Vinagreiðar

Það er auðvitað bara fyndið hvernig atkvæðagreiðslan í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva fer fram. Grikkir fá 12 stig frá Kýpurbúum og Norðurlandaþjóðirnar styðja hver við aðra. En þrátt fyrir það var keppnin í gær hin ágætasta skemmtun.

Það er svo sem engin ástæða til að kvarta sérstaklega yfir stigagjöfinni í gærkvöldi. Þessir vinagreiðar virðast jafna hvern annan út svo þegar öllu er á botninn hvolft fá flest löndin líklega eðlilegan stigafjölda. Íslendingar geta vel við unað eftir 12 stig frá Noregi og Möltu en andskotans Svíarnir klikkuðu og gáfu okkur bara 7. Niðurstaðan var því 8-9. sæti sem er ljómandi árangur.

Sigurvegari í ár varð Tyrkland eftir nokkuð harða keppni við Belga og Rússa. Lagið þykir ákaflega líkt popplagi söngkonunnar Holly Valance þótt það sé líklega eins og að kasta steinum úr glerhúsi ef Íslendingar ræða það eitthvað sérstaklega. Söngdúettinn T.A.T.U. varð í þriðja sæti eftir einkar óspennandi frammistöðu og hefðu þær betur farið úr að ofan. Bretar ráku lestina með ekkert stig og áttu það svo sannarlega skilið. Í rauninni er ástæða til að banna Bretum að vera með í keppninni framar, svo slæmt var þeirra framlag.

Birgitta stóð sig með prýði og eflaust hefði hún grætt á því að vera aftar í röðinni. Það er erfitt að byrja og margir áhorfendur ekki sestir fyrir framan sjónvarpstækin. Hún tryggði þó þátttökurétt Íslendinga á næsta ári sem flestir eru auðvitað mjög ánægðir með. Auk þess gerði hún okkur þann greiða að vinna ekki en það hefði hörmulegar afleiðingar í för með sér. Kostnaðurinn við að halda svona keppni er óheyrilegur og ljóst að RUV gæti engan veginn staðið undir honum.

Reyndar finnst mörgum lítið til keppninnar sjálfrar koma en nota tækifærið þess í stað til að hitta vini og kunningja, grilla og fá sér í glas. Sumir fara í drykkjuleiki með misgáfulegum reglum. Einn þeirra byggist á því hversu bjánalegir kynnarnir eru, lögin leiðinleg eða búningarnir asnalegir. Það er að segja einn sopi fyrir lélegan brandara, leiðinlegt lag eða ljóta flík. Fæstir þeirra sem taka þátt í slíkum leikjum endast alla keppnina.

Þegar öllu er á botninn hvolft er það ef til vill mikilvægasta framlag þessarar keppni til þjóðarsálarinnar. Ekki drykkjuleikirnir heldur samvera fólks. Það er ekki svo oft sem Íslendingar sameinast fyrir framan sjónvarpið til að fylgjast með því sem gerist í hinum stóra heimi. Reyndar virðast það aðeins vera landsleikir handboltalandsliðsins á stórmótum og Evróvisíon sem kveikja þess þjóðarást hjá mönnum. Og þá er um að gera að stilla á RUV og taka þátt í gleðinni í ótruflaðri dagskrá.

baldvin@deiglan.com'
Latest posts by Baldvin Þór Bergsson (see all)