Um tilverugrundvöll sérstaks ferðamálaráðuneytis

Sú mikla athygli sem stjórnmálamenn hafa sýnt íslenskum landbúnaði er væntanlega óræk sönnun fyrir því, að enginn atvinnuvegur getur verið án sérstaks ráðuneytis og síns eigin ráðherra.

Hagsmunaaðilar í ferðaþjónustu hafa verið óþreytandi að undanförnu við að benda á þá staðreynd, að þeirra atvinnuvegur færir þjóðinni mestu gjaldeyristekjurnar á eftir sjávarútvegi. Ferðaþjónustan, eða túrisminn, mun þannig vera verðmætari en álframleiðslan og auðvitað miklu verðmætari en blessaður landbúnaðurinn. Og af hverju hafa hagsmunaaðilar í ferðaþjónustu bent á þessar staðreyndir? Af því að þeim finnst skorta á að ríkið sinni ferðþjónustunni sem skyldi, þ.e.a.s. þeir vilja að komið verði á fót sérstöku ferðamálaráðuneyti.

Þannig er það að túrisminn þarf að fá sitt ráðuneyti og sinn ráðherra. Eins og reynslan hefur sýnt með hina atvinnuvegina, þá hafa afskipti hins opinbera verið til mikilla bóta. Til að mynda er hreint ótrúlegt að hér skuli hafa verið róið til fiskjar um árhundruð og höndlað frjálst með landbúnaðarvörur áður en stjórnmálamenn blönduðu sér í málin. Sú mikla athygli sem stjórnmálamenn hafa sýnt íslenskum landbúnaði er væntanlega óræk sönnun fyrir því, að enginn atvinnuvegur getur verið án sérstaks ráðuneytis og síns eigin ráðherra. Það mun raunar vera fjarstæðukennt til þess að hugsa, að hingað til lands skuli vilja koma fólk og vera hér túristar, kaupa gistingu, ferðir og ýmsar vörur, án þess að starfrækt sé í landinu sérstakt ráðuneyti um þennan atvinnuveg?

En skyldi það nú kannski vera mergurinn málsins, að þessi krafa hagsmunaaðila í ferðaþjónustu, sýnir okkur hvað best fram á fáránleika þess, að halda hér uppi næstum tuttugu ráðuneytum. Vitaskuld á að fella alla atvinnuvegina undir eitt atvinnuvegaráðuneyti. Síðan skyldu umhverfis-, skipulags- og samgöngumál falla undir umhverfisráðuneyti. Heilbrigðis, – trygginga-, félags- og menntamál féllu undir velferðarráðuneytið (úff!) og ráðuneyti dómsmála, fjármála, utanríkismála stæðu óbreytt, auk forsætisráðuneytisins (hér er gert ráð fyrir að menn sjái loks vitið í því að ríkið reki hvorki kirkju né menningu, en annars félli það væntanlega undir velferðarmál!). Sumsé sjö ráðuneyti í stað sextán, og jafnvel mætti ganga lengra – t.a.m. gætu utanríkismál verið í höndum forsætisráðherra.

Það er því vert að hlusta vandlega á kröfur hagsmunaðila í ferðaþjónustu um sérstakt ferðamálaráðuneyti. Gott er síðan að ímynda sér að ofangreind breyting væri gengin í gegn og hagsmunaðilar í landbúnaði, iðnaði, sjávarútvegi, viðskiptalífinu, heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu, félagslega kerfinu o.s.frv. heimtuðu sitt ráðuneyti. Ef sérstakt ferðamálaráðuneyti er óþarft, þá eru hin hagsmunamála-ráðuneytin það einnig.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.