Hnýsin húsfélög

Í sameiginlegri grein eftir formann og lögfræðing Húseigandafélagsins sem birtist í nýjasta tölublaði Lögreglumannsins er reglugerð um meðferð persónuupplýsinga hjá lögreglu nr. 322/2001 harðlega gagnrýnd. Lögfræðingar húseigendafélagsins lýsa yfir mikilli óánægju með reglugerðina en skv. henni geta húsfélög ekki undantekningalaust fengið afhentar allar lögregluskýrslur um erfiða íbúa í viðkomandi fjölbýlishúsi.

Í sameiginlegri grein eftir formann og lögfræðing Húseigandafélagsins sem birtist í nýjasta tölublaði Lögreglumannsins er reglugerð um meðferð persónuupplýsinga hjá lögreglu nr. 322/2001 harðlega gagnrýnd. Lögfræðingar húseigendafélagsins lýsa yfir mikilli óánægju með reglugerðina en skv. henni geta húsfélög ekki undantekningalaust fengið afhentar allar lögregluskýrslur um erfiða íbúa í viðkomandi fjölbýlishúsi.

Í 55. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1996 er heimild fyrir húsfélög til að neyða erfiða íbúa til að selja eign sína og flytja úr húsinu ef hann hefur orðið uppvís af grófum eða ítrekuðum brotum. Húsfélagið ber eðlilega sönnunarbyrðina fyrir því að háttsemi íbúans hafi réttlætt þessa ráðstöfun og spila þar lögregluskýrslur stóra rullu. Greinarhöfundar halda því fram að reglugerðin hafi takmarkað þetta úrræði húsfélaga. Í greininni kemur fram að ef íbúar kæri einhverja háttsemi hjá erfiðum nágranna þá geti þeir fengið allar lögregluskýrslurnar um málið en öðru máli gegni um mál þar sem íbúar kæra ekki háttsemina. Eru dæmi tekin af lögreglurannsóknum svo sem leit að þýfi og/eða fíkniefnarassíu. Greinarhöfundar fullyrða að húsfélagið og aðra eigendur varði um öll afbrot íbúa, hverja hann fær í heimsókn og rassíur lögreglu, hvort sem það ónáði íbúana með beinum hætti eður ei. Telja greinahöfundar að húsfélög og eigendur eigi lögvarða hagsmuni til heimilisfriðs og eðlilegs lífs sem vegi þyngra en friðhelgi einkalífs erfiðs íbúa. Þess vegna eigi húsfélög alltaf að hafa fullan aðgang að öllum lögregluskýrslum sem varða erfiðan íbúa til að eiga auðveldara með sönnunarfærslu til að réttlæta nauðungarflutninga og –sölu skv. 55. gr. fjöleignarhúsalaga. Ljúka lögfræðingarnir greininni á því að leggja til að henni verði breytt þannig að hagsmunir húsfélaga og löghlýðinna eiganda verði ekki fyrir borð bornir.

Umrædd reglugerð var sett til að tryggja lágmarks persónuvernd við vinnslu persónuupplýsinga hjá lögreglu. Fyrir setninguna hafði lögreglan legið undir ámæli fyrir upplýsingagjöf til ólíklegustu einstaklinga og stofnana og jafnframt fyrir óeðlilega söfnun á persónuupplýsingum. Hún var mikil bragabót enda tók hún á framkominni gagnrýni og fól í sér ákveðnar vinnureglur við söfnun, meðferð og miðlun persónuupplýsinga hjá lögreglu.

Það er ljóst að persónuupplýsingar í lögregluskýrslum eru með viðkvæmustu persónuupplýsingum sem skráðar eru hér á landi. Þær fela oftar en ekki í sér upplýsingar um sakaferil, áfengis- og vímuefnaneyslu, kynlífshneigðir og fleiri viðkvæmar persónuupplýsingar sem menn vilja ekki bera á torg. Í 8. gr. reglugerðarinnar kemur fram að persónuupplýsingum verði einungis miðlað til annarra stjórnvalda eða einkaaðila í eftirfarandi tilvikum:

1. samkvæmt samþykki hins skráða eða

2. samkvæmt lagaheimild eða

3. samkvæmt heimild Persónuverndar eða

4. ef miðlun upplýsinga er nauðsynleg til að koma í veg fyrir alvarlega og aðsteðjandi hættu.

