Hreyfingarleysi

HreyfingarleysiVegna tæknivæðingar og þjóðfélagsbreytinga síðustu áratuga er hreyfing ekki lengur jafn sjálfsagður hluti af dagsins önn eins og áður var. Bíll, sími, tölva og sjónvarp fullnægja þörfum fólks og ástæðan fyrir hollri hreyfingu hverfur. Þjónusta hjá mörgum fyrirtækjum er slík að auðveldlega má komast af án þess að hreyfa sig sem eitt skref úr sófanum. Þetta er einmitt ástæðan fyrir þjóðarátaki sem Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands hefur staðið fyrir síðastliðið ár og kallað “Ísland á iði” með undirtitil “Baráttan við sófann”.

HreyfingarleysiVegna tæknivæðingar og þjóðfélagsbreytinga síðustu áratuga er hreyfing ekki lengur jafn sjálfsagður hluti af dagsins önn eins og áður var. Bíll, sími, tölva og sjónvarp fullnægja þörfum fólks og ástæðan fyrir hollri hreyfingu hverfur. Þjónusta hjá mörgum fyrirtækjum er slík að auðveldlega má komast af án þess að hreyfa sig sem eitt skref úr sófanum. Þetta er einmitt ástæðan fyrir þjóðarátaki sem Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands hefur staðið fyrir síðastliðið ár og kallað “Ísland á iði” með undirtitil “Baráttan við sófann”.

Umræðan um offitu er mikil og hafa nokkrir tekið þann pól í hæðina að segja að hver og einn verði að ráða sínu líferni og innri maður sé það sem skiptir máli. Auðvitað er það rétt, en heilsufarsvandamál eru ekki einkamál, þau skipta alla máli. Heilbrigðiskostnaður eykst með ári hverju og ekki minnkar hann ef fólk reynir ekki að halda í heilbrigðan líkama og sál.

Öllu má ofgera og bera glanstímarit í hillum bókabúða þess merki. Horrenglur og nánast sjúklingar prýða forsíður tískublaðanna sem eiga að vera fyrirmyndir ungs fólks. Slíkar ranghugmyndir um holdarfar hafa valdið því að sjálfsmynd margra óharðnaðra unglinga er í molum. Þeir telja að leiðin að lífshamingjunni sé að vera eins og klipptur út úr tímariti í rándýrum merkjafötum. Þetta er hin hliðin á heilsufarsumræðunni sem oft vill gleymast.

Nýlega var gerð könnun á vegum Landlæknisembættisins sem sýndi að 9 ára börn höfðu þyngst töluvert á örfáum árum. Ástæða þess er rakin til of mikillar neyslu sykurs og hreyfingarleysis. Krakkar í dag eru oft límd við tölvuskjá eða sjónvarp marga tíma á dag og fá þar með enga hreyfingu. Sífellt nart og gosdrykkja er að gera okkur Íslendinga of feita.

Frábært framtak sem hefur virkilega náð til yngri kynslóðarinnar er fyrirbærið “Latibær”. Leiksýningar og Hagkerfið Lató hafa slegið í gegn sem einmitt fjallar um það að snúa við blaðinu í neyslu og gera hana hollari. Lató hagkerfið gengur út á að börn á aldrinum 12 ára og yngri geta lagt pening inn á bankareikning og fá í staðinn gjaldmiðil Lató hagkerfisins, Lató seðla. Íslensku krónurnar liggja óhreyfðar í bankanum á meðan og safna vöxtum. Fyrir Lató seðlana geta krakkarnir síðan borgað fyrir vörur Lató Hagkerfisins, borgað í sund, Fjölskyldu- og Húsdýragarðinn og í strætó. Þetta hvetur krakka til þess að spara pening og um leið er stuðlað að heilbrigðu líferni.

Öðru sem hrint hefur verið í framkvæmd er átak grunnskóla í nestismálum nemenda. Skólayfirvöld hafa tekið upp á því í mörgum skólum að bjóða heitan mat í hádegishléum. Faglært fólk hefur umsjón með matseldinni og er lagt upp úr fjölbreyttu og hollu fæði. Einnig hefur svokölluðum drykkjarfontum verið komið upp víða í skólum með það markmið í huga að krakkar sækji sér frekar kalt vatn sér að kostnaðarlausu heldur en að fá sér gosdrykk eða svala. Með þessu móti má eflaust stuðla að hollara mataræði barna í skólanum.

Það sem er þó mikilvægast í þessu öllu saman er hlutverk fullorðinna í að vera fyrirmynd barna í hreyfingu og mataræði. Fylgjast með hvað börnin borði og stunda einhverja útivist með þeim. Vara sig á ódýrum skyndibitamat og óhóflegu sjónvarpsglápi, gera hreyfingu og heilbrigt líferni að lífstíl.

Latest posts by Ásta Sigríður Fjeldsted (see all)