Óheimilt eftir kl. 22

Hversu undarlegt er það að fá ekki að sitja í rólegheitum ÚTI eftir kl. 22:00 í miðbæ Reykjavíkur í veðursæld sem á sér einungis stað nokkrum sinnum á öld?

Í síðustu viku lenti ég í þeirri óskemmtilegu reynslu að vera áminnt fyrir að brjóta lög. Ég var við vinnu á kaffihúsi hér í bæ þegar óeinkennisklæddur lögreglumaður tók mig tali. Hann gerði mér grein fyrir því að ég hefði sem vaktstjóri staðarins brotið lög varðandi veitingu áfengis.

Þetta var á þriðjudagskvöldið, hitabylgjan mikla stóð yfir og ég hafði leyft prúðum viðskiptavinum okkar að sitja úti í blíðviðrinu fram eftir kvöldi. Ég sá ekki betur en að önnur kaffhús í grenndinni gerðu slíkt hið sama. Stemningin var gríðarleg í bænum, léttklæddir borgarbúar nutu veðursins og ekki var að sjá vín á nokkrum manni.

Hvað hafði ég brotið svo slæmt af mér að ákæru á hendur mér væri þörf? Jú – tvær kappklæddar lögreglukonur sem komu rétt fyrir lokun til að taka skýrslu greindu mér frá því að ekki mætti veita drykkjarföng ÚT eftir kl. 22:00. Þegar ég spurðist fyrir um hvar þessar upplýsingar væru að finna varð fátt um svör. „Þú getur prófað að hringja í lögregluembættið og spyrjast fyrir um þar”. Fannst þetta skemmtilega óundirbúið svar. Til að verjast hlátri spurði ég hvað þetta mál hefði í för með sér. „Þú færð áskorun í fyrstu… “, „ehh áminningu” leiðrétti hin. „En ef þetta gerist EINU SINNI ENN missiru leyfið!” Noh! Ég sagðist að sjálfsögðu ekki ætla að endurtaka leikinn og bauð góða nótt.

Hversu undarlegt er það að fá ekki að sitja í rólegheitum ÚTI á virkum degi eftir kl. 22:00 í miðbæ Reykjavíkur í veðursæld sem á sér einungis stað nokkrum sinnum á öld? Fólk sat í makindum sínum, ekki nokkur fyrirferð í því né hávaði. Loksins þegar Íslendingar fá tækifæri til að hafa það huggulegt og njóta lífsins á fallegu sumarkvöldi þá er þeim hent inn af löggæslumönnum því lögin í landinu leyfa ekki slíkt.

Ég held að þessum lögreglumönnum væri nær að koma þegar rónar með öskur og læti hertaka Austurvöll eða þegar ógæfufólk skilur eftir sig útötuð salerni með sprautunálar í ruslinu! Svörin sem ég hef fengið frá lögreglunni að undanförnu er að rónarnir eigi sér ákveðinn rétt – þá sé einfaldlega ekki hægt að fjarlægja. En því þá að gera illt verra og skipa sómasömum kaffihúsagestum að hypja sig inn? Ég sé einfaldlega ekki að það sé efni til ákæru að fólk stitji við borð og stól með veigar í glasi þegar rallhálfir útigangsmenn sitja á bekkjum borgarinnar með áfengisflöskur án nokkurra afskipta.

Af hverju er þessi óskaplega stífni hér á landi varðandi áfengi? Erlendir gestir hrista hausinn yfir þessum einstöku verslunum merktum ÁTVR og furða sig á að matvöruverslanir skuli ekki selja léttvín og bjór. Ég skora á yfirvöld að endurskoða þessa þætti áfengislaga. Ég tel að við Íslendingar séum orðin nógu „dönnuð” þjóð til að geta umgengist áfengi á sama hátt og flestar aðrar þjóðir.

Latest posts by Ásta Sigríður Fjeldsted (see all)