Sérhlífnu stríðshetjurnar

Þjóðernisátökin í Makedóníu og afstaða NATO til þeirra er nokkuð áhugaverð. Uppreisnaröflin eru hvött til þess að gefa frá sér vopnin til þess að sérhlífnu NATO stríðshetjurnar þurfi nú ekki að fara út í annað Kosovo stríð.

Undanfarna mánuði hafa þjóðernisátök brotist út í norðurhluta Makedóníu. Hlutaðeigendur í deilunni eru yfirvöld í Makedóníu og skæruliðahópur sem kallaður er upp á ensku National Liberation Army eða NLA. Deilurnar snúast um réttindi albanska minnihlutans í Makedóníu. NLA hefur bækistöðvar sínar í Kósóvó-héraði og fékk nokkur hluti liðsmanna samtakanna þjálfun sína með KLA (Kosovo Liberation Army). Ásakanir KLA á hendur Serbum á sínum tíma voru til að byrja með fyrst og fremst um misbeitingu lögregluvalds o.þ.h. Fjöldamorð Serba á Albönum áttu sér stað síðar. Nú sakar NLA Makedóníumenn um nákvæmlega sömu hlutina en alþjóðasamfélagið tekur í þetta skiptið ekki undir með Albönum heldur hefur NATÓ fordæmt aðgerðir uppreisnarhersins.

Í aðdraganda loftárásanna á Júgóslavíu hafði NATÓ hins vegar tekið einarða afstöðu með KLA en var ekki tilbúið til þess að framfylgja friðarsamkomulaginu með vopnavaldi á jörðu niðri. Afleiðingar aðgerðarleysis NATÓ voru eins og kunnugt er 99 daga loftárásir. Sú hernaðaraðgerð markaði í raun tímamót þar sem endanleg staðfesting fékkst á því að helsta markmið hernaðaraðgerða Vesturlanda er að forðast mannfall í eigin röðum. Í því augnamiði voru loftárásir stundaðar úr 15 þúsund feta hæð, en það hafði þann ókost í för með sér að NATÓ gat ekki staðið í stríðsrekstri í vondu veðri og hin mikla flughæð olli verulegri ónákvæmni í skotárásum og mannfalli meðal saklausra borgara. Þannig varð til ný tegund af stríðshetju – hin sérhlífna stríðshetja.

Hin sérhlífna stríðshetja kemst aldrei í tæri við andstæðinginn, horfist aldrei í augu við hann. Í stað þess að þúsundir stríðshetja fórni sér fyrir fyrir öryggi óbreyttra borgara er þúsundum óbreyttra borgara fórnað fyrir öryggi hinnar sérhlífnu stríðshetju, sem þó stundar engan hetjuskap nema þegar veðrið er þolanlegt.

Nú er NATÓ búið að senda 3.500 hermenn til Makedóníu til þess að þjóna sem eins konar vopnasöfnunargámar. Tilgangur þeirra í Makedóníu er ekki að sjá til þess að stríðandi aðilar afvopnist, ekki að stilla til friðar, ekki að framfylgja friðarsamkomulagi heldur að taka við vopnum sem hermenn NLA láta af hendi af fúsum og frjálsum vilja. Vandinn við þessa “hernaðaraðgerð”, eins og svo margar sem alþjóðleg herlið hafa farið út í á síðustu árum, er að ekki er búið að skilgreina hvernig ákvarða beri hvort aðgerðin hafi heppnast. Makedóníumenn telja að uppreisnarmennirnir hafi um 60 þúsund vopn undir höndum en sjálfir segjast þeir hafa um tvö þúsund stykki.

Hinar sérhlífnu stríðshetjur munu semsagt ganga um vígvellina á landamærum Makedóníu og Júgóslavíu og bíða eftir að yfirveguð ljúfmenni, eins og þeir á myndinni hér að ofan, afhendi vopn sín sjálfviljugir (en eins og sjá má á svipbrigðunum þá var þessi mynd einmitt tekin þegar þessir félagar leituðu dauðaleit að leið til þess að losna við byssurnar sínar). Eftir þrjátíu daga fara þær svo heim til sín og vona að það besta.

NATÓ er einhver mikilvægasta öryggisstofnun heims og því er það ekki bara sorglegt heldur beinlínis hættulegt að orðspori hennar skuli vera stefnt í voða með ómarkvissum og fálmkenndum hernaðaraðgerðum – eins konar tölvuleikjastríðum – þar sem árangur er ekki skýrt skilgreindur og raunveruleg gagnsemi er allnokkrum vafa undirorpinn. Þegar NATÓ blandar sér í stríðsátök þá verður það að túlkast sem trygging fyrir friði og NATÓ verður að einsetja sér að kosta því til sem þarf – því málstaður sem er þess virði að drepa fyrir hlýtur að vera þess virði að deyja fyrir.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.