Slæm ákvörðun hjá Sol Campbell

Það er erfitt líf að vera harður aðdáandi Tottenham Hotspur. Og ekki skánar það þegar helsta stjarna liðsins svíkst undan merkjum og gengur í raðir erkióvinarins.

Eftir að fyrri heimsstyrjöldinni lauk, og hafist var handa við að skipuleggja áframhaldandi keppni í ensku knattspyrnunni, stóðu forráðamenn liða í deildinni frammi fyrir því að ákveða hvaða lið skyldu eiga sæti í fyrstu deild. Ákveðið var að fjölga liðum um tvö og lá beinast við að öll lið fyrstu deildar frá leiktíðinni 1914-´15 héldu sætum sínum en að tvö lið úr annarri deild bættust hópinn. Á síðustu leiktíðinni fyrir stríð höfðu Tottenham og Chelsea lent í tveimur neðstu sætum fyrstu deildar en Arsenal í sjötta sæti annarrar deildar. Þrátt fyrir að forráðamenn liða í deildinni hefðu haft í hyggju að láta Tottenham halda sæti sínu þá náði Henry Norris, eigandi Arsenal, með mútum og klækjabrögðum að sjá til þess að stjórn deildarinnar senti Tottenham niður um deild en hleypti Arsenal, af einhverjum undarlegum orsökum, upp í fyrstu deild (þess má geta að Chelsea hélt sæti sínu í fyrstu deild). Norris þessi, var síðar bannað að hafa afskipti af knattspyrnu á Englandi, þó ekki fyrir þessi bolabrögð, heldur ólöglegar greiðslur til leikmanna og ýmislegt annað svindl.

Á þriðjudaginn urðu þau tíðindi að miðvörður enska landsliðsins og Tottenham, Sol Campbell, tilkynnti loks um það hvar hann hyggst leika á næstu árum. Stórlið á borð við Barcelona, Inter Milan, Liverpool og Bayern Munchen höfðu barist um að fá þennan sterka leikmann í sínar raðir. Hefði Campbell gengið til liðs við Barcelona eða Inter hefði hann orðið lang launahæsti knattspyrnumaður heims með yfir 200 þús. pund í vikulaun og líklegt er að Liverpool hafi einnig freistað hans, enda er útlit fyrir að Púlararnir eigi möguleika á að gera góða hluti á næstu árum. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum ákvað Campell þó að ganga frekar til liðs við hið ómerkilega smálið Arsenal. Campbell hefur sagt að ástæða ákvörðunar sinnar sé m.a. sú að hann vilji búa áfram í Lundunúm þótt gera megi ráð fyrir að vist hans í borginni verði ekkert sældarlíf hér eftir.

Viðbrögð við ákvörðun Campbell hafa verið hörð. Skömmu eftir að tilkynnt var um félagaskiptin var Campbell boðaður á fund New Scotland Yard þar sem rætt var við hann um öryggismál en Campbell hefur nú fengið lífvörð í þjónustu sína ásamt því að endurnýja öryggisbúnað á heimili sínu.

Ásamt því að fórna næstum 20 milljónum á viku í laun (heimildir herma að vikulaun hans hjá Arsenal verði um 130 þús. pund en hæsta boð Barcelona var upp á 250 þús. pund) hefur Campbell, með ákvörðun sinni, gerst skotspónn ómældrar reiði fyrrverandi aðdáenda sinna hjá Tottenham. Sem dæmi um reiði stuðningsmanna Tottenham má nefna að hafin er söfnun á Tottenham treyjum merktum Sol Campbell. Stuðningsmenn eru hvattir til þess að gefa treyjurnar frekar til staðarliðsins í Kerewan í Gambíu heldur en að brenna þær. Þá hefur símanúmeri leikmannsins verið dreift á netinu og stuðningsmenn Tottenham hafa verið ólatir við að hringja í sinn gamla fyrirliða með heilræði og senda honum SMS sendingar.

Það er óhætt að segja að Campbell hefur ekki öfundsvert hlutskipti en vissulega bera félagaskiptin ákveðnu hugrekki vitni. Auðvitað verður að fyrirgefa Campbell þessi augljósu mistök því fótboltinn er náttúrlega ekki annað en leikur. Það mun ég gera – en á sama tíma er auðvitað algjörlega óviðeigandi fyrir mig, sem Tottenham aðdáanda, að óska honum góðs gengis á nýjum vettvangi – en ef einhverjir vilja hins vegar gera það þá er símanúmerið hjá Sol Campbell 07956178899. Spurning hvort hann sé utan þjónustusvæðis í augnablikinu.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.