Lögmæti dómstóla

Alþjóðadómstólar með alheimslögsögu eru kannski góð hugmynd en vandamálið er vissulega að dómstólar hafa enga lögsögu nema þeir séu færir um að framfylgja dómum sínum.

Um heim allan er nú mikið rætt um lögmæti alþjóðadómstóla. Þessi umræða er sprottin af þeim atburðum sem nýlega urðu til þess að Slobodan Milosevic, fyrrum forseti Serbíu, var fyrir skemmstu framseldur úr landi til dómstóls sem þó er ekki viðurkenndur af því ríki sem að framsalinu stóð. Fæstir virðast efast um að stríðsglæpadómstóllinn sem settur hefur verið upp í Haag sé lögmætt yfirvald til þess að fjalla um málið þótt einungis fimmtán þjóðir, þær sem sitja í Öryggisráði SÞ, hafi komið að stofnun þess. Þá munu lögspekingar margir hlakka til þess að stofnaður verði alþjóðlegur dómstóll með heimslögsögu en að því hefur verið unnið í marga áratugi. En er það trúverðugt að slíkur dómstóll gæti sinni störfum sínum? Og hvaðan þiggur hann lögmæti sitt?

Lögmæti dómstóla hlýtur að dæmast af því hvort þeir séu viðurkenndir af þegnum sínum og hvort þeir fari að lögum en mikilvægasta atriðið varðandi dómstóla er hvort þeir séu marktækir þ.e. hvort hinir dæmdu þurfa í raun að hlýta niðurstöðu dómsins. Eða hversu alvarlega tækju menn íslenska dómstóla ef hinir dæmdu þyrftu sjálfviljugir að mæta í fangelsi til þess að afplána dóma en væru annars látnir í friði. Slíkir dómstólar eru marklitlir og því er ljóst að raunverulegt lögmæti dómstóla hlýtur að takmarkast við þann lögreglu- eða herstyrk sem að baki honum býr.

Alþjóðlegir dómstólar geta því ekki talist lögmætir – eða marktækir – nema að þeir geti beitt valdi og tryggt að hinir dæmdu geti ekki hundsað refsingar sínar. Vegna þessarar skilgreiningar er ljóst að alþjóðlegir dómstólar munu aldrei hafa lögsögu í sterkustu hernaðarríkjum heims því ekkert herveldi myndi framselja stríðshetjur sínar eftir sigursælt stríð. Væri t.d. líklegt að forsetar Bandaríkjanna eða forsætisráðherrar Bretlands yrðu nokkru sinni dæmdir af alþjóðlegum dómstóli?

Til þess að alþjóðlegur dómstóll hafi raunverulega heimslögsögu þarf annað að tvennu að koma til. Hinn alþjóðlegi dómstóll þyrfti að hafa óvígan her að baki sér eða þjóðir heimsins þyrftu að hætta herrekstri og afsala fullveldi sínu til yfirþjóðlegra stofnanna. Hvorugt er líklegt og því er allt tal um alþjóðadómstóla með heimslögsögu ótímabært.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.