Lengi lifi Linux

Tux LinuxLinux var upphaflega hugmynd Finna að nafni Linus Thorvalds, sem á öðru ári í tölvunarfræði bjó til nýtt stýrikerfi. Kerfið átti að vera stöðugt, ókeypis og opið fyrir alla. Í dag eru til meira en 130 útgáfur af Linux í ýmsum stærðum.

LinuxEftirfarandi skeyti sendi ungur nemi í tölvunarfræði á umræðukerfi árið 1991:

Hello everybody out there using minix –

I’m doing a (free) operating system (just a hobby, won’t be big and professional like gnu) for 386(486) AT clones. This has been brewing since april, and is starting to get ready.

Ungi neminn hét Linus Thorvalds og var 21 árs Finni, sem var á öðru ári í tölvunarfræði við finnskan háskóla. Kerfið, sem hafði verið að gerjast í nokkra mánuði, var stýrikerfið sem við í dag þekkjum sem Linux.

Á þessum tíma voru tvo kerfi ráðandi á markaðnum. Annars vegar var um að ræða DOS frá Microsoft, ætlað fyrir einmenningstölvur, og hins vegar Unix sem var fyrst og fremst notað á stórtölvur. Linus vildi gera kerfi sem hefði kosti Unix kerfisins, en væri fyrir einmenningstölvur og öllum opið. Minix kerfið sem hann nefnir í upphafi var einmitt líkt kerfi, en var fyrst og fremst hannað til að kenna nemum uppbyggingu stýrikerfa. Það var þvi ekki góður grunnur til að byggja á, og auk þess kostnaðarsamur.

Á þessum tíma var útgáfa 0.01 að koma út. Eftir að Linus setti ofangreinda tilkynningu á netið, fóru hjólin að snúast fyrir stýrikerfi. Mikill áhugi var fyrir hendi og fljótlega voru hundruð eða þúsund sjálfboðaliðar komnir í lið með Linus, tilbúnir að leggja sitt af mörkum við gerð stýrikerfisins.

Linux kjarninn sem Linus þróaði (og er enn að þróa í dag) er einungis lítill hluti þess sem í daglegu tali er kallað Linux. Í dag eru yfir 130 aðilar sem hafa tekið að sér að búa til útgáfur af Linux. Þeir nýta sér Linux kjarnann, en bæta við hann þeim þáttum sem þeir telja að eigi að vera í góðu stýrikerfi, svo sem innsetningarhluti, gluggakerfi og ritlar, svo eitthvað sé nefnt. Útgáfurnar eru mjög mismunandi að stærð og gerð, allt frá því að passa á einn diskling og upp í að vera á 6 geisladiskum með þúsundum fylgiforrita.

Það að Linux skuli vera ókeypis er á sama tíma styrkur og veikleiki stýrikerfisins. Upphafsmenn Linux urðu ekki ríkir af því að gera kerfið, og sem dæmi vinnur Linus nú hjá örgjörvaframleiðandanum Transmeta í Bandaríkjunum. Þróun kjarnans hafði stöðvast í ár, þangað til hann tók sér frí frá vinnu fyrir stuttu til að blása nýju lífi í útgáfu Linux. Stærsti hluti vinnu við Linux er unnin í sjálfboðavinnu og flest fyrirtækin sem eru að dreifa Linux eru lítil, samanborið við hugbúnaðarrisana. Stór fyrirtæki hafa því ekki treyst á Linux sem sitt aðalstýrikerfi, þrátt fyrir að hafa treyst því fyrir bakvinnslu, eins og því að vera netþjónar.

Linux hefur heldur aldrei náð neinu flugi á Vesturlöndum á markaði fyrir borðtölvur. Uppsetning á Linux vélum krefst nokkurrar þekkingar, meiri en við uppsetningu á Windows. Að uppsetningu lokinni þarf oft nokkra þekkingu og vinnu við að finna þau forrit sem viðkomandi notar mest, þótt sambærileg forrit og í PC finnist oftast. Linux hefur því oftast farið í notkun hjá fyrirtækjum og stofnunum með sérstakt hlutverk. Nefna má sem dæmi að Linux hefur verið notað í flókna útreikninga, þar sem tengja þarf saman margar tölvur, hjá forriturum og til kennslu.

Áhugamannahópur hefur þýtt á eigin spýtur gluggakerfi (KDE) fyrir Linux yfir á íslensku. Hefur þessi hópur haldið við þeim útgáfum sem hafa komið út, og ekki hefur verið vandamál þótt nýjar útgáfur af Linux hafi komið út. Hefur jafnan verið hægt að nálgast þessar þýðingar annað hvort á netinu eða þeim hefur verið dreift með Linux. Árið 1998 var ráðist í þýðingu á Windows98 stýrikerfinu yfir á íslensku, en kerfið var læst, þannig að semja þurfti um það sérstaklega við Microsoft. Þýðingin tók nokkurn tíma og þegar útgáfan kom út voru örfáir dagar í útgáfu Windows 2000, þannig að íslenska útgáfan náði aldrei almennilegri dreifingu. Talið var að það yrði 10 sinnum dýrara að þýða næstu útgáfur yfir á íslensku og því var ekki ráðist í það verkefni.

Linux hefur víða náð að festa sig í sessi þar sem ókeypis stýrikerfi skipta máli og má þar nefna í ýmsum tæknbúnaði og einmenningstölvum í fátækari löndum. Hins vegar er framtíð Linux er nokkuð óljós. Því þó líklega verði alltaf rúm fyrir ókeypis stýrikerfi, er hins vegar er spurning hvort almennir tölvunotendur muni nokkur tíma mæta TUX (Linux mörgæsinni) þegar kveikt er á tölvunni í stað Windows merkisins.

Latest posts by Tómas Hafliðason (see all)

Tómas Hafliðason skrifar

Höfundur hefur skrifað á Deigluna frá árinu 2002. Höfundur er verkfræðingur frá Háskóla Íslands og rekur eigið fyrirtæki.