Sænska velferðarkerfið

Gert við sænska velferðarkerfiðFinnar, sem hafa hægt og bítandi náð sér upp úr miklu atvinnuleysi og efnahagskreppu með mikilli framtakssemi og fyrirhyggju, segja stundum í hálfkæringi að sænska velferðarkerfið sé eins og dekkjalaus Volvo. Rosalega góður bíll, en virkar ekki.

Sænska velferðarkerfiðLengi hefur sænska velferðarkerfið verið fyrirmynd að velferðarkerfum annarra þjóða, ekki síst norðurlandaþjóðanna. Kerfið hefur þó látið undan síga á síðustu árum og af norðurlandaþjóðunum fimm (Noregi, Íslandi, Svíþjóð, Finnlandi og Danmörku) er almennt talið að Svíar séu nú fátækastir eftir niðursveiflu síðasta áratuginn.

Finnar, sem hafa hægt og bítandi náð sér upp úr miklu atvinnuleysi og efnahagskreppu með mikilli framtakssemi og fyrirhyggju, segja stundum í hálfkæringi að sænska velferðarkerfið sé eins og dekkjalaus Volvo. Rosalega góður bíll, en virkar ekki.

Norðurlandaþjóðirnar, og þar á meðal Ísland, hafa að miklu leyti byggt upp þjóðfélagsstrúktúr sem byggir á samkennd. Þeim sem minna mega sín skal hjálpað og reynt er eftir fremsta megni að sjá til þess að flestir þegnar landanna búi við mannsæmandi lífskjör. Í þeim tilgangi hafa ríkisstjórnir landanna markað stefnu sem miðast að því að halda úti ríkisreknu heilbrigðiskerfi og menntakerfi. Sjálfsagt og eðlilegt þykir að atvinnulausum séu greiddar háar atvinnuleysisbætur, foreldrar fái greitt fæðingarorlof og séð er til þess að hugsað sé vel um eftirlaunaþega.

Til að halda upp öflugu velferðarkerfi hafa Norðurlandaþjóðirnar slegið heimsmet í skattlagningu. Með aukinni samkeppni frá þjóðum sem ekki leggja slíkar álögur á þegna sína og, að því er virðist, óumflýjanlegu samstarfi við aðrar Evrópuþjóðir, hvort sem er í gegn um Evrópusambandið eða EES samninginn, eru háir skattar á undanhaldi. Jafnframt hefur það færst í vöxt að hálaunafólk á Norðurlöndunum og stór fyrirtæki leiti til annarra landa sem krefjast ekki eins hárra skatta.

Þorri kjósenda á Norðurlöndunum virðist vera sáttur við að borga slíka skatta til að viðhalda kerfinu. Til að það sé mögulegt verður þó nógu stór hluti fólks að vera vinnufær til að að leggja af mörkum til þeirra sem þurfa hjálp. Það er því nokkuð áhyggjuefni að vinnuafl norðurlandaþjóðanna eldist hratt og samkvæmt upplýsingum frá Evrópusambandinu er gert ráð fyrir því að árið 2050 verði um helmingur fólks á Norðurlöndunum komið á eftirlaunaaldur og að greiðslur til ellilífeyrisþega verði í sumum tilfellum 18% af heildarþjóðarframleiðslu.

Þessar breytingar hafa óhjákvæmilega í för með sér að norrænu velferðarkerfin þurfa að að aðlaga sig að breyttum tímum og verða sveigjanlegri. Þar sem Svíar hafa upplifað niðursveiflu í hagkerfinu hafa þessar breytingar gengið hraðar en á hinum Norðurlöndum. Þeir hafa í ríkari mæli horft til einkavæðingar t.d. heilbrigðiskerfinu með það fyrir augum að bæta rekstur þess og nýta þá fjármuni sem í það fara.

Heimurinn breytist hratt og með frjálsara flæði fjármagns, vinnuafls og hugmynda hafa hugmyndir okkar um veröldina breyst. Skil á milli landa og þjóðfélagshópa hafa dofnað og fólk samsvarar sér í auknum mæli með gildum eða hugmyndum sem eiga við um allan heiminn. Því hefur það færst í vöxt að fólk leiti til þeirra svæða sem hentar þeirra persónulega hag best. Þetta sýnir sig t.d. í miklum fjölda innflytjenda á Norðurlöndunum en þess má geta að rúmlega 11% Svía er af erlendu bergi brotin. Mjög mismunandi er hvernig þeir aðlagast norrænu þjóðfélagi og óhjákvæmilegt er að þeir eigi eftir að setja svip sinn á það. Hvort að þau áhrif eiga eftir að hafa áhrif á sænska velferðarkerfið skal ósagt látið en nauðsynlegt er að þó að gera ráð fyrir þessum breytingum í framtíðarþróun þess.

Óhætt er að segja að íslenska velferðarkerfið sé að miklu leyti byggt upp að fyrirmynd þess sænska. Við Íslendingar megum vera sáttir, ef ekki stoltir, af því öryggisneti sem við höfum komið okkur upp þó að vissulega megi stoppa í einstaka göt. En við verðum jafnframt að gera okkur grein fyrir því að til að viðhalda því er nauðsynlegt að gera ráð fyrir breyttum tímum. Vinna þarf að því að gera velferðarkerfið sveigjanlegra og liggur beinast við að nýta kosti einkaframtaksins til að ná því markmiði. Samkeppni um rekstur einstakra þátta t.d. heilbrigðiskerfisins gerir það að verkum að fjármunir eru betur nýttir og virkara aðhald er við rekstur þeirra. Ekki er átt við að nauðsynlegt sé að slíkur rekstur fari alfarið úr höndum ríkisins heldur væri það kaupandi að ákveðinni þjónustu og hefði eftirlit með því að hún uppfylldi kröfur þjóðfélagsins. Til þess að slíkt fyrirkomulag gangi upp verður þó jafnframt að hafa það hugfast að gulltryggja að þeir fái hjálp sem eru hjálpar þurfi.

Latest posts by Brynjólfur Stefánsson (see all)

Brynjólfur Stefánsson skrifar

Brynjólfur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.