Þessar miklu takmarkanir eru í samræmi við viðkvæmni persóunuupplýsinganna og gera utanaðkomandi aðilum mjög erfitt um vik að nálgast þær. Það er alveg ljóst að friðhelgi einkalífs yfir þessum gífurlega viðkvæmu persónuupplýsingum vegur mun þyngra en almennur réttur íbúa til að styrkja sönnunarfærslu sína við útburð og sölu á eign erfiðs íbúa. Atvik þar sem lögregla kemur að eigin undirlagi eða erfiðs íbúa ónáða hina íbúana oftast ekki neitt að ráði enda kæra þeir þau ekki. Í þessu samhengi ber að ítreka að íbúar fá lögregluskýrslur afhentar í þeim málum sem þeir kæra sjálfir. Þrátt fyrir að óskemmtilegt sé að hafa lögregluna og/eða ógæfufólk alltaf inn á gafli og það rýri eflaust verðgildi viðkomandi eignar þá réttlætir það ekki hömlulausa miðlun viðkvæmra persónuupplýsinga um erfiða íbúa.

Ef upp kemur atvik þar sem íbúar kæra ekki háttsemi en þurfa engu að síður á lögregluskýrslunni að halda þar sem háttsemin hefur valdið þeim ónæði þá er þeim í lófa lagið að óska eftir því við Persónuvernd að fá viðkomandi lögregluskýrslu afhenta skv. 3. tl. 8. gr. reglugerðarinnar. Persónuvernd myndi þá framkvæma hagsmunamat á hagsmunum húsfélagsins gagnvart friðhelgishagsmunum erfiða íbúans og ef raunveruleg þörf væri fyrir hendi myndi húsfélagið líklega fá lögregluskýrsluna. Þess ber að geta að af e-m óskiljanlegum orsökum þá minntust greinarhöfundar ekki á þessa leið fyrir húsfélögin sem er þegar til staðar í reglugerðinni heldur kröfðust eingöngu að henni yrði breytt.

Málflutningur um að takmarka stjórnarskrárvarin réttindi afbrotamanna og ógæfufólks heyrist alltaf öðru hverju, oftast til að auðvelda húsleitir og handtökur lögreglu á þekktum ógæfumönnum. Alltaf eru sett fram þau rök að verið sé að verja einhver „göfug“ réttindi og þau eiga að réttlæta skerðingu á réttindum annara. Greinarhöfundar eyða miklu púðri í að útskýra hversu mikið mannréttindamál þetta sé fyrir íbúana á meðan þeir eru í raun að gengisfella algjörlega friðhelgi einkalífs og leggja til takmörkun á einni mestu réttarvernd sem borgaranir hafa gagnvart lögreglu. Þessi takmörkun er lögð til vegna örfárra jaðartilvika enda 55. gr. algjör undantekningarregla. Hins vegar myndi hún takmarka rétt allra gagnvart miðlun viðkvæmra lögregluupplýsinga um þá til ýmissa aðila út í bæ. Menn verða að sjá lengra en eigið nef. Mergur málsins er að ef reglugerðin yrði rýmkuð vegna húsfélaga þá væri komið fordæmi fyrir slíkri takmörkun á friðhelgi einkalífs og hver einasti hagsmunahópur gæti krafist þess sama og brátt yrði verndin að engu.

Ef erfiðir íbúar valda nágrönnum sínum ónæði þá eru þeir yfirleitt kærðir og viðkomandi nágrannar geta þá fengið lögregluskýrsluna afhenta. Ef lögreglan kemur að eigin undirlagi eða erfiðs íbúa en málið hefur sannarlega valdið íbúum ónæði þá geta þeir leitað til Persónuverndar og óskað eftir að fá viðkomandi upplýsingar. Þannig að ljóst er að húsfélög hafa heimildir til að nálgast allar þær upplýsingar sem þeir eiga rétt á. Allt umfram það er eins og hver önnur hnýsni.

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.