Hvalir eru svo krúttlegir

HvalveiðiskipAlþjóða hvalveiðiráðið samþykkti í gær ályktun gegn hvalveiðum í vísindaskyni. Ráðið var stofnað árið 1946 en hefur vikið verulega frá upphaflegu hlutverki sínu.

HvalveiðiskipAlþjóða hvalveiðiráðið samþykkti í gær ályktun gegn hvalveiðum í vísindaskyni. Ráðið var stofnað árið 1946 og á ensku útleggst meginmarkmið þess svona: „To provide for the proper conservation of whale stocks and thus make possible the orderly development of the whaling industry“.

Ályktunin gegn vísindaveiðum var lögð fram og samþykkt þegar umræða um vísindaveiðar Íslendinga fór fram. Þetta þykir vera nokkuð í andstöðu við upphaflegt markmið ráðsins um að viðhalda hvalastofnum og stuðla að skynsamlegri og skipulegri nýtingu þeirra.

Margar þjóðir innan ráðsins virðast hafa algjöra hvalfriðun á stefnuskránni. Í umræðu um tillögu sem kennd er við Berlín, en þar er fundur ráðsins haldinn að þessu sinni, sögðu fulltrúar Ástralíu að yrði tillagan samþykkt sýndi það að ráðið hefði hvalfriðun sem aðalmarkmið.

Svo fór að Berlínartillagan var samþykkt. Samkvæmt henni verður skipaður starfshópur eða nefnd sem mun fjalla um verndun allra hvalastofna. Verður þar tekið tillit til allra hugsanlegra þátta sem geta skaðað hvalastofni, bæði frá náttúrunnar hendi og af völdum manna.

Þessi afstaða innan ráðsins kemur fáum verulega á óvart, en kemur sér illa fyrir málstað íslensku sendinefndarinnar. Það er áhugavert að velta fyrir sér hvernig slíkur viðsnúningur verður á stefnu ráðsins. En það virðist fyrst og fremst vera vegna mikils þrýstings frá stórum dýraverndunarsamtökum á borð við World Wildlife Fund og Greenpeace, en þau ásamt nokkrum öðrum eru okkur kunn, þó ekki endilega af góðu.

Þótt ótrúlegt sé, virðast aðgerðir á borð við ættleiðingu hvala skila árangri. En samtök á borð við Greenpeace hafa úr ómældu fjármagni að spila og virðast eiga greiða leið að mörgum valdamiklum stjórnmálamönnum víða um heim. Þannig hefur öll skynsemi verið látin lönd og leið en í stað þess vilja sum ríki banna allar hvalveiðar, að því er virðist einungis verndunarinnar vegna.

Íslendingar þurfa því enn að hafa nokkuð fyrir því ef hvalveiðar eiga að verða að veruleika. Stríð við grænfriðunga gæti haft mjög neikvæð áhrif á útflutning frá landinu og ferðamannaiðnaðinn. Ávinningurinn gæti þó verið stærri fiskistofnar til lengri tíma og svo auðvitað viðurkenning á því að við höfum sjálf yfirráðarétt yfir auðlindum í lögsögu okkar.

Latest posts by Brynjólfur Ægir Sævarsson (see all)