Hrakspárnar hrynja

Vinsældir George W. Bush meðal almennings í Bandaríkjunum eru aftur á uppleið eftir nýlega niðursveiflu. Margir spáðu því að tilkoma Bush í embætti, þ.e. að hann skyldi ekki ná meirihluta atkvæða og Flórída-hneykslið, yrði til þess að honum myndi reynast erfitt að fylkja bandarísku þjóðinni að baki sér.

Vinsældir George W. Bush meðal almennings í Bandaríkjunum eru aftur á uppleið eftir nýlega niðursveiflu. Margir spáðu því að tilkoma Bush í embætti, þ.e. að hann skyldi ekki ná meirihluta atkvæða og Flórída-hneykslið, yrði til þess að honum myndi reynast erfitt að fylkja bandarísku þjóðinni að baki sér. Samkvæmt nýrri skoðanakönnunum USA Today/CNN/Gallup lýsa 57% Bandaríkjamanna yfir stuðningi við Bush í embætti en „vinsælasti“ forseti síðari tíma í Bandaríkjunum, Bill Clinton, hafði á sama tímapunkti í sinni embættistíð stuðning 45% kjósenda. En þrátt fyrir vinsældir Bush segir yfir helmingur aðspurðra að hann hafi ekki skilning á hversdagslegum vandamálum almennings og tveir af hverjum þremur telja hann of hallan undir stórfyrirtæki. Aðrir þættir þessarar skoðanakönnunar eru ekki síður athyglisverðir.

Meirihluti aðspurðra sagðist sáttur við hvernig Bush hefur tekist til við stjórn efnahagsmála, utanríkismála, menntamála, skattamála og heilbrigðismála. Meirihluta Bandaríkjamanna virðist hins vegar samkvæmt könnunni ósáttur við framgöngu forsetans á sviði umhverfismála, orkumála, mála sem varða styrki til stjórnmálaflokka og styrki úr opinberum sjóðum til trúfélaga. Sem fyrr virðast persónutöfrar Bush gera gæfumuninn þegar kemur að almenningsálitinu. Sjö af hverjum tíu segjast kunna vel við Bush sem persónu og 78% segjast bera virðingu fyrir honum, burtséð frá pólitískum skoðunum.

En stóra spurningin, og sú sem ýmsir stjórnmálaspekúlantar vörpuðu fram með miklum þunga í eftirmála kosninga, er hvort almenningur líti á Bush sem réttkjörinn forseta sinn, í ljósi þess sem á undan er gengið. Svar almennings við þeirri spurningu er afgerandi, 73% telja hann réttkjörinn forseta Bandaríkjanna. Þessi niðurstaða er enn athyglisverðari í því ljósi, að helmingur telur þó að Bush hafi unnið kosningarnar á tækniatriði (þ.e. gamaldags kjörmannakerfi) eða hreinlega „stolið“ kosningunum.

Eitt helsta verkefni Bush að loknum kosningum var að mati stjórnmálaskýrenda að standi undir nafni sem sáttasemjari og sýna fram á að hann gæti starfað með demókrötum á þingi. Í huga almennings virðist forsetinn hafa sýnt fram á þetta, því 59% sögðu hann sýna demókrötum nægilegan samstarfsvilja á meðan 46% sögðu demókrata hafa sýnt Bush nægilegan samstarfsvilja.

Af öllu þessu ber að álykta, að þær hrakspár sem ýmsir stjórnmálaskýrendur höfðu uppi eftir kjör Bush í embætti, hafa ekki ræst. Honum hefur þvert á móti tekist að ávinna sér traust og velþóknun bandarísku þjóðarinnar á fyrstu sex mánuðunum í embætti, tímabili sem margir sögðu að ætti efir að reynast honum hvað erfiðast. Staða Bush er óneitanlega góð; hann hefur traust bakland hjá íhaldssamari armi Repúblikanaflokksins og þeim hluta þjóðarinnar sem aðhyllist slíkar skoðanir. Sú staða gerir honum kleift að feta sig í átt að miðjunni og vinna enn meira land í hinni sífelldu baráttu um almenningsálitið.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.