viðskiptaævintýri sín. Nei, þessi línudans er aðeins einn þáttur af fjölmörgum í umfangsmiklum blekkingarleik R-listans með fjármuni borgarbúa. En á meðan fjölmiðlar nenna ekki að setja sig inn í fjármál Reykjavíkurborgar, er lítil von til þess að Reykvíkingar fái að heyra sannleikann um meðferð R-listans á skattpeningum þeirra.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.