Erfitt verkefni bíður nýs oddvita

Leiðtogaskipti urðu í borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna fyrir helgina. Nýs leiðtoga bíður erfitt verkefni. Deiglan skoðar málið ofan í kjölinn í dag.

Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins valdi sér nýjan oddvita fyrir helgina og kom fáum á óvart að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson varð fyrir valinu. Hann tekur við af Birni Bjarnasyni sem gegndi oddvitastarfinu í einungis eitt ár eftir að hafa leitt framboðslista Sjálfstæðisflokksins í verstu kosningu flokksins í borginni frá upphafi.

Vilhjálmur býr yfir gríðarlegri reynslu af sveitarstjórnarmálum enda setið í borgarstjórn í tæpa tvo áratugi. Hann kom sterklega til greina sem eftirmaður Davíðs Oddssonar sem borgarstjóri þegar Davíð tók við embætti forsætisráðherra vorið 1991 og fékk hann jafn mörg atkvæði þá og Árni Sigfússon í kosningu innan borgarstjórnarflokksins. Úr varð að Markús Örn Antonsson var fenginn til starfans og framhaldið þekkja flestir.

Í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar 1994 náði Vilhjálmur 3. sætinu á eftir þeim Markúsi og Árna en Inga Jóna Þórðardóttir hafnaði í 4. sæti. Fjórum árum síðar varð Vilhjálmur í 2. sæti á eftir Árna og á undan Ingu Jónu. Þegar Árni hætti sem oddviti flokksins eftir ósigur fyrir R-listanum í kosningunum vorið 1998 tók Inga Jóna við sem oddviti með stuðningi Vilhjálms.

Tími Vilhjálms runninn upp

Nú er tími Vilhjálms hins vegar kominn og fróðlegt verður að sjá hvort honum takist að rífa borgarstjórnarflokkinn upp eftir herfilega útreið flokksins undir forystu Björns Bjarnasonar í síðustu borgarstjórnarkosningum.

Eftir hið sögulega afhroð borgarstjórnarflokksins sl. vor eiga Sjálfstæðismenn einungis sex borgarfulltrúa. Auk Vilhjálms og Björns sitja þau Guðlaugur Þór Þórðarson, Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Hanna Birna Kristjánsdóttir og Kjartan Magnússon í borgarstjórn fyrir D-listann. Ljóst er Gísli Marteinn Baldursson kemur ekki inn í borgarstjórn að svo stöddu, því Björn Bjarnason hyggst sitja áfram í borgarstjórn samhliða starfi sínu sem dómsmálaráðherra.

Að flestu leyti hefði auðvitað verið heppilegra fyrir Sjálfstæðisflokkinn í borginni að Björn hefði vikið sem borgarfulltrúi og hleypt ungum og upprennandi stjórnmálamanni að. Vandséð er að Björn hafi nokkru hlutverki að gegna í borgarstjórn nú þegar nýr maður er tekinn við sem oddviti og stefnan hefur verið sett á að vinna meirihlutann að nýju.

Samstarf B- og D-lista í borgarstjórn?

Ýmsum hefur orðið tíðrætt um að kunningskapur Vilhjálms og Alfreð Þorsteinssonar framsóknarmanns gæti orðið til þess að D-listinn í borgarstjórn gæti myndað nýjan meirihluta með tveimur borgarfulltrúum Framsóknarflokks. Þetta verður að telja harla ólíklegt því slíkt samstarf myndi veikja Sjálfstæðisflokkinn verulega á sviði borgarmála og í raun festa hann í sessi sem 40%-flokk í borginni. Metnaður reykvískra sjálfstæðismanna liggur auðvitað í því að vinna borgina á nýjan leik og hinn höfuðlausi her R-listans ætti að liggja nokkuð vel við höggi í næstu borgarstjórnarkosningum.

Hins vegar gæti auðvitað komið upp sú staða að meirihlutinn myndi springa á kjörtímabilinu og við því yrði auðvitað að bregðast. Hugsanlega kann staða Framsóknarflokksins innan R-lista samstarfsins að styrkjast í þessu ljósi – þegar hótunin um að borgarfulltrúar hans geti hafið meirihlutasamstarf við Sjálfstæðisflokkinn er lögð á borðið í hvert sinn sem framsóknarmenn vilja fá sínu framgengt innan R-listans.

Tekst Vilhjálms að reisa borgarstjórnarflokkinn úr öskustónni?

Líklegast er auðvitað að meirihluti R-listans haldi út kjörtímabilið. Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar bíður afar erfitt verkefni á næstu þremur árum. Hann þarf að reisa borgarstjórnarflokkinn úr þeirri öskustó sem hann tekur við honum í.

Þó er vandfundinn sá maður sem er hæfari til þess verks en Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson. Sú mikla þekking sem hann hefur á málefnum höfuðborgarinnar og sveitarfélaga almennt, sú virðing sem hann nýtur langt út fyrir raðir samherja sinna í pólitík og reynsla hans sem stjórnmálamanns mun nýtast Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík vel í þeirri endurreisn sem fram undan er.