Á Íslandi ríkir ekki tjáningarfrelsi

Fyrir helgi féll dómur í héraðsdómi Reykjavíkur í máli manns sem sakaður var um brot á 233. gr. hegningarlaga með ummælum sínum um þeldökka. Maðurinn var dæmdur til þess að greiða 30 þús. króna sekt eða sæta sex daga gæsluvarðhaldi. Þessi dómur er merkilegur fyrir þær sakir að aldrei fyrr hefur reynt á fyrrnefnda löggjöf auk þess sem mál að þessu tagi vekja upp spurningar um takmarkanir á tjáningarfrelsi og hvort þær geti verið réttlætanlegar.

Fyrir helgi féll dómur í héraðsdómi Reykjavíkur í máli manns sem sakaður var um brot á 233. gr. hegningarlaga með ummælum sínum um þeldökka. Maðurinn var dæmdur til þess að greiða 30 þús. króna sekt eða sæta sex daga gæsluvarðhaldi. Þessi dómur er merkilegur fyrir þær sakir að aldrei fyrr hefur reynt á fyrrnefnda löggjöf auk þess sem mál að þessu tagi vekja upp spurningar um takmarkanir á tjáningarfrelsi og hvort þær geti verið réttlætanlegar.

Um það leyti sem málið kom upphaflega til umræðu fjallaði Deiglan nokkuð um það. Í pistli þann 29. mars sl. sagði Þórlindur Kjartansson:

„Umræðan um tjáningarfrelsi á síðustu vikum er að miklu leyti sprottin vegna þess að DV ákvað fyrir skömmu að birta stórt viðtal við ungan rugludall sem hefur að haldreipi í lífinu þá skoðun að hann sé betri en aðrir vegna þess að hann er næmur fyrir sólbruna og húðkrabbameini. Hugmyndir hans dæma sig sjálfar. Hlutverk þeirra sem vita betur er að fordæma málflutninginn og benda á það hversu kjánalegur hann í raun sé. Þessar hugmyndir geta meira að segja varla flokkast sem skoðanir, svo kjánalegar eru þær – eða er til dæmis hægt að hafa þá “skoðun” að jörðin sé flöt? Nei. Það er einfaldlega rangt. Eins er það ekki “skoðun” að halda því fram að sumir kynþættir séu öðrum æðri. Það er einfaldlega rangt og fólki verður að leyfast að halda kjánaskap sínum á lofti því þannig öðlast skynsamari viðhorf aukið gildi.“

Dómurinn yfir Hlyni Frey Vigfússyni er varhugaverður í mörgu tilliti og raunar þá er hann ekki eina atlagan að tjáningarfrelsi sem gerð hefur verið upp á síðkastið. Á síðasta þingi voru samþykkt lög um tóbaksvarnir þar sem skorður á tjáningarfrelsi voru lögfestar. Í pistli hér á Deiglunni þann 31. maí sl. sagði Andri Óttarsson, lögfræðingur, m.a.:

„Tjáningarfrelsi er hluti af grundvallarmannréttindum borgaranna og einn af hornsteinum lýðræðis. Það er verulegt áhyggjuefni ef stjórnmálamenn setja lög sem ganga gegn eða takmarka það grundvallarmannréttindi manna sem tjáningarfrelsið er.“

Í sama pistli kemur fram að Jónína Bjartmarz, alþingismaður, hafi látið þau ummæli falla að hún sæi fyrir sér frekari skorður á tjáningarfrelsinu.

Deiglan hefur áður varað við hömlum á tjáningarfrelsinu því slíkar hömlur verða alltaf háðar gildismati ríkjandi aðila í þjóðfélaginu. Best er að menn geti liðið hverjum öðrum að hafa sínar skoðanir, sama hversu vitlausar, og geri sitt besta til þess að tala fólk ofan af þeim. Það er nefnilega ekki hægt að vera með hálfgert tjáningarfrelsi og það gengur þvert á megininntak tjáningarfrelsins, að gera hálfvitalegan málflutning, eins og þann sem hér um ræðir, refsiverðan.

Í bók sinni, Frelsinu, lýsir John Stuart Mill nauðsyn þess að heimskulegur málflutningur fái að heyrast. Í rökræðunni muni koma í ljós af hverju viðkomandi hefur á röngu standa og þeir sem skynsamlegri afstöðu hafa munu standa sterkari á eftir. Dómurinn sem féll í héraðsdómi fyrir helgi felur í sér að á Íslandi ríkir ekki slíkt tjáningarfrelsi – og líklega mun sá dómur því ekki verða til þess að auðvelda það verkefni að uppræta fordóma og fávisku í íslensku samfélagi.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)