Metnaðarleysi

Íslenska landsliðið endaði undankeppnina fyrir HM með ömurlegum hætti. Tap gegn N-Írum og ömurlegt tap gegn Dönum voru mikil vonbrigði fyrir íslenska knattspyrnumenn.

Frá Parken í KaupmannahöfnÞað var vægast sagt ömurlegt að fylgjast með landsleik Íslands og Danmerkur í gær. Ekki er langt síðan þjóðin fagnaði glæstum sigri Tékkum en niðurlægingin sem í kjölfarið hefur fylgt er vafalaust þeirri upphafningu miklum mun yfirsterkari. Nauðsynlegt er að velta því fyrir sér hverjar séu ástæður þessara vatnaskila í leik landsliðsins.

Fyrir nokkrum árum var viðtal við þáverandi landsliðsþjálfara Íslands, Guðjón Þórðarson, í sjónvarpi. Þar sagði hann m.a. að það væri óraunhæft að gera ráð fyrir að Ísland skipaði sér í hóp allra fremstu knattspyrnuþjóða heims. Hann sagði hins vegar að markmið sitt væri að koma liðinu í þannig horf að þegar þjálfarar annarra landsliða sæju að lið þeirra lenti í sama riðli og Ísland þá segðu þeir: „Ó nei. Ekki Ísland.“ Markmið Guðjóns var því að breyta þeirri ímynd íslenska landsliðsins að það væri „the whipping boys of Europe“ í harðskeytt lið sem gæti staðið upp í hárinu á hvaða landsliði sem væri. Þetta markmið náðist. Í kjölfarið fylgdu góðir tímar hjá landsliðinu. Við gátum gengið út frá því sem vísu að eiga sigurvon í næstum því hvaða leik sem var og liðið sýndi alltaf mikið baráttuþrek og leikgleði.

Það er ekki tilviljun að Guðjóni Þórðarsyni tókst að breyta liðsandanum í íslenska landsliðinu. Guðjón er umdeildur maður, og sannarlega ekki allra, en enginn getur efast um að hann hefur einstakt lag á að fá menn til þess að leggja eigið egó til hliðar í þágu liðsins og til þess að leggja sig alla fram. Gleggsta dæmið um þetta var e.t.v. í hinum sögufræga landsleik Íslands og Frakklands á Laugardalsvelli þann 5. september 1998 þegar Ríkharður Daðason kom Íslandi í 1-0 gegn heimsmeisturunum. Þá hlupu leikmenn Íslands beinustu leið til þjálfara síns og fögnuðu með honum. Þessi viðbrögð leikmannanna liðsins voru í senn óvenjuleg og lýsandi fyrir þann hug sem þeir til þjálfara síns. Og af hverju það skyldi vera? Það var áreiðanlega ekki vegna þess að leikmönnunum fannst Guðjón vera svo hress og skemmtilegur náungi – heldur einmitt vegna þess að þeir höfðu skilning á því að aðferðir Guðjóns, þ.á.m. hinn mikli agi, skiluðu árangri. Leikmennirnir skildu að það var þess virði að sleppa stöku fylleríi í staðinn fyrir sælustundirnar á leikvellinum.

Síðustu tveir landsleikir hafa borið verulegri hrörnun í hugarfari leikmanna vitni. Leikmennina skortir ekki hæfileika til þess að ná árangri, svo líklegt er að eitthvað annað valdi því að liðið spili eins og það gerði í gær og gegn N-Írum í Belfast á dögunum. Rétt eins og markviss uppbygging síðustu ára var ekki tilviljun, þá hlýtur að vera óhætt að ætla að niðurlæging síðustu tveggja leikja sé það ekki heldur.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.