Slaka á!

Á degi hverjum stofna fjölmargir Íslendingar sér og öðrum í hættu með of hröðum akstri. Vandinn liggur ekki aðeins í stórkostlegu ofmati fólks á eigin ökufærni heldur einnig í viðhorfi til hraðasksturs innan þjóðfélagsins. Nú þegar sjálfsagt þykir að keyra edrú og með beltinn spennt eru margir enn á þeirri skoðun að hraðakstur sé léttvægt brot, ef brot skyldi kalla.

Á baksíðu Morgunblaðins í gær (sunnudag) mátti finna athyglisverða frétt um upplýsingavef Vegagerðarinnar. Meðal nýjunga á þeim vef er síða með upplýsingum um hraða og bil milli bifreiða á nokkrum af helstu þjóðvegum landsins. Hana má skoða hér.

Það verður seint sagt að það sem fram kemur á þeirri síðu sé sláandi, því það kemur varla á óvart að stór hluti landsmanna keyri of hratt. Það sem er helst forvitnilegt er hversu mikið er um hraðakstur á leiðinni norður en í Hrútafirði, Öxnadal og Langadal er næstum því helmingur ökumanna á 100 km. hraða, eða meira.

Eflaust finnst flestum ökumönnum það ekki mikill glæpur að stíga svolítið á bensíngjöfina þegar færið er gott og fáir á veginum. „Varla getur það gert mikið skaða að gefa svolítið í þegar maður er einn á veginum í góðu veðri“, hugsa margir. En tölfræðin og eðlisfræðin eru miskunnarlaus gagnvart slíkum hugsunarhætti. Hemlunarvegalengdin vex nokkurn veginn eins og hraðinn í öðru veldi. Þetta þýðir að þegar hraði bílsins tvöfaldast, fjórfaldast hemlunarvegalengin. Bíll sem er á 120 km hraða á klst. hemlar þannig rúmlega tvöfalt lengri leið en bíll á 85 km hraða. Öll ökutækni bílstjórans er til einskis þegar lögmál eðlisfræðinnar vinna gegn honum.

Þó að ég hafi frekar harða skoðun á of hröðum akstri get ég vel ímyndað hvað fólki gengur til. Það er ekki skrýtið að fólk sem þarf að keyra sama spölinn mörgum sinnum á ári, eða viku, auki aðeins hraðann til að spara sér korter. Kannski gerir það þetta jafnvel ómeðvitað. Hægt er að hafa samúð með slíkum tilfinningum þó það minnki ekki ábyrgð þeirra sem keyra of hratt.

Til eru vegir í heiminum henta vel til þess að á þeim sé ekið yfir hundrað. Slíka vegi er hins vegar ekki að finna á Íslandi. Eftir tvöföldun Reykjanesbrautar verður kominn vegur, utan byggða, með bundnu slitlagi og aðskildum umferðastefnum. Það kæmi vel til greina að auka hámarkshraðann á slíkum veg, við bestu aðstæður. Hins vegar er akstur á 120 km hraða á veg þar sem 50 cm aðskilja bíla sem koma úr sitt hvorri áttinni algjör vitfirring. Ekkert ríki í Evrópu leyfir slíkt þótt í flestum þeirra séu bæði betri vegir og hagstæðara veðurfar en á Íslandi.

En það er ekki aðeins viðhorf einstaka bílstjóra sem ofreikna stórlega eigin aksturshæfni sem skapar hraðakstursvandann. Viðhorf almennings til hraðaksturs er einnig vægast sagt afslappað. Ímyndum okkur t.d. að við séum farþegar í bíl þar sem bílstjórinn situr óspenntur í sæti sínu og drekkur bjór. Eflaust mundu flest okkar gera athugasemd við slíka hegðun, sér í lagi ef bílstjórinn væri jafningi okkar. En mundi einhver áminna ökumann sem keyrði á 105 km hraða eftir þjóðveginum í góðu veðri? Mundi einhver biðja hann um að lækka hraðann um 15 km á klukkustund, niður í það sem löglegt er? Ég dreg það í efa. Eflaust væri slíkur farþegi álitinn „kelling“ og ummæli hans dæmd sem dónaleg afskiptasemi.

Að lokum kemur óneitanlega upp í hugann ein spurning: „Væri ekki auðveldara að takmarka hraðann í bílunum sjálfum fremur en að treysta á heiðarleika fólks?“ Eflaust eru ýmsir tæknilegir erfiðleikar við framkvæmd á þeirri hugmynd, s.s. mismunandi hámarkshraði milli landa. Ég vona þó að í framtíðinni muni bílaframleiðendur skoða þennan möguleika, t.d. í samvinnu við tryggingarfélög.

Enn sem komið er þá hafi bílaframleiðendur ekki gert sitt til að vinna gegn of hröðum akstri. Auglýsingar kynna bílana sem „kraftmikla“ og talan 220 mælaborðinu er nú síst til róa taugarnar á misvitrum hraðafíklum. Á sínum tíma voru bílaframleiðendur í Bandaríkjunum afar tregir til að setja belti í bíla sína. Ástæðan var sú að bílarnir áttu að vera tákn hins óhefta frelsis og það þótti slæm markaðsherferð að draga fram hætturnar sem fylgdu umferðinni. Frekar áttu menn að aka um frjálsir og deyja frjálsir.

Ætli 220 km hraðinn á mælaborðinu sé arfur frá þeirri tíð?

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.