Líbería

Í síðustu viku létust um 600 manns eftir sprengjuárás á Monroviu, höfuðborg líberíu. George W. Bush, forseti Bandaríkjanna brást við með því að staðsetja rúmlega 2000 sjóliða út fyrir ströndum landsins. Að undanförnu hefur þrýstingur aukist á bandarísk stjórnvöld að þau stöðvi átökin á milli stjórnar Charles Taylors forseta landsins og uppreisnarsveita.

Líbería var upphaflega stofnuð sem nýlenda fyrir þræla frá Bandaríkjunum sem höfðu endurheimt frelsið. Ástæðan var meðal annars sú að talið var að frjálsir þrælar frá Afríku gætu haft slæm áhrif á þræla í Bandaríkjunum. Árið 1847, þegar um 20.000 þrælar höfðu verið fluttir til ríkisins, lýsti landið yfir sjálfstæði þótt tengslin við Bandaríkin hafi aldrei slitnað. Stjórn landsins var í höndum aðfluttra þræla meðan troðið var á réttindum þeirra sem búið höfðu í landinu.

Evan Lewin skrifaði grein í tímaritið The Atlantic árið 1922 þar sem hann færði rök fyrir því að Líbería væri að verða nýlenda bandaríkjanna þrátt fyrir sjálfstæði. Hann sagði jafnframt að Bandaríkjamenn ættu að tryggja réttindi innfæddra, meðal annars með því að kenna þeim nýja tækni í landbúnaði. Þannig mætti að koma í veg fyrir það að fjölmennir hópar störfuðu í þágu annarra í stað þess að framleiða vöru fyrir sjálfa sig. Undanfarna áratugi hefur eitt helsta vandamál margra afrískra ríkja verið þekkingarskortur. Lewin vakti athygli á hættunum sem af honum stafar fyrir 80 árum.

Árið 1926 veitti dekkjaframleiðandinn Firestone ríkinu 5 milljón dollara lán og fékk fyrir það afnot af gúmmíplantekrum í 99 ár. Fyrirtækið varð ráðandi afl í Líberíu en stuðningur þess við Líberíumenn ættaða frá Bandaríkjunum olli því að þeir héldu völdum í ríkinu fram á níunda áratuginn. Þessi hópur samanstóð af um fjórum prósentum þjóðarinnar sem þrátt fyrir svartan hörundslit hleyptu hinum 96 prósentunum ekki að stjórnun landsins.

Árið 1980 gerði hópur innfæddra manna undir forystu Samuels Doe árás á forsetahöll Williams Tolberts. Forsetin var skotinn, kviðristur og höfuð hans reist á stiku. 13 efnaðir menn úr stjórn landsins voru bundnir við staura í miðborg monroviu og þeir skotnir í höfuðið af stuttu færi. Þrátt fyrir að Doe og fylgismenn hans dræpu þúsundir landsmanna á næstu árum var lítið gert til að stöðva hann. Stjórn Ronalds Reagans var hrædd um að hann snéri sér að Moskvu enda Kalda stríðið að ná hápunkti og Líbería einn helsti stuðningsaðili Bandaríkjanna í Afríku. Í raun og veru gerði Doe lítið annað en að taka völdin frá hópi bandarískt ættaðra Líberíumanna og færa þau í hendur manna úr eigin ættbálki.

Charles Taylor notfærði sér þessa staðreynd þegar hann tók völdin með því að etja saman ólíkum ættbálkum. Taylor er afkomandi þrælanna sem komu frá Bandaríkjunum en hann hefur naut stuðnings Gia og Mano ættbálkanna. Hann hefur haldið áfram morðum og pyntingum og reynda hafa sögur um mannát og blóðdrykkju komist á flug að undanförnu. Líbería er vanþróað land þar sem hjátrú og ótti við galdra ræður ríkjum. Taylor gerir lítið til að hrekja þessar sögur enda hjálpa þær honum að halda völdum.

Það er ljóst að Líbería er sundrað land sem í áratugi hefur þolað blóðuga borgarastyrjöld. Eflaust mun taka langan tíma að koma landinu á rétta braut enda fjölmargir vopnaðir hópar tilbúnir að myrða og ræna sér til framfæris. Ómögulegt er að segja hversu margir hafa látist í átökunum, sumir segja um 200.000 af þriggja milljóna þjóð. Eina leiðin til að koma í veg fyrir frekari átök er að senda herlið til landsins.

Efnahagsbandalag Vestur-Afríkuríkja hefur þegar lýst því yfir að þau ætli að senda sveitir til landsins. Bandaríkin hafa sent sveitir af stað en óvíst er hversu mikil afskipti þau munu hafa af gangi mála. Taylor hefur sjálfur lýst því yfir að hann ætli í útlegð þótt ekki sé hægt að ganga frá því sem vissu að hann efni loforðið.

Mikið hefur verið rætt um afskipti utanaðkomandi aðila að innanlandsdeilum á síðustu árum. Skiptar skoðanir eru um ágæti þess og hefur Deiglan ekki farið varhluta af þeirri umræðu. Hins vegar er staða Líberíu svo slæm að flestir geta eflaust tekið undir nauðsyn þess að gripið sé inn í málin. Hvort það verður undir forystu Sameinuðu þjóðanna, Bandaríkjanna eða annarra Afríkuríkja ætti að vera algjört aukaatriði. Deilur um slíka smámuni munu aðeins valda dauða enn fleiri saklausra einstaklinga.

baldvin@deiglan.com'
Latest posts by Baldvin Þór Bergsson (see all)