Svarta gullið II

Versta martröð Vesturlanda eftir seinni heimstyrjöldina var langþráður draumur margra Araba um stórt sameinað múslimaríki. Ef slíkt ríki hefði orðið að veruleika hefði það hæglega getað skorið á lífæð Vesturlanda, olíuna.

Seinni grein af tveimur um mikilvægi olíu fyrir hinn vestræna heim. Sjá fyrri grein

Versta martröð Vesturlanda eftir seinni heimstyrjöldina var langþráður draumur margra Araba um stórt sameinað múslimaríki. Ef slíkt ríki hefði orðið að veruleika hefði það hæglega getað skorið á lífæð Vesturlanda í mótmælaskyni við „It is either us or they”-stefnuna. Til að hindra tilurð slíks ríkis og til að tryggja lágt olíuverð skiptu Bretar Mið-Austurlöndum upp í mörg veik ríki og drógu landamæri þvert á þjóðir og menningu. Ísraelum var gefið landssvæði í Palestínu og veitt skotleyfi á nágranna sína, Írak var myndað sem mótvægi við Íran og hafnarborgin Kúvæt gerð að sjálfstæðu ríki, svo fátt eitt sé nefnt. Þannig tókst Bretum að skapa sundrungu og ójafnvægi í heimshlutanum og tryggja sér ódýra olíu. Ekki er hægt að segja annað en að framsýni þeirra og skipulagsgáfur í þessum efnum séu „aðdáunarverðar”. Með því að gera Kúvæt að sjálfstæðu ríki í stað þess að hafa það sem hluta af Írak hefur þeim tekist meðvitað og ómeðvitað að spilla OPEC verðsamráðinu í seinni tíð.

Smáríkið Kúvæt ræður yfir 8% af auðvinnanlegri olíu heimsins sem skilar landinu gífurlegum tekjum á móti litlum þjónustukostnaði við tvær milljónir íbúa þess. Bretar hafa tryggt að allur umframhagnaður ríkisins sé fjárfestur í gegnum fjárfestingaskrifstofu Kúvæt í London. Þannig hefur Breskt efnahagslíf notið góðs af olíuarðinum og Kúvætar eiga nú orðið gífurlegra hagsmuna að gæta á vestrænum fjármálamörkuðum – og í því liggur framsýni Breta. Arður Kúvæta af olíuframleiðslu er nefnilega minni en arður þeirra af erlendum fjárfestingum. Kúvætar spyrna þvi gegn of háu olíuverði innan OPEC því of hátt olíuverð leiðir til minni hagvaxtar á Vesturlöndum og þ.a.l. minni arðs af vestrænum hlutabréfum. Kúvætar hafa því verið talsmenn þess innan OPEC að olíverð sé stöðugt svo jafnvægi skapist á milli fjármagns- og olíutekna þeirra. Þessi stefna þeirra hefur að sjálfsögðu mætt mikilli andstöðu innan OPEC og Kúvætar hafa þar verið ákveðnir vandræðagemlingar. Á meðan Írakar voru uppteknir í stríði sínu við Írana dældu Kúvætar mun meiru upp úr sameiginlegum olíulindum Íraka og Kúvæta en samið var um og héldu þannig olíuverði niðri ásamt því að stela olíu frá Írak. Þetta var ein af meginástæðum fyrir því að Írakar réðust inn í Kúvæt.

Það er erfitt að gera sér fyllilega grein fyrir áhrifum sundrungarstefnunnar á daglegt líf íbúa Mið-Austurlanda. Hitt er þó líklegt að ef ekki hefði komið til hennar hefði olíuverð án efa verið stöðugra og hærra á Vesturlöndum í gegnum tíðina og velmegun Mið-Austurlandabúa e.t.v. meiri. Enda réttlætir OPEC verðsamráð sitt með vísun í það að allar aðildarþjóðir samtakanna séu þróunarlönd. Það er auðvelt að leiða rökum að því að þessar þjóðir séu þróunarlönd vegna arðráns Vesturlanda á auðæfum þeirra á síðustu öld.

Til að setja sig inn í aðstöðu Mið-Austurlanda má til gamans hugsa sér Bandaríkjamenn skipta Íslandi upp í tvö ríki eftir seinna stríð. Vestfjarðakjálkanum hefði t.d. verið gefið sjálfstæði frá landinu og honum veitt fiskveiðilögsaga yfir vestanverðu Íslandi, gjöfulustu fiskimiðum Norður-Atlantshafsins. Þetta hefðu Bandaríkjamenn gert til að tryggja sjálfum sér ódýran fisk og í staðinn tryggðu þeir Vestfjarðakjálkaríkinu hernaðaraðstoð. Kjálkaríkið hefði þá frá stríðslokum fengið meirihluta af útflutningstekjum landsins fyrir þá fáu íbúa er þar búa. Meginþorri íslensku þjóðarinnar væri þá sjálfsagt ennþá bláfátæk landbúnaðarstétt á móti fámennri og ríkri útgerðarstétt á Vestfjörðum. Gefum okkur enn frekar að stjórnendur Kjálkaríkisins veiddu í sífellu meira og meira af sameiginlegum fiskistofnum en samþykktir ríkjanna kvæðu á um; hefðu hertekið stóra hluta af Húnavatns- og Dalasýslu og rekið íbúa svæðisins í flóttamannabúðir í Skagafirði og Borgarfirði. Ef þetta hefði nú verið raunin væri sjálfsagt margur Íslendingurinn með blóðugar hendur og lífið snerist ekki um að koma ár sinni fyrir borð heldur í hausinn á Vestfirðingum.

Latest posts by Davíð Guðjónsson (see all)