Fortíð og framtíð Menntaskólans í Reykjavík

Fáar skólastofnanir eru eins samofnar sögu Íslands eins og Menntaskólinn í Reykjavík. Eins og flestir þekkja á skólinn rætur sínar að rekja til Bessastaða. Alþingi hafði þar aðsetur á árunum 1845-1879 og þjóðfundur um stjórnskipun Íslands var haldinn þar árið 1851. Kennsla hófst í núverandi húsnæði árið 1846 og fékk skólinn nafnið Menntaskólinn í Reykjavík árið 1937.

Fáar skólastofnanir eru eins samofnar sögu Íslands eins og Menntaskólinn í Reykjavík. Eins og flestir vita á skólinn rætur sínar að rekja til Bessastaða. Alþingi hafði þar aðsetur á árunum 1845-1879 og þjóðfundur um stjórnskipun Íslands var haldinn þar árið 1851. Kennsla hófst í núverandi húsnæði árið 1846 og fékk skólinn nafnið Menntaskólinn í Reykjavík árið 1937.

Skólinn hefur ávallt lagt ríka áherslu á að bjóða nemendum sínum upp á metnaðarfulla kennslu og í hann hefur sótt hæfaleikaríkt námsfólk. Nemendur menntaskólans hafa sýnt að þeir kalla ekki allt ömmu sína og hafa vinningssæti í stærðfræði- og eðlisfræðikeppni nemenda á framhaldsskólastigi oftar en ekki fallið í þeirra hlut. Jafnframt virðist enginn skóli hafa tærnar þar sem M.R. hefur hælana þegar kemur að spurningakeppni framhaldsskólanna, Gettu betur. Svo virðist sem allt gangi mjög vel og skólinn sé á margan hátt fyrirmynd annarra skóla á framhaldsskólastigi.

En margt gengur verr en varir. Skólinn býr við langvarandi og sífellt versnandi húsnæðisvanda. Þó að vissulega sæki margir nemendur í að fá kennslu í þessu sögufræga húsnæði er varla hægt að segja að þar sé viðunandi vinnuaðstaða fyrir nemendur og kennara. Aðeins lítill hluti af kennslu fram í aðalbyggingu skólans. Notast er við bráðabirgðahúsnæði í nágrenninu sem í fæstum tilfellum var ætlað til kennslu og tekið í notkun í neyð. Sú neyð hefur ílengst í allt að 30 ár. Mikill tími nemenda og kennara fer í að ferðast á milli skólastofa í þessum byggingum sem eru hver annarri loftlausari og geta nemendur prísað sig sæla ef almennilega sést á kennslutöflur úr sætum þeirra.

Aðstaða kennara er alls ekki nógu góð og hafa fæstir þeirra nokkra aðstöðu til að sinna skyldum sínum gagnvart nemendum utan kennslustofunnar. Margir hafa brugðið á það ráð að vinna frekar heima.

Leikfimisaðstaða Menntaskólans er kapituli út af fyrir sig. Sjálfur aðalsalurinn er allt of lítill til að stunda nokkra íþróttagrein þó að hægt sé að hoppa yfir hestinn og klifra í köðlunum. Leikfimiskennslu í skólanum er sniðinn það þröngur stakkur að nauðsynlegt er kenna leikfimi í gömlum bílskúr sem vinnueftirlitið hefur nú þegar gert alvarlegar athugasemdir við. Sturtur eru fyrir löngu úr sér gengnar og eflaust á undanþágu frá heilbrigðisyfirvöldum og er ótrúlegt hversu lengu ástandið hefur viðgengist.

Þegar undirritaður stundaði nám í Menntaskólanum í Reykjavík gekk sú saga fjöllum hærra að ef kviknaði í gömlu byggingunni yrði hún alelda á 7 mínútum og um 9 mínútur tæki að tæma hana. Ekki þurftum við að stunda stærðfræðina stíft til að reikna það dæmi til enda. Einnig mætti spyrja sig hversu auðvelt væri að slökkva elda í Menntaskólanum ef svo illa færi.

Þó að aðstaða nemenda og kennara sé með þeim hætti sem áður hefur verið lýst er öllum ljóst að Menntaskólinn í Reykjavík er merkileg menntastofnun. Fjárframlög annarra framhaldsskóla hafa verið miðuð við rekstur hans og hafa stjórnendur lagt mikla áherslu á að gera sér gott úr því sem þeir hafa. Hæfaleikaríkir námsmenn og kennarar sækja skólann og bera ríkar tilfinningar til hans. Því er einkennilegt að starfsfólk og nemendur búi ekki við svipaða aðstöðu og þekkjast í öðrum framhaldsskólum og skólinn sé ekki gerður þannig úr garði að hann geti aðlagað sig breyttum tímum.

Í ræðu sem Yngvi Pétursson, rektor M.R, hélt við brautskráningu fyrir helgi sagði hann að deila á milli ríkisins og Reykjavíkurborgar væri Þrándur í Götu nauðsynlegrar uppbyggingar Menntaskólans. Hann sagði jafnframt að ,, miðað við hástemmdar raddir á opinberum vettvangi um mikilvægi kennslu og skólahalds hljóta að vera fyrir hendi lágmarksviðmiðanir um aðbúnað í kennsluhúsnæði fyrir nemendur í framhaldsskóla á 21. öldinni.”

Mörg loforð hafa verið gefin um að endurbætur á húsnæði M.R. og er skemmst að minnast samkeppni um heildarskipulag á lóð Menntaskólans. Lítið hefur verið um efndir og svo virðist sem andvarleysi ríki um varðveislu menningarsögulegra verðmæta sem liggja nú undir skemmdum.

Mikilvægt er að gripið verði í taumana sem fyrst og ótækt að deilur Reykjavíkurborgar og ríkisins standi í vegi fyrir svo mikilvægu máli. Bæði arfleifð okkar og framtíð á mikið undir því komið að vel sé búið að Menntaskólanum í Reykjavík.

Latest posts by Brynjólfur Stefánsson (see all)

Brynjólfur Stefánsson skrifar

Brynjólfur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.