Níðingar á netinu

Tækninni fleygir stöðugt fram og yngsta kynslóðin á gott með að tileinka sér það allra nýjasta. Samhliða færist í vöxt að börn séu lokkuð á fundi misyndismanna með hjálp nýjustu tækni. Erum við ráðalaus gagnvart þessari ógn eða er hægt að beita gömlum húsráðum á óværuna?

Mál Shevaun Pennington og Toby Studabaker hefur vakið mikla athygli í fjölmiðlum um allan heim síðustu daga. Þau höfðu átt í samskiptum í gegnum internetið í u.þ.b. ár áður en Studabaker flaug frá Bandaríkjunum til að hitta hana, en hann hafði nokkrum dögum áður lokið þriggja ára herþjónustu. Þau flugu svo saman til Parísar, hann 31 árs og hún 12 ára og voru saman í fimm daga áður en þau fundust í Þýskalandi.

Þetta mál hefur enn magnað upp umræðu um hvernig barnaníðingar nota tæknina í síauknum mæli til að nálgast börn. Í tilviki Pennington og Studabaker hittust þau fyrst á spjallrás á netinu. Áður vöruðu foreldrar börnin við að tala við ókunnuga úti á götu, núna verður að vara þau við að tala við ókunnuga í gegnum tölvuna heima hjá sér, á spjallsíðum sem að hluta til eru til þess gerðar að tala við ókunnuga.

Nokkuð hefur einnig borið á að ofbeldismenn noti símtæknina til að nálgast börnin. Dæmdur barnaníðingur í Bretlandi gaf einu fórnarlamba sinna t.a.m. fyrirframgreidd símakort svo þau gætu verið í sms sambandi. Þeir hafa einnig fengið börn til að senda myndir af sér í gegn um myndsíma og sí-nettengdir farsímar hafa einnig valdið áhyggjum meðal þeirra sem berjast gegn glæpum af þessum toga.

Í Bandaríkjunum hefur það færst í vöxt að lögreglan stundi reglubundið eftirlit á spjallsíðum fyrir börn og til að skrá sig á sumar spjallsíður þarf að framvísa staðfestingu á aldri frá viðkomandi skólum. Hér hefur umræða af þessum toga ekki verið veruleg, þótt hún hafi tekið við sér síðustu vikur.

Nýlega voru birtar niðurstöður úr viðamikilli könnun sem gerð var m.a. til að kanna netnotkun barna og hvað foreldrar vissu um netnotkun barna sinna. Þar kom í ljós að foreldrar höfðu nokkuð óljósa hugmynd um hvað börn þeirra aðhöfðust á netinu. Í könnuninni kom fram að um tveir þriðju hlutar íslenskra barna nota spjallrásir og af þeim hefur 41% þeirra verið boðið á fund ókunnugs viðmælanda og 21% hefur þekkst boðið. Að öllum líkindum eiga börnin meginþorra þessara funda við jafnaldra, en niðurstöðurnar gefa fulla ástæðu til ígrundunar.

Þótt vissulega sé mikilvægt að yfirvöld séu meðvituð um hætturnar og beiti sér til að fækka þeim og vernda börnin er alltaf hætta á að þau fari offari. Flestir muna t.d. eftir því fyrir nokkrum árum að 6 ára gömlum dreng var vísað úr skóla vegna kynferðislegrar áreitni þegar hann kyssti bekkjarsystur sína á kinnina. Eins eru lög sem eiga að taka á þessum málum í Bretlandi nokkuð umdeild því samkvæmt ströngustu túlkun þeirra er aðilum undir 16 ára aldri bannað að kyssast og snertast á almannafæri og getur refsing numið allt að 5 ára fangelsi.

Besta forvörnin er því gott uppeldi og góð samskipti foreldra og barna. Það verður seint komist hjá því að illþýði eigi einhver ráð til að komast nærri börnunum, hvort sem það er á netinu eða annars staðar. Upplýst umræða og skynsemi eru því oftast vænlegri til árangurs en boð og bönn í þessum efnum sem öðrum.

Latest posts by Brynjólfur Ægir Sævarsson (see all)