Nauðungarsjónvarp í þína þágu

Ímyndum okkur eitt augnablik að hér á Íslandi væru starfræktar tvær sjónvarpsstöðvar, Skjár einn og Stöð 2. Gefum okkur að þær héldu báðar úti fréttastofum og fjölbreyttri dagská. Gerum svo ráð fyrir að fram kæmi tillaga á Alþingi um að ríkið stofnaði þriðju sjónvarpsstöðina og að á dagskrá hennar yrði m.a. formúlukappakstur; amerískar bíómyndir, skemmtiþættir og sápuóperur; og sjónvarpsmarkaður.

Ímyndum okkur eitt augnablik að hér á Íslandi væru starfræktar tvær sjónvarpsstöðvar, Skjár einn og Stöð 2. Gefum okkur að þær héldu báðar úti fréttastofum og fjölbreyttri dagská. Gerum svo ráð fyrir að fram kæmi tillaga á Alþingi um að ríkið stofnaði þriðju sjónvarpsstöðina og að á dagskrá hennar yrði m.a. formúlukappakstur; amerískar bíómyndir, skemmtiþættir og sápuóperur; og sjónvarpsmarkaður. Að auki yrði svo um mælt að hver sá sem eignaðist sjónvarp skyldi greiða mánaðarlegt gjald til sjónvarpsstöðvarinnar en að hún myndi að öðru leyti verða fjármögnuð með auglýsingum í samkeppni við hinar sjónvarpsstöðvarnar tvær. Til viðbótar við þetta fæli tillagan í sér að sjónvarpsstöð ríkisins tæki til sín tvær útsendingarásir og kæmi þannig í veg fyrir að önnur hinna tveggja sjónvarpsstöðvanna næði til allra landsmanna. Væri líklegt að núverandi ríkisstjórn tæki þá ákvörðun að styðja þessa tillögu og setja á fót ríkissjónvarp? Ég leyfi mér að fullyrða að það er af og frá. Þó virðast alls engin teikn á lofti um að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar ætli að leggja ríkisrekna afþreyingarsjónvarpið niður í bráð og heyrast gjarnan raddir um að ríkissjónvarpið gegni mikilvægu menningarlegu hlutverki og sinni ákveðnum markhópum betur en hinar sjónvarpsstöðvarnar.

Það að ríkissjónvarpið haldi úti bærilega vandaðri dagskrá og vinsælli er þó engin röksemd fyrir tilvist þess. Staðreyndin er sú að nauðungarsjónvarpið gerir einkaaðilum á sama markaði algjörlega ómögulegt að keppa um hylli sjónvarpsáhorfenda á jafnréttisgrunni og því er allur samanburður á sjónvarpsstöðvunum verulega bjagaður. Ef nauðungarsjónvarpið tæki ekki til sín toll af öllum sjónvarpstækjum og væna flís af auglýsingamarkaðnum má telja fullvíst að einkastöðvar sæju sér hag í því að höfða til áhorfenda sem hafa áhuga á heimildarþáttum, meiri íslenskri dagskrárgerð o.s.frv. Ég minni lesendur á að á Íslandi er starfrækt ein útvarpsstöð sem eingöngu spilar íslenska tónlist. Hún er í einkaeign. Á Íslandi er líka starfrækt ein útvarpsstöð sem einbeitir sér að klassískri tónlist. Hún er líka í einkaeign. Bandaríska sápuóperan Leiðarljós og breski hip-hop þátturinn Ali G og eru hins vegar sýnd á kostnað skattgreiðenda í ríkissjónvarpinu.

Stór hluti af þeirri gagnrýni sem RÚV hlýtur er vegna innheimtuaðferða starfsmanna þess, enda eru innheimtumennirnir alræmdir fyrir að beita blekkingum, lygum og frekju við störf sín. Ýmsir hafa bent á að heppilegt væri að afnema afnotagjöldin og setja RÚV á fjárlög. Þetta er einhver versta hugmynd í íslenskri pólitík. Það er nefnilega einmitt afnotagjaldið sem vekur fólk til umhugsunar um fáránleika þess að viðhalda ríkisrekinni sjónvarpsstöð með nauðungargjöldum. Þannig ýta afnotagjöldin undir réttmæta óánægju. Þessi réttmæta óánægja myndi vafalaust gleymast ef RÚV þægi fjárveitingar beint af fjárlögum. En engin sigur er unnin með því. Auðvitað væri um sömu nauðungargjöldin að ræða samt sem áður þótt fólk yrði ekki eins vart við þau. Staðreyndin er sú að ríkissjónvarp er tímaskekkja og því ætti að leggja stofnunina niður hið snarasta.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.