Auðsært þjóðarstolt

StrokkurAuðsært þjóðarstolt Íslendinga er ekkert einsdæmi. Hver einasta þjóð hefur viðkvæma sjálfsímynd sem hún reynir að vernda og hlúa að. Viðbrögðin þegar að henni er vegið eru misjafnlega sterk eftir því hve viðkvæmt málefnið er.

StrokkurSpurningin „How do you like Iceland, is it not a niceland?“ heyrist oft og tíðum þessa dagana. Tækifærin eru mörg núna yfir háannatíma sumarsins að hitta áhugasama ferðamenn. Þeir eru í flestum tilfellum sérvitringar utan úr heimi, hingað komnir til að upplifa framandi stað. Þeir fá margir Íslandsbakteríuna en einkenni hennar er mikil aðdáun á landi og þjóð. Þessir einstaklingar svala þörf okkar á að heyra hve frábær við erum. Það er sannarlega mikil þörf á skjalli enda er ekki svo langt síðan þjóðin reis upp á afturlappirnar, flutti úr torfkofum í nútíma lífshætti, braust undan oki Dana og býr nú í stærri og glæsilegri híbýlum en nágrannaþjóðir okkar. Það er á þennan hátt sem minnimáttarkenndin brýst út í landanum, enda þekkja flestir stutta og hraða framfarasögu þjóðarinnar og þyrstir í að heyra hve vel hefur tekist til við að koma Íslandi í hóp þeirra fremstu í heiminum.

Auðsært þjóðarstolt Íslendinga er ekkert einsdæmi. Hver einasta þjóð hefur viðkvæma sjálfsímynd sem hún reynir að vernda og hlúa að. Viðbrögðin þegar að henni er vegið eru misjafnlega sterk eftir því hve viðkvæmt málefnið er. Íslendingar hefja íslensku snótina og sauðkindina upp til skýjana og benda á kosti þeirra beggja. Þær eru báðar framúrskarandi fagrar og hafa fengið viðurkenningu á alþjóða vísu fyrir ótrúleg gæði. Það er því reiðarslag fyrir marga þegar birtar eru greinar í erlendum blöðum um lauslæti stúlkna hér á landi. „Get lucky in Iceland“ er slagorð fyrirtækis í dag sem stílar inn á nýjan hóp ferðamanna sem er ginkeyptur fyrir ferskri útgáfu af fjallkonunni. Í auglýsingum þess er hún ekki lengur klædd í þjóðbúning á Austurvelli með fegurstu ljóð á vörum, heldur efnislítil föt inni á skemmtistað með gloss. Þetta er áfall fyrir marga og ekki sú ímynd sem við viljum.

Ímynd þjóðar skiptir miklu máli og þegar kemur að ferðamannaiðnaði er hún mjög mikilvæg. Nú er svo komið að víða eru lönd farin að markaðssetja sig líkt og hverja aðra vöru. Gengið er hreint til verks með skýrt markmið í huga: Selja vöruna. Ímyndin er viðkvæm og stoltið er auðsært. Nokur dæmi hafa komið upp undanfarið þar sem vegið er að þjóðarstoltinu. Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu móðgaði Martin Schulz, þýskan þingmann Evrópuþingsins þegar hann minnti hann á óþægilega fortíð Þýskalands, og sagði hann vera fullkominn í hlutverk fangavarðar útrýmingabúða nasista. Viðbrögð Þjóðverja voru mikil og þeir hótuðu að sniðganga Ítalíu í sumarleyfum sínum.

Færeyingar fengu skell á sig í fyrradag þegar þeir voru notaðir sem dæmi um það hvernig kvikasilfur í líkamanum getur valdið sálrænu tjóni og æst upp árásarhneigð manna. Málinu til stuðnings var myndbandsupptaka af grindhvaladrápi þeirra sýnd og vakti þetta heimsathygli. Spennandi verður að sjá hvernig Færeyingar muni bregðast við þessu.

Það er ljóst að Íslendingar eru ekki þeir einu sem glíma við viðkvæmt egó. Tíminn mun leiða það í ljós hvernig ímynd íslensku snótarinnar verður í framtíðinni. Fyrirtæki hér á landi munu eflaust þreytast á að markaðssetja hana til að laða að graða karla í leit að auðveldum stúlkum. Eitt er víst að ímynd þjóðarinnar er viðkvæm og þjóðarstoltið auðsært.

jarthrudur@deiglan.com'
Latest posts by Jarþrúður Ásmundsdóttir (see all)