Pabbi, eru góðir menn í þessari flugvél?

Þannig spyr þriggja ára snáði pabba sinn er þeir keyra austur Hringbraut og stráksi sér Fokker-vél frá Flugfélagi Íslands hefja sig til flugs úr Vatnsmýrinni.

Þannig spyr þriggja ára snáði pabba sinn er þeir keyra austur Hringbraut og stráksi sér Fokker-vél frá Flugfélagi Íslands hefja sig til flugs úr Vatnsmýrinni. Svarið er auðvitað afdráttarlaust já – en áleitnar hugsanir sækja strax á hugann: Getur maður vitað það fyrir víst? Á ég að segja stráknum að maður geti aldrei verið alveg viss? Að öðru hverju gerist það, að vondir menn séu um borð í flugvélum? Eða á maður kannski bara að plata – eins og foreldrum er jú skylt að gera á stundum – og segja að vondu kallarnir séu bara í sjónvarpinu?

Þessi spurning og vangavelturnar sem fylgdu í kjölfarið eru kannski einmitt kjarni þeirra áhrifa sem hryðjuverkin í Bandaríkjunum 11. september sl. munu hafa á hinn vestræna heim. Öryggisleysið er næstum yfirþyrmandi, og það jafnvel hér „…svo langt frá heimsins vígaslóð.“ Hryðjuverk munu verða framin í framtíðinni og þróun þeirra bendir ekki til annars en að þau verði sífellt mannskæðari og hryllilegri. Það er líklegra en ekki, að í náinni framtíð muni einhvers staðar í heiminum, að öllum líkindum í Bandaríkjunum, verða sprengd ein eða fleiri kjarnorkusprengjur í sama tilgangi og ódæðin voru framin í New York og Washington. Viljinn er fyrir hendi, það vitum við nú, og sagan segir okkur, að það sem hægt er að gera, verður gert.

Hugsanlega mun það takast með tíð og tíma að uppræta þá hópa sem eru helsta ógnin við öryggi borgara heimsins nú um stundir, en að öllum líkindum munu þá miklu fleiri hafa fallið í hryðjuverkum. En það er ekki stærsta verkefnið. Mesta raunin sem við stöndum frammi fyrir nú, er að halda áfram að lifa lífinu á okkar eigin forsendum. Það markmið hryðjuverkamannanna að eyðileggja okkar opna og frjálsa samfélag má ekki takast. Hinn raunverulegi sigur felst ekki í því að fangelsa eða drepa hina seku, heldur í því að sigrast á þeim ótta sem aðgerðum þeirra er ætlað að vekja innra með okkur sjálfum.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.