Áfram Ólafur

Deiglan fjallar um nýjasta útspil Ólafs Arnar Haraldssonar, alþingismanns.

Það er komið á hreint! Hinir fjölmörgu stuðningsmenn og aðdáendur Ólafs Arnar Haraldssonar geta andað léttar því hann lýsti því yfir síðasta laugardag að hann gæfi kost á sér í 1. sæti Framsóknarflokksins í norður-kjördæmi Reykjavíkur við kosningar til Alþingis, 2003. Það er ekki nema von að fylgismenn hans hafi verið orðnir órólegir þar sem kjörtímabilið var rúmlega hálfnað og ekkert hafði heyrst í þingmanninum.

Ólafur lýsti þessu ófremdarástandi þannig á baksíðu DV á laugardaginn: “Mínir stuðningsmenn hafa verið að spyrja mig um fyrirætlanir mínar í framboðsmálum og mér finnst sjálfsagt að svara þeim með skýrum hætti þannig að þeir vissu hvernig málin standa”.

Engu að síður þá hlýtur framboðsyfirlýsingin að hafa komið öðrum en hörðustu stuðningsmönnum Ólafs innan framsóknar á óvart. Framsóknarflokkurinn er að einbeita sér við að halda sínum hlut í valdabandalaginu í R-listanum þegar Ólafur Örn Haraldsson gengur fram fyrir skjöldu og boðar framboð í kosningum sem fara fram ári eftir sveitastjórnarkosningar. Í raun hefur enginn Framsóknarmaður lýst yfir framboði í sveitastjórnarkosningum í Reykjavík, hvað þá í þingkosningunum sjálfum.

Ólafur er brautryðjandi í stjórnmálum. Um síðustu helgi byrjaði hann framboðsslag 20 mánuðum fyrir kosningar. Ekki einu sinni í Bandaríkjunum eru menn byrjaðir svo snemma. Ólafur hlýtur að telja þetta vænlegt til árangurs enda myndi enginn heilvita maður leggja í 20 mánaða kosningabaráttu við hann.

Flytji Halldór Ásgrímsson framboð sitt yfir til Reykjavíkur þá lítur allt út fyrir að höfuðandstæðingur Ólafs verði Jónína Bjartmarz. Deiglan hefur birt greinar um þau bæði og gagnrýnt Ólaf fyrir bruðl með almannafé en Jónínu fyrir árásir hennar á tjáningarfrelsi. Af tvennu illu þá verður Ólafur að teljast vera skárri kostur því þrátt fyrir ýmis gæluverkefni og takmarkaða virðingu fyrir almannafé þá hefur hann látið mannréttindi borgaranna í friði. Undirritaður sér því ástæðu til að óska Ólafi góðs gengis í kosningabaráttunni.

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.