Endalokin nálgast

Hér á Deiglunni hefur áður verið fjallað um hættuna sem mannkyninu stafar af loftsteinum. Það er vonandi að viðbúnaður við þeirri ógn verði aukinn, en jafnvel þótt okkur takist að forðast þá vá, erum við ekki óhult. Því alheimurinn er stór og hættulegur.

Nauðsynlegt er að við sem byggjum plánetuna jörð gerum allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir að heimkynni okkar verði fyrir barðinu á einhverjum af þeim loftsteinum sem svífa um nágrenni okkar. En þótt mannkyninu takist að finna alla loftsteina sem gætu rekist á jörðina og afstýra árekstri, steðja að okkur fleiri hættur.

Jafnvel án þeirra hamfara sem árekstrar loftsteina hafa í för með sér, hefur hitastig jarðar tilhneigingu til að sveiflast. Nýlegar rannsóknir í Grænlandsjökli varpa vonandi ljósi á hversu hratt það gerist, en ýmislegt bendir til að það gæti gerst mjög hratt, jafnvel á um hundrað árum. Slíkar breytingar eru ekki líklegar til að boða endalok mannkyns, en myndu engu að síður valda miklum spjöllum og gætu raskað valdajafnvægi á jörðinni.

Hlýskeið og kuldaskeið þau sem nú verið er að rannsaka blikna þó í samanburði við þá hitabylgju sem mun óhjákvæmilega skella á að lokum. Það mun gerast eftir um það bil fimm milljarða ára, þegar eldsneyti sólarinnar er nánast uppurið. Í dauðateygjunum mun sólin stækka margfalt og gleypa innstu reikistjörnurnar, Merkúr og Venus, jafnvel jörðina. En þetta hlýskeið mun ekki vara lengi, um 100 milljón árum síðar skreppur sólin saman og verður að hvítum dverg. Ef jörðin verður þá ennþá til, mun hún verða köld og líflaus.

Líf á jörðinni eins og við þekkjum það á enga möguleika á að þrauka í gegnum þessar hamfarir. Mannkynið gæti lifað þær af, en kæmist ekki hjá því að yfirgefa heimkynnin og setjast að annars staðar. Í vetrarbrautinni eru líklega margar reikistjörnur sem myndu henta og á þeim gætu afkomendur okkar lifað góðu lífi í þúsundir milljarða ára. En að því kemur að lokum að stjörnunum fækkar, og að endingu mun slokkna á síðustu stjörnunni.

Þegar þar að kemur verður alheimurinn orðinn tíu þúsund sinnum eldri en hann er nú. Þá rennur upp skeið þar sem heimurinn er rökkvað tómarúm, þar sem hvítir dvergar, nifteindastjörnur og svarthol svífa um. Það eina markverða sem mun henda á því skeiði er þegar tvær stjörnur rekast hvor á aðra, eða á svarthol. Á sama tíma brotna róteindir atómanna smám saman niður og því verður minna og minna eftir af venjulegu efni. Að lokum verður ekkert eftir nema svarthol.

Þá verður alheimurinn orðinn 10^40 ára gamall. Þetta er svo langur tími, að allur sá tími sem liðið hefur frá upphafi alheimsins og þar til þetta er skrifað, er hlutfallslega minni en eitt sekúndubrot er af aldri alheimsins í dag.

Það er erfitt að ímynda sér hversu dimmur slíkur alheimur verður, en þó er enn erfiðara að átta sig á því sem fylgir í kjölfarið. Því þótt svarthol séu það svartasta sem þekkist, geisla þau þó frá sér orku, svokallaðri Hawking geislun. Þau minnka því smám saman og hverfa að lokum líka. Alheimurinn verður þá 10^100 ára gamall. Hann verður þá aðeins risastórt niðdimmt tóm, þar sem ekkert er, ekki einu sinni atóm. Aðeins verða á sveimi rafeindir og kvarkar, svo langt í burtu hver frá öðrum að ekki er hægt að átta sig á slíkum fjarlægðum.

Örsjaldan munu rafeindir og kvarkar komast það nálægt að þau munu mynda einhverskonar afbökuð atóm. Hvert slíkt atóm verður þó stærra en alheimurinn er í dag, og hlutfallslega skammlíft.

Það er augljóst að mannkynið verður ekki lengur til þegar þetta gerist. En bjartsýnt fólk hefur þó leitt að því líkum að við gætum skapað einhvers konar meðvitund í þessu óskiljanlega dauða tómi. Þessi meðvitund gæti fræðilega lifað að eilífu, þótt hún þyrfti að hugsa hægar og hægar, eftir því sem orkan í alheiminum minnkar.

Það er að segja ef við jarðarbúar verðum ekki búin að gera eitthvað heimskulegt og útrýma okkur sjálf, einhverntíma miklu fyrr.

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)