Hvort á að stytta framhaldsskólann eða grunnskólann?

Hvort á að stytta framhaldsskólann eða grunnskólann?Verðandi menntamálaráðherra Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir lýsti því yfir í Kastljósi á sunnudagskvöld að eitt af hennar fyrstu verkum yrði að stytta framhaldsskólann. Víst er það rétt að Íslendingar ljúka framhaldsskóla einu eða tveimur árum síðar en þær þjóðir sem við berum okkur saman við. En er ekki rétt að skoða fyrst hvort skynsamlegra sé að stytta grunnskólann.

Hvort á að stytta framhaldsskólann eða grunnskólann?Ég var í Austurbæjarskóla og fór þaðan í MR og verð að segja að sé markmið skóla að nýta vel tíma nemenda, þá vil ég frekar sleppa ári í grunnskóla en framhaldsskóla.

Við erum ekki alltaf „á bekk meðal fremstu þjóða heims“ í menntamálum

En það er að fleiru að hyggja, en færa niður aldur nemenda sem ljúka framhaldsskólum. Í stjórnarsáttmálanum, sem kynntur var í síðustu viku, stendur m.a. um menntamál að markmiðið sé þar „að Íslendingar skipi sér enn sem fyrr á bekk meðal fremstu þjóða heims“. Því miður erum við of oft langt frá því að vera „á fremsta bekk“ í menntamálum. Um 30% nemenda ljúka ekki prófi úr framhaldskóla og er það mun hærri tala en í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Þar erum við sannarlega ekki „á fremsta bekk“, nema með öfugum formerkjum. Í grunnskólum er lagður grunnur að árangri nemenda í framhaldsskólum. Innlendar rannsóknir sýna að einkunnir á grunnskólaprófum segja mjög mikið fyrir um hvernig nemendum vegnar í framhaldsskólum. Alþjóðleg rannsókn sýndi, að íslenskir grunnskólanemendur standa jafnöldrum sínum að baki í lykilgreinum. Í 8. bekk voru íslenskir nemendur í 20. sæti af 25 þjóðum í náttúrufræðum. Í annarri undirstöðugrein, stærðfræði, voru íslensku nemendurnir í 21. sæti. Lestrarörðugleikar eru af ýmsum taldir ein orsök þess að nemendur ráða ekki við framhaldsskólanám. Nýjar tölur sýna að við erum hér í 21. sæti í heiminum hvað varðar lestrarfærni.

Grunnskólanám þarf að bæta

Ef við eigum að komast „á fremsta bekk“ í menntamálum er augljóst fyrir mér að það þarf að bæta grunnskólann, nýta tímann þar betur. Ég er ekki sérfræðingur á því sviði og annarra að koma með tillögur um úrbætur, ef við eigum að standast alþjóðlegan samanburð og ef fleiri eiga að ljúka framhaldsskóla- og jafnvel háskólaprófi. Það eina sem ég vil segja að ég hefði ekki viljað missa ár úr í framhaldsskóla en býð Þorgerði Katrínu uppá grunnskólann, sem mætti stytta, en ekki síður verður að bæta.