Tilþrifalítill stjórnarsáttmáli

Ríkisstjórnarsáttmáli Sjálfstæðiflokks og Framsóknarflokks felur ekki í sér stórkostleg tíðindi. Skattalækkunartillögur Sjálfstæðisflokksins virðast að hluta til ætla að ná fram að ganga þótt það sé orðað varlega. Tillögurnar í sjávarútvegsmálum virðast við fyrstu sýn vera afleitar og síst til þess fallnar að auka veg þessa undirstöðuatvinnuvegs þjóðarinnar.

Stjórnarsáttmálinn sem kynntur var í gærkvöld veldur vonbrigðum. Svo virðist sem þeir fersku vindar aukins frjálsræðis sem fyrri stjórnir Davíðs Oddssonar báru með sér hafi að mestu lygnt. Í sáttmálanum eru til dæmis engin ný áform um einkavæðingu, þó af nógu sé enn að taka í þeim efnum. Þá er horfið frá þeirri stefnu fyrri stjórnar að breyta skipulagi orkumála þannig að samkeppni verði innleidd á því sviði. Engin áform eru um lækkun styrkja til landbúnaðarins né stuðning við aukið frjálsræði í viðskiptum með landbúnaðarvörur.

Verst er þó sú stefna sem orðið hefur ofaná í sjávarútvegsmálum. Þar er lagt til að framsal aflaheimilda verði takmarkað og að byggðakvóti verði aukinn. Hvort tveggja eru skref í ranga átt. Frjálst framsal aflaheimilda er forsenda þeirrar hagræðingar og endurnýjunar sem ávallt þarf að eiga sér stað í sjávarútvegi. Takmörk á framsali munu draga úr hagkvæmni í greininni og þannig skerða hag þjóðarinnar. Með aukningu byggðakvóta er vægi stjórnmálamanna í úthlutun aflaheimilda aukið á kostnað markaðslögmálanna. Slíkt er einungis til þess fallið að draga úr hagkvæmni í greininni og ýta undir gamaldags fyrirgreiðslupólitík.

Stjórnarsáttmálinn er þó ekki alslæmur. Fagna ber áformum nýrrar ríkisstjórnar um lækkun skatta á næstu árum. Ríkissjóður stendur nú betur en hann hefur gert í háa herrans tíð eftir skynsama stjórn ríkisfjármála undir stjórn Sjálfstæðisflokksins í 12 ár. Það liggur því beint við að skattgreiðendur fái að njóta þessa árangurs í formi lægri skatta. Mikilvægt er að skrefið um 4% lækkun tekjuskatts sé stigið til fulls og mælir ýmislegt með því að það verði gert fyrr á kjörtímabilinu fremur en seinna, þ.e. áður en áhrif álversframkvæmda fara að hafa full áhrif í hagkerfinu.

Þá er einnig mikilvægt að hefja nú þegar vinnu við endurskoðun virðisaukaskattskerfisins ef einhverjar lækkanir eiga að koma fram á þessu kjörtímabili. Sjálfstæðisflokkurinn lofaði lækkun neðra þreps úr 14% í 7% og það er mikilvægt, sérstaklega í ljósi yfirlýsinga formanns flokksins í kosningabaráttunni, að staðið verði við þetta loforð.

Áform um hærra lánshlutfall almennra íbúðarlána hafa í för með sér nokkra hættu á þenslu á húsnæðismarkaði en með því að hækka mögulega veðsetningu húsnæðis færumst við nær öðrum löndum í þeim efnum. Æskilegt hefði verið ef stjórnarsáttmálinn hefði kveðið á um að taka til endurskoðunar það form sem nú er á húnsæðismálum með það fyrir augum að leggja Húsnæðislánasjóð niður og færa viðskiptin inn á almennan bankamarkað. Á móti þessum þensluhvetjandi aðgerðum er kveðið á um aukinn viðbótarlífeyrissparnað.

Loforð ríkisstjórnarinnar um skattalækkanir gera það þó enn brýnna en ella að aðhalds verði gætti í ríkisútgjöldum á kjörtímabilinu. Sú mikla þensla sem útlit er fyrir að geti skapast á meðan á byggingu virkjana og álvers á Austulandi stendur gera það að verkum að nauðsynlegt að er sérstaks aðhalds verði gætt í ríkisbúskapnum. Því miður er lítið fjallað um hvernig útgjöld ríkisins verði hamin á kjörtímabilinu í stjórnarsáttmálanum, en ekki væri vitlaust að líta til tillagna Samtaka verslunarinnar um fækkun ríkisstofnanna í þeim efnum.

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks siglir nú inn í sitt þriðja kjörtímabil. Þessi stjórn hefur náð miklum árangri og fært fjölmörg mál til betri vegar hér á landi. Þótt ýmislegt sé aðfinnsluvert við stjórnarsáttmálann vonast Deiglan til að starf ríkisstjórnarinnar verði þjóðinni áfram til heilla.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)