Barátta á íslenskum sjónvarpsmarkaði

Ein versta auglýsingaherferð síðari tíma er söfnun Skjás 1. Skjár 1, bara stundum ókeypis.

Íslenskur fjölmiðlamarkaður hefur aldrei verið blómlegri og er það ekki síst að þakka Skjá Einum sem kom inn á sjónvarpsmarkaðinn fyrir tveimur árum. Helstu samkeppnisaðilar stöðvarinnar, Ríkisútvarpið og Stöð 2, hafa helst orðið varir við stöðina vegna minnkandi auglýsingatekna og hefur samdráttur verið áberandi á báðum stöðvum í haust. Nú er svo komið að ekki er ráðið í stöður sem losna á sjónvarpsstöðvunum þremur og vinnuálag hefur aukist jafnt og þétt í kjölfarið.

Stöð 2 ákvað að blása í herlúðra í tilefni af 15 ára afmæli sínu enda hafa tekjur stöðvarinnar vart verið minni og uppsafnaðar skuldir félagsins skipta nú milljörðum króna. Og jafnvel þótt Stöð 2 og Skjár Einn séu sameinaðar í baráttunni gegn nauðungaráskrift Ríkissjónvarpsins þá virðist baráttan hafa vaxið á milli frjálsu stöðvanna og er nýjasta útspil Skjásins gott dæmi um það.

Flestir hafa eflaust tekið eftir auglýsingum frá Skjá Einum þar sem landsmenn eru beðnir um að styrkja stöðina um 4.290 kr. en það er einmitt sama upphæð og mánaðarleg áskrift Stöðvar 2. Í fyrirsögninni segir að Skjárinn viti að það sé aumingjalegt að biðja áhorfendur um peninga, en þeir ætli nú samt að gera það í þetta eina skipti. Enginn vafi leikur á því að hér er um djarft útspil að ræða enda er þetta tilraun til að vekja athygli fólks á því hversu mikið það borgar til Stöðvar 2 á meðan að Skjárinn er ,,næstum því alltaf ókeypis”.

Það verður gaman að fylgjast með því hvernig almenningur í landinu mun bregðast við þessari beiðni stöðvarinnar. Þótt innlendum þáttum hafi fækkað í ár þá eru þeir mun vandaðari en síðasta vetur og margir vinsælir erlendir þættir eru sýndir á stöðinni. Á hinn bóginn þá er Skjárinn ekki með bíómyndir, en þær eru gríðarlega stór kostnaðarliður hjá Stöð 2. Líklega þurfum við ekki að bíða lengi eftir svari frá Stöð 2 og ljóst að hörð og skemmtileg barátta er framundan.

Það eina sem fer í taugarnar á mér við herferð Skjás Eins er það að þeir biðja fólk um að borga einungis þessa litlu upphæð svo áfram sé hægt að tryggja fólki ókeypis dagskrá. Ef til vill er ég svona skrítinn en ég lít svo á að um leið og þú hefur borgað ákveðna upphæð, hversu lág sem hún er, þá er hluturinn sem þú borgar fyrir ekki lengur ókeypis. Þess vegna legg ég til að Skjár Einn breyti setningunni og biðji fólk um að greiða þessa upphæð til að tryggja öllum þeim sem borga hana ekki ókeypis dagskrá, eða að þeir biðji fólk um að greiða 4.290 kr. til að hægt sé að tryggja fólki næstum því alltaf, næstum því ókeypis dagskrá.

Vonandi mun þessi markaðsherferð ekki draga úr ánægju fólks með stöðina því þrátt fyrir hana, sem að einhverju leyti er til að safna peningum en að mestu leyti til að vekja athygli fólks á því hversu dýrt er að vera áskrifandi að öðrum stöðvum, þá er Skjárinn langferskasta stöðin og við Íslendingar værum fátækari án hennar.

baldvin@deiglan.com'
Latest posts by Baldvin Þór Bergsson (see all)