Góður sigur Verkamannaflokksins

Það hefur varla farið fram hjá neinum sem eitthvað fylgist með stjórnmálum að Verkamannaflokkurinn í Bretlandi undir stjórn Tony Blair vann á fimmtudaginn afgerandi sigur í þingkosningum á Bretlandi. Sigur Verkamannaflokksins er verðskuldaður enda hefur hann stjórnað landinu vel síðan hann tók við völdum af Íhaldsflokknum árið 1997.

Það hefur varla farið fram hjá neinum sem eitthvað fylgist með stjórnmálum að Verkamannaflokkurinn í Bretlandi undir stjórn Tony Blair vann á fimmtudaginn afgerandi sigur í þingkosningum á Bretlandi. Sigur Verkamannaflokksins er verðskuldaður enda hefur hann stjórnað landinu vel síðan hann tók við völdum af Íhaldsflokknum árið 1997.

Stefna ríkisstjórnar Verkamannaflokksins í efnahagsmálum hefur verið sérstaklega vel heppnuð. Í gegnum tíðina hefur gangur breska hagkerfisins einkennst mjög af „boom-bust” hagsveiflum. Eitt fyrsta verk stjórnar Blair árið 1997 var að veita Englandsbanka fullt sjálfstæði við ákvörðun peningamála. Með þessu tók ríkisstjórnin úr sambandi einhverja stærstu uppsprettu óstöðuleika sem hagkerfið hafði mátt búa við fram að því. En stefna flokksins í ríkisfjármálum hefur einnig átt stóran þátt í velgengni hagkerfisins á síðustu árum. Hún hefur að stórum hluta mótast annars vegar af hinni svokölluðu „gullnu reglu”, þ.e. að yfir hagsveifluna eigi ríkistjórnin einungis að taka lán til þess að fjármagna fjárfestingu, og hins vegar reglunni um „sjálfbæra skuldastöðu”, þ.e. að nettó skuldir hins opinbera skuli ekki fara yfir 40% af VLF.

Sú ábyrga stefna sem stjórn Verkamannaflokksins hefur markað í peningamálum og ríkisfjármálum hefur án efa átt stjóran þátt í þeim jafna og stöðuga hagvexti sem einkennt hefur breskt efnahagslíf síðustu árin. Aðrar hagstærðir segja svipaða sögu. Verðbólga og vextir hefur verið lág og stöðug og atvinnuleysi hefur farið lækkandi. En það sem meira er benda lágar verðbólguvæntingar til þess að hér sé um varanlegan efnahagsárangur að ræða.

En sigur Verkamannaflokksins er ekki nema að hluta til kominn vegna árangurs hans við stjórn landsins á síðasta kjörtímabili. Skorturinn á verðugum andstæðingi átti án efa meiri þátt í sigri Blair á fimmtudaginn en nokkuð það sem hann áorkaði á síðustu fjórum árum. Eftir að hafa haft tögl og haldir í breskum stjórnmálum stærstan hluta síðustu aldar er Íhaldsflokkurinn ekki nema svipur hjá sjón. Svo virðist sem flokkurinn hafi enn ekki áttað sig á því hvernig landslag stjórnmálanna hefur breyst síðan kalda stríðinu lauk. Fyrir um tíu árum virðist það hafa gerst á skömmum tíma að vinstriflokkar um alla Evrópu áttuðu sig loksins á því að markaðsbúskapur annars vegar og markmið þeirra um félagslegt réttlæti hins vegar eiga samleið. Fram að þeim tíma virðist þessi augljósa staðreynd einhvern vegin hafa farið fram hjá þeim.

Þessi mikilvæga breyting gerði það að verkum að það var ekki lengur nóg fyrir hægriflokka í Evrópu að vera fylgjandi markaðsbúskap til þess að vera í yfirburðastöðu. Breytingin gerði það að verkum að hægriflokkarnir þurftu að taka til í skuggahliðum stefnumála sinna til þess að geta keppt við nýja og mun öflugri andstæðinga. Þessi tiltekt hefur því miður gengið seint hjá flestum þessara flokkar. En það hefur aftur átt stóran þátt í því að vinstriflokkar hafa ráðið lögum og lofum í evrópskum stjórnmálum síðustu tíu árin.

Til þess að Íhaldsflokkurinn geti aftur orðið verðugur keppinautur Verkamannaflokksins um fylgi bresku þjóðarinnar verður hann að losa sig við þann þjóðarrembing sem einkennir stefnu hans í Evrópumálum, og þá sérstaklega varðandi evruna. Einnig þarf hann að endurskoða í grundvallaratriðum stefnu sína gangvart innflytjendum og minnihlutahópum, en skortur á umburðarlyndi gagnvart þessum hópum hefur sett svip sinn á flokkin á undanförnum árum.

Krataarmur Deiglunnar vill nota þetta tækifæri til þess að óska Verkmannaflokknum til hamingju með verðskuldaðan sigur. Einnig vill hann óska flokknum góðs gengis við stjórn landsins næstu fimm árin. Að lokum vill hann óska Íhaldsflokknum góðs gengis í því að endurnýja stefnu sína.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.