Öfund og samstaða

Það hefur því miður stundum komið í ljós að í stað þess að Íslendingar geti treyst á hvern annan í landvinningum erlendis reynumst við hver öðrum skeinuhættastir. Við erum lítil þjóð og erum háð því að landar okkar og fyrirtæki nái árangri í viðskiptum erlendis. Það er því miður að sjá fyrirtæki eins og SÍF og SH, Landsteina og Streng undirbjóða hvern annan í gegnum tíðina og spilla fyrir hverjum öðrum erlendis í viðleitni sinni við að ná árangri. Það er afskaplega mikilvægt að við stöndum saman er við á og aðstoðum hvern annan í hinum stóra heimi fremur en að öfundast og spilla fyrir.

Undanfarið hefur verið fjallað mikið um fjárdráttarmál innan Landssímans, en eins og kunnugt er hefur fyrrverandi aðalgjaldkeri Símans verið í yfirheyrslum vegna málsins ásamt viðskiptafélögum sínum. Þykir pistlahöfundi sumir fjölmiðlar hafi þar sakfellt menn í umfjöllun sinni sem ekki einu sinni er búið að ákæra, hvað þá dæma, og í eftirgrennslan á málsinu hafi viðkomandi aðilar farið fram úr sér og þóst sjá svik í hverju horni. Nú er margt sem bendir til þess að einhverjir þessara aðila hafi óhreint mjöl í pokahorninu en það verður að teljast óheilbrigt og óþolandi að menn séu rýrðir öllu áliti í fjölmiðlum með getgátum áður en dæmt er í málum þeirra. Þess skal þó getið að umfjöllun RÚV og Morgunblaðsins um málið hefur verið hvað málefnalegust.

Skömmu eftir að Landssímamálið kom upp á yfirborðið gerði sænska lögreglan húsleit í fimm löndum vegna gruns um innherjaviðskipti í tengslum við yfirtöku Kaupþings á JP Nordiska. Húsleit var meðal annars gerð á skrifstofu Bakkavarar í London og á heimili forstjóra Bakkavarar. Þessir sömu fjölmiðlar voru þá fljótir til, enn heitir eftir Landssímamálið, með getgátur og umræður um viðskiptasiðferði bræðranna í Bakkavör. Þó að ekki hafi verið gengið jafn hart fram í því máli virtust engu að síður einstaka fréttamenn nánast ganga út frá því að bræðurnir væru sekir, með umræðum í kjölfarið um lélegt viðskiptasiðferði á Íslandi og hvítflibbaglæpamenn. Hér skal ekki lagt mat á ásakanir um innherjasvik eða sekt/sýknu einstakra manna því tengdu. Þó skal það tekið fram að bræðurnir kenndir við Bakkavör, sem sakaðir eru um að hafa haft vitneskju um fyrirætlanir Kaupþings með JP Nordiska, keyptu sína hluti í félaginu daginn eftir að ljóst var að Kaupþing myndi reyna yfirtöku á félaginu. Það mætti því alveg eins beina sviðsljósinu að því hvort sænska lögreglan hafi ef til vill gengið of harkalega fram í málinu og velta upp þeirri spurningu hvort öðruvísi hefði verið að verki staðið ef málsaðilar væru sænskir, en ekki íslenskir.

Það hefur ekki verið þrautalaust fyrir Kaupþing að komast inn á sænska markaðinn og vegið hefur verið að fyrirtækinu í hvívetna í sænskum fjölmiðlum. Svíar eiga það til að líta á sig sem herra norðursins og ef til vill hefur það sært stolt einhverra sænskra fjármálajöfra að sjá Íslenska víkinga gera strandhögg í heimalandinu. Komi í ljós að ekki reynist fótur fyrir umræddum ásökunum væri verðskuldað að íslenskir fjölmiðlar gerðu sér mat úr þessu og sýndu samstöðu með þeim er standa upp í stafni.

Okkur Íslendinga skortir oft samstöðu og gamla góða öfundin virðist vera þar margfallt yfirsterkari. Það hefur því miður stundum komið í ljós að í stað þess að Íslendingar geti treyst á hvern annan í landvinningum erlendis reynumst við hver öðrum skeinuhættastir. Við erum lítil þjóð og erum háð því að landar okkar og fyrirtæki nái árangri í viðskiptum erlendis. Það er miður að sjá fyrirtæki eins og SÍF og SH, Landsteina og Streng undirbjóða hvern annan í gegnum tíðina og spilla fyrir hverjum öðrum erlendis í viðleitni sinni við að ná árangri. Það er afskaplega mikilvægt að við stöndum saman er við á og aðstoðum hvern annan í hinum stóra heimi fremur en að öfundast og spilla fyrir. Sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér.

Latest posts by Davíð Guðjónsson (see all